Í upphafi skyldi endirinn skoða.

 Alþingi íslensku þjóðarinnar stuðlaði að því með flumbrugangi, að hollenskt stórfyrirtæki staðsett í Úkraínu nýtur nú forréttinda á íslenskum kjötmarkaði; nýtir sér ódýrt vinnuafl og starfar í samfélagi, sem átt hefur í stjórnarfarslegum vandræðum um árabil.

2023-03-26 (3)Formaður Bændasamtaka Íslands greinir frá því að fyrir aðeins tveimur árum fengu bændur eftirfarandi skilaboð frá afurðastöðvum:

,,Vegna birgðasöfnunar og versnandi stöðu á kjötmarkaði lækkar innleggsverð nautgripa frá og með 18. janúar næstkomandi. Allir flokkar nema ungkálfar lækka um 5% og gripir sem eru undir 200 kg lækka um 3-5% umfram almennu lækkunina. Ungkálfar eru hækkaðir um 10% til að hvetja til minni ásetnings.“

Nú er staðan önnur og þar sem rúm tvö ár tekur að ala nautgrip til slátrunar er ekki auðvelt að bregðast við kjötskorti, nema auðvitað með innflutningi, sem er draumastaða innflytjenda á kjötvörum.

Það var reyndar ekki vegna kjötskortsins sem alþingismenn stóðu að niðurfellingu allra tolla af ,,úkraínskri" kjötvöru sem reyndar er tæpast úkraínsk þegar að er gáð, því samkvæmt því sem segir í grein Gunnars Þorgeirssonar, þá er það svo að:

,,þegar grannt er skoðað hverjir eru raunverulegir framleiðendur á þessu kjöti frá Úkraínu, þá kemur í ljós að viðkomandi fyrirtæki er skráð í Hollandi og framleiðir á ársgrunni um 250.000 tonn af kjúklingi. Það er því augljóst í mínum huga að samkeppni við svona framleiðslufyrirtæki mun aldrei ganga og þarna er ekki verið að styðja við úkraínska bændur, heldur alþjóða viðskiptaveldi sem velur sér staðsetningu með hagkvæmasta framleiðslugrunninn að leiðarljósi, þ.e. ódýrt fóður og ódýrt vinnuafl."

Því verður vart trúað að þetta hafi verið það sem þingmenn íslensku þjóðarinnar hafi viljað styrkja og efla, þegar þeir flumbruðust á Alþingi og felldu niður tolla á úkraínskum afurðum.


Hin nýja framtíð íslensku þjóðarinnar?

Það eru blikur á lofti í íslenskri matvælaframleiðslu og svo er að sjá sem ætlun Alþingis sé að leggja hana alfarið af og það sem allra fyrst.

2023-03-23 (4)Þingmenn gripu tækifærið þegar átökin á milli Úkraínu og Rússlands komust á hærra stig og ákváðu að kippa svo sem unnt væri, grundvelli undan íslenskri matvælaframleiðslu.

Það sérkennilega við þá ákvörðun var, að engu máli skiptir lengur hvernig staðið er að framleiðslu afurðanna, að minnstakosti ef þær eru frá Úkraínu.

Reikna má með því að þar verði ekki staðar numið og að heimilt verði að flytja inn, í framhaldi af þessari ákvörðun, allt hvað heita hefur og án kvaða af nokkru tagi.

Ísland getur þá orðið kjörmarkaður fyrir erlenda framleiðslu sem engar kröfur stenst og engar kröfur eru gerðar um hvernig er framleidd.

Af þessu mun leiða mikla breytingu m.a. á vinnumarkaði þar sem losna mun um talsvert af vinnuafli sem bundið hefur verið í matvælaframleiðslu fyrir þjóðina, en losnar nú til annarra starfa ef einhver finnast.

Áríðandi er að eyjan okkar verði í traustu sambandi varðandi flutninga á matvælum til landsins í framtíðinni og enn betur en nú er, því ekki er gott ef hinar margumtöluðu ,,aðfangakeðjur" rofna!

