Fyrir skömmu brá sér til landsins maður sem bauðst til að leysa borvanda þjóðarinnar og niðurstaðan varð, að undir var skrifað og miklar væntingar urðu til.
Innviðaráðherra mundaði pennann og svo er að sjá sem framtíðin sé björt varðandi gangnagerð vítt um landið.
Hið frelsandi apparat sem nota á til verkanna gengur fyrir ,,hreinni" orku þ.e.a.s. rafmagni og eins og við vitum þá eigum við nóg af því, eða er það ekki?
Við vitum ekki hve mikla orku tólið tekur en einhver hlýtur hún að vera, en það er fleira sem ekki er alveg á hreinu fyrir okkur sem ekki vorum viðstödd kynninguna á búnaðinum, en vitum þó að Tom Swift hefði örugglega lyfst allur upp ef hann hefði frétt af þessu.
Kyndilborun mun það heita og við Íslendingar erum þau fyrstu sem fáum að njóta þess að nota tólið til þarfra hluta, því það vantar göng vítt um fjöllótt land, svo ekki sé nú talað um til Vestmannaeyja, sem eins og flestir vita eru dálítið afskeggt samgöngulega séð, ef svo má taka til orða.
Þar á líka að byrja borunina, sem ekki er borun, heldur einhverskonar bruni ef marka má myndina sem fréttinni fylgir, en hvað verður um bergið sem brennt er, fylgir ekki sögunni.
Við vonum að það hverfi eitthvað út í astralplanið, eða hvað sem það nú heitir, svo allt gangi þetta nú fljótt og vel og Vestmanneyingar fái göng fyrir rafkapla og vatnslögn, lagnir sem senn verða neðanjarðar og þar með óhultar fyrir skemmdum sem geta orðið vegna trassaskapar þeirra sem yfir þær sigla.
Það er reyndar eitt ljón í veginum, eða réttara sagt berginu, því okkur grunar að til að þetta takist vel muni þurfa rafmagn, en það er orðið af skornum skammti í landi orkulindanna.
Við höfum nefnilega verið svo gæfusöm að búið er að innræta vinstrigrænt smit inn í hina fjölbreyttu stjórnmálaflokkaflóru landsins og nú stefnir í vistvænan orkuskort af þeim sökum.
Hvað sem þessu líður, þá sjáum við dýralækni og lögfræðing, að við höldum, en báðir eru auk þess ráðherrar, skrifa undir plagg varðandi hina fyrirhuguðu ormagangagerð.
Hvort hús kólna, ljós dofna og rafbílar sofna, þegar græjunni verður stungið í samband, verður spennandi að fylgjast með, en við vonum hið besta og að senn verði hægt að aka óhindrað í gegnum hin fögru fjöll landsins.
Það mun stytta leiðir ef vel tekst til og hugsanlega getur þjóðin lagst í dvala á meðan framkvæmdirnar standa yfir og þannig lagt sitt að mörkum til orkuöflunar; vaknað svo upp og farið að njóta hinna nýju samgönguleiða.
Það verður víst eitthvað að gera, fyrst flugvélarnar fást ekki að ganga fyrir rafmagni svo vel sé.