2023-03-24 (10)Hvort til stendur að leggja af sjávarútveginn líka er ekki vitað, en mögulega verður hugað að því að koma iðnaðinum fyrir róða.

Hvernig það verður framkvæmt er ekki ljóst, en hvað sem þessu líður, getum við öll glaðst yfir því að eiga framsýnt og hugsandi fólk á Alþingi.

Fólk sem gætir hagsmuna þjóðar sinnar á hverju sem gengur og er vakið og sofið í því að nota sér þekkingu sína til lestri pappíra ýmiskonar, því aldrei er gert of mikið af því.

Þegar svona verður komið þarf ekki að hafa áhyggjur af leyfisveitingum til framkvæmda í landbúnaði og jafnvel ekki í öðrum starfsgreinum.

Hvað fólki verður fundið til að dundurs sem fengist hefur við þessi störf sem þannig verða með öllu óþörf er ekki gott að segja en framtíðin mun leiða í ljós hver þau verða.

Vafasamt er að allir geti fengið vinnu hjá ,,hinu opinbera" við blíantanag - sem reyndar er aflagt og því ekki í boði -, en ljóst má verða að finna verður eitthvað.

Möguleiki gæti verið að finna fólki störf við að semja, stimpla og votta pappírar af ýmsasta tagi; votta allt sem þarf að votta og sjá til þess að allt sé í besta lagi, hvarvetna og allsstaðar.

---

Við sjáum að málin hafa verið rædd af þeim sem bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti og þar líst mönnum ekki sérlega vel á blikuna sem framundan er.

Höfundur Staksteina í Morgunblaðinu hefur séð ástæðu til að fjalla um málið.

Orð eru til alls fyrst en hvort þau duga þegar til stendur að kollvarpa þeirri samfélagsgerð sem flestar þjóðir búa við og koma upp nýrri, er ekki gott segja og reyndar frekar ótrúlegt.

Opnað hefur verið fyrir tollfrjálsan innflutning frá Úkraínu og nær öruggt er að það er aðeins fyrsta skrefið , því í framhaldinu, það er að segja ef málin verða tekin í áföngum, verður opnað á tollfrjálsan innflutning frá öllum þeim þjóðum sem sæta hernaðarógn af einhverju tagi.

Og mun þá vænkast hagur innflytjenda, svo sannast mun hið fornkveðna: að fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott!

Kjötframboð og hagræðing

Hagræðingar er þörf, en illa gengur að ná henni fram og kjötframleiðslan dregst saman, en kannski þurfa neytendur ekki að óttast neitt, því alltaf er hægt að flytja inn.

2023-03-22 (7)

Og kannski er hægt að fá nautakjöt og kinda frá Úkraínu.

Væri það ekki góð lausn að flytja inn allt hvað heita hefur frá því góða landi?

Tollfrjálst að sjálfsögðu og helst óheilbrigðisskoðað, en trúlega stimplað og vottað með líkum hætti og sjá mátti í finnskri sjónvarpsþáttaröð, sem var að vísu sviðsett og leikin, en hefði vel getað verið sönn.

Fylli menn þingliðið af eldmóði sem af leiði dugnað, þá er hægt að leysa flestar flækjur og vandræðagang.

Það er þó ein spurning sem fá þarf svar við og hún er sú, hvort þeir séu aflögufærir með kindakjöt í því ágæta landi? Rétt er að taka fram þegar spurt er, að kjötið megi vera ,,fjölónæmt" og það sé jafnvel betra ef svo sé.

Íslenskt regluverk, skulum við upplýsa úkraínska sölugarpa um, að sé bæði loðið og teygjanlegt, auk þess sem spítalarými sé nægt, ef eitthvað fer úrskeiðis.

Og jafnframt það, að hægt sé að greiða fyrir kjötið með því að taka á móti sjúklingafjöld til innlagnar á íslenska spítala sem standi nú nær tómir, vegna óvæntrar heilsuhreysti íslensku þjóðarinnar.

Hagræðing er bannorð á Íslandi - getum við frætt viðskiptavini okkar um - og því séu markaðir af óvenju góðri gerð. Allt þurfi að vera sem dýrast til að það teljist gott og þó það sé kannski ekki mjög dýrt í Úkraínunni, þá sé alltaf hægt að bæta úr því þegar til Íslands sé komið.

Sé svo, að í Úkraínu sé ekki fáanlegt kindakjöt eða nauta, þá sé hægt að bæta úr því. Flytja megi inn kjöt til Úkraínu frá t.d. Nýja Sjálandi og ef ekki fæst nautakjöt þar, þá sé vafalítið hægt að finna svoleiðis vöru í Bandaríkjunum eða Brasilíu, sem flytja megi inn til Íslands í gegnum Úkraínu.

Eins og liggur í augum uppi, þá græða allir á þessu, tryggt framboð verður á kjötvörum og hver getur farið í að kaupa af öðrum öllum til hagnaðar og hagsældar.

Innrásin í Írak

 Í tilefni þess, að liðnir eru tveir áratugir frá innrás Bandaríkjanna og ,,hinna viljugu þjóða" inn í Írak, hafa nokkrir stigið fram og minnst þess hvernig hinar viljugu gengu fram á sínum tíma.

2023-03-21 (3)Hinar viljugu voru nokkrar og verða ekki taldar upp hér enda ekki þörf á, en rétt er að geta þess að Ísland var í hópnum fyrir tilstuðlan forystumanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Það er misjafnt hvernig menn bregðast við tímamótunum og hér verður litið yfir (og stiklað á stóru), annarsvegar skrif Fréttablaðsins og hins vegar umfjöllun Morgunblaðsins.

Í Fréttablaðinu er sagt strax í fyrirsögn ,,blóðugt stríð hófst með lygum" og síðan er sagan hlífðarlaust rakin og skýrð með myndum. Vitanlega er stiklað á stóru, sem eðlilegt er í dagblaðsumfjöllun, en fyrirsögnin vísar til þess að því var logið upp, af leyniþjónustu Bandaríkjanna, að Írakar ættu bönnuð efnavopn.

Því var síðan haldið fram að vegna þessarar vopnaeignar væri nauðsynlegt að ráðast á ríkið og það var gert.

Í stuttu máli er sagan sú, að engin slík vopn reyndust vera í landinu og líkast til var það versta sem í landinu fannst, til komið eftir að innrásarliðið var komið þangað.

Þekkt er framkoma bandarískra herliða við fanga í fangelsinu Abu Graib og hvernig þjóðarleiðtoginn Saddam Hussein var drepinn með mislukkaðri hengingu utan dóms og laga. Hengingu sem samkvæmt fregnum endaði ekki betur en svo, að um afhöfðun var að ræða og var það eftir öðru í þeim stríðsglæp sem þarna var drýgður.

2023-03-21 (6)Í Morgunblaðinu er sagan rifjuð upp á öðrum nótum og samkvæmt fyrirsögninni er um að ræða ,,umdeilda innrás í Írak".

Um hvað þarf að deila varðandi innrásina er ekki gott að segja.

Innrásin var gerð á upplognum forsendum og var einkaframtak Bandaríkjanna, Bretlands og ,,hinna viljugu þjóða" eins og áður sagði.

Rætt er við Björn Bjarnason og eftir honum haft, að Bretar og Bandaríkjamenn hafi sammælst um að ráðast inn í Írak og gefið fyrir því þá ástæðu að í landinu væru gereyðingarvopn, sem í ljós hafi komið að ekki var.

Hann segir að ágreiningur hafi verið um málið innan NATO og einnig milli Bandaríkjanna og ESB og reyndar líka milli Norðurlandanna. Björn bætir því við að málið sé enn hitamál í einstökum ríkjum og nefnir sem dæmi að Tony Blair hafi fengið á sig mikla gagnrýni vegna málsins.

Björn segir að það hefði verið ,,stór ákvörðun fyrir Ísland að ætla að skera sig úr" þeim þjóðahópi sem fylgdi fyrirhugaðri innrás.

Það gerðu samt Svíþjóð og Finnland og virðast hafa komist vel frá sinni afstöðu.

Eftir situr að engin raunveruleg ástæða var fyrir innrásinni önnur en upplognar sakir. Ríkisstjórn Íraks var hvorki betri né verri en margar aðrar í sínum heimshluta og þó víðar væri leitað.

Þeir sem komu Íslandi í hóp hinna viljugu þjóða verða að lifa með þeirri ákvörðun, en þeir eru ekki öfundsverðir af því að bera þann kross. Hvort það fólk trúir því að það hafi gert hið rétta er engin leið að segja, en ætli ekki megi alla vega halda því fram, að það hafi verið blekkt.

Bílaleigustyrkir og rafbílahleðsla

 Hafi rétt verið tekið eftir, þegar lesin var frétt í Ríkisútvarpinu, þá ,,hefur ríkisstjórnin ákveðið" að ráðstafa 1.000.000.000,- króna úr ríkissjóði í að styrkja bílaleigur til rafbílakaupa.

2023-03-20 (3)Þjóðinni var sagt frá því í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, að ríkisstjórnin ætlaði að gera þetta.

Hvaðan stjórnvöld hafi fengið þessa heimild til ráðstöfunar á almannafé kom ekki fram, enda þess engin þörf. Hafi ekki ríkisstjórnin slíka heimild, fæst hún vafalítið á Alþingi án minnstu fyrirstöðu.

Fram kom, að að koma þarf upp hleðslustöðvunum þar sem ferðamenn eru í gistingu. Gera má ráð fyrir að þegar til kemur verði kafað í vasa almennings til að styrkja uppsetningu hleðslustöðva á þeim stöðum, náttúrunni til heilla.

Hleðslustöðvar koma í stað bensín og olíustöðva en á er nokkur munur. Því orkan er bundin í bensíni og gasolíu eins og við flest þekkjum það, en í formi raforku þegar um er að ræða rafbíla.

2023-03-20 (2)Ferðamenn eru á ferð um landið nánast allt árið og hafa m.a. verið fastir á bílum sínum í sunnlenskum snjó og ritari hefur lent í því að koma að því að leysa þá úr snjóskafli þegar þeir komust ekki lengra.

Hafði samt ekki samband við innviðaráðherra vegna málsins!

Vafalítið rýkur ríkisstjórnin í það að ákveða ráðstöfun eins og eins milljarðs til að styrkja ferðaþjónustuaðila til að þeir geti komið upp hleðslustöðvum á gististöðum sínum.

Gera má ráð fyrir, að til að þetta geti allt gengið fram, að þá þurfi að styrkja dreifikerfi raforku að gististöðum ferðamannanna og til að það geti orðið, þurfi síðan að veita svo sem einum milljarði í það verkefni.

Upphaf raforkunnar er í raforkuverum, þar sem hennar er aflað og þaðan er henni síðan dreift út um landið.

Áhugi hefur verið á því af hálfu raforkuframleiðenda að styrkja dreifikerfið og byggja nýjar virkjanir, en ljón leynast í vegi:

Sveitarfélög sjá sér ekki hag í að heimila virkjanir vegna fáránlegra reglna sem gilda um fasteignagjöld af slíkum mannvirkjum og er satt að segja undarlegt að þau viðhorf hafi ekki komið fram fyrr.

Frá virkjunum - fáist þær byggðar - þarf síðan að leggja lagnir til að koma raforku þeirra inn á dreifikerfi raforku, og eins og flestir vita gengur það ekki andskotalaust að fá heimildir fyrir slíkum lögnum.

Vel getur síðan verið að styrkja þurfi dreifikerfi í sveitarfélögum og á áningarstöðum, til að orkan fyrir rafbílahleðslu geti komist á gististaði ferðamannanna.

Og er þá ótalið hvernig leysa skuli úr málinu varðandi hleðslu bíla í óbyggðum!

Að þessu öllu töldu, er eitt eftir sem þarf að leysa og það er andstaða vinstrigræningja og landverndinga, sem virðast vera á móti öllum virkjunum, línulögnum, jarðraski og útsýnisbreytingum af hvaða tagi sem er.

Hætt er við að milljarðarnir verði orðnir nokkuð margir þegar upp verður staðið og öll áform í þessari rafvæðingu verða komin í höfn.

Segja má með nokkrum sanni, að byrjað sé á öfugum enda, að ætla að  styrkja bílaleigur til rafbílakaupa og ganga út frá því að ekkert annað þurfi síðan að gera, en að ,,stinga í samband".

Kúamessa og verðhækkun

 


Í Morgunblaðinu sjáum við að haldin hefur verið messa í fjósinu í Gunnbjarnarholti, en á myndinni til hægri er sagt frá því í Fréttablaðinu að lambakjöt hafi hækkað um 20%.

Góða fréttin hlýtur að vera messan, en hin er verri!

Minnistætt er undirrituðum þegar honum stóð til boða að fara með í kvenfélagsferð og komið var við í kirkjunni í Hruna. Fram kom að presturinn var mikill áhugamaður um fjárrækt, en auk þess situr í minni, lifandi og skemmtileg frásögn hans af hinni frægu sögn af því: að dansað var í kirkjunni í Hruna með þeim afleiðingum að hún sökk í jörðu með öllum sem í henni voru og heyrðist í djömmurunum neðan úr jörðinni að þessu afstöðnu. Djammið hélt sem sagt áfram, þrátt fyrir að kirkjan væri komin í annan og trúlega verri stað!

Öll var þessi ferð afar skemmtileg og þakkarvert að hafa átt þess kost að njóta hennar í góðum félagsskap. Kýr hafa ritara alltaf verið frekar hugleiknar og því er það ánægjuefni að haldin hafi verið messa í fjósi og ef til vill ætti kirkjan að gera meira af því að boða erindi sitt á vinnustöðum, a.m.k. ef það er gert í sátt við þá sem þar eru og fyrir starfseminni standa.

Tuttugu prósentin.

Hækkun kindakjöts um tvo tugi prósenta eru ekki góðar fréttir fyrir okkur sem kjötið kunnum að meta, en á sér skýringar sem hægt var að sjá fyrir.

Aðföng til landbúnaðarframleiðslu hafa hækkað stórlega að undanförnu sem eðlilegt er, þegar skyndilega er klippt á aðfangakeðjur landbúnaðarframleiðslunnar. 

Það geisar styrjöld í Evrópu, stríð sem rekið er af Rússlandi annars vegar og NATO og ESB hinsvegar og stríðið er milli Rússlands og Úkraínu.

Erjur höfðu verið milli landanna um margra ára skeið á svokölluðu Donbas sjálfstjórnarsvæði sem til varð árið 2014. Erjurnar voru reyndar þannig að þær fólust í áreiti Úkraína á fólkið á svæðinu, landshluta þar sem flestir íbúarnir töluðu rússnesku og vildu tilheyra Rússlandi og það má vel halda því fram, að það hafi eins mikið verið Rússlandi til skammar að koma íbúunum ekki til hjálpar fyrr. Eins og það var skömm að því fyrir Úkraína að hafa ekkert gert til að hindra áreitið þeim megin frá. Áreiti sem iðulega voru morð af grófu tagi sem reynt var m.a. að fela í fjöldagröfum. En nóg af þessu!

Það er flestum kunnugt að vegna þessa hefur verð á vörum til framleiðslu landbúnaðarafurða hækkað stórlega, auk þess sem sum hráefni komu áður frá Rússlandi, en fást ekki lengur þaðan, eftir að viðskiptabann vesturveldanna var sett á landið. Þar er m.a. um að ræða áburðarefni, kornvöru, málma og fleira og sá samdráttur í framboði hefur afleiðingar.

Stríðið hefur staðið í heilt ár og fyrir löngu kominn tími til að menn setjist niður og ræði málin til lausnar, í stað þess að herja af fullkominni villimennsku hver á annan.

Vel getur verið, að rétt sé að verð á lambakjöti sé að hækka umfram það sem aðrar vörur hækka, en í svona samanburði verður að taka tillit til kostnaðarliðanna sem um er að ræða og vel getur verið eðlileg skýring sé á þessum mismun. 

Íslensk kornrækt

 

Grein er 16/3/2023 í Morgunblaðinu um möguleika kornræktarinnar.

Hægt er ,,að stór­auka korn­rækt [...] hér á landi. Sviðsmynd fyr­ir þróun korn­rækt­ar til árs­ins 2027 sýn­ir 25 þúsund tonna upp­skeru sem er ríf­lega tvö­föld­un á þeim 10.700 tonn­um sem áætlað er að rækt­un­in hafi skilað á síðasta ári og sviðsmynd fyr­ir árið 2033 sýn­ir 48.500 tonna upp­skeru".

Meðal þeirra atriða sem fram koma í greinargerð þriggja sérfræðinga er að nægjanlegt land sé til að hægt sé að stórauka kornrækt í landinu. 

Gert er ráð fyrir að ræktunin verði að stærstum hluta á Suðurlandi og að stefna ætti á tæplega 50.000 tonna framleiðslu í heild og þ.a. um 30.000 tonn á Suðurlandi. 

Lagt til aða komið verði upp kornsamlagi sem taki við korni til þurrkunar, sem verði gert með heitu vatni og að sú starfsemin verði í Flóahreppi.

Gert er ráð fyrir að ríkið greiði árlega hálfan milljarð í kornræktarsjóð til stuðnings við ræktunina og fjárfestingu í þurrkstöðvum o.fl.

,,Marg­ar skýrsl­ur hafa verið skrifaðar um að efla korn­rækt en lítið orðið úr aðgerðum. Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra sagði á kynn­ing­ar­fundi í gær að aðgerðaáætl­un þessi bæri þó af vegna þess hversu ít­ar­leg hún er. Til­lög­urn­ar séu mik­il­vægt inn­legg í umræðuna og þær verði skoðaðar í ráðuneyt­ingu, meðal ann­ars við vinnu við fjár­mála­áætl­un. Hún seg­ist finna að raun­veru­leg­ur póli­tísk­ur vilji sé nú til þess að fylgja þessu máli eft­ir og ít­rek­ar sinn vilja til þess að efla korn­rækt í land­inu."


 

Rafbílar voru til umfjöllunar í Kveik

Þátturinn Kveikur var á RÚV í gærkvöldi og fjallaði um rafbíla.

Rætt var við marga og stefið var: að samfélagið yrði að axla kostnaðinn af rafbílavæðingunni; það vantar hleðslustöðvar, lægri gjöld á bílana og einn viðmælandinn orðaði það á þann veg, að lausnin fælist í því, að ef ríka fólkið gæti keypt sem flesta bíla þessarar gerðar, þá gætu hinir efnaminni keypt bílana þegar þeir kæmu til endursölu, ,,á eftirmarkaði", þ.e. ríka fólkið fyrst og síðan ,,hinir" sem ekki geta keypt sér gersemarnar ónotaðar!
 
Gætu sem sagt tekið við bílgörmunum þegar búið væri að taka úr þeim það besta og til þess að þetta gæti orðið, þyrfti samfélagið að bregðast við ,,með spítu og sög" og greiða kostnaðinn af rafbílavæðingunni fyrir þá sem riðu á vaðið og keyptu nýja rafbíla.

Og náttúrulega byggja virkjanir, dreifikerfi, hleðslustöðvar o.s.frv.

Ekki var þó að sjá að hinir opinberu sjóðir ættu að sjá um viðhaldið á bílunum, en vel getur verið að það hafi verið orðað án þess að eftir hafi verið tekið og ef til vill hefur það einfaldlega gleymst!
Því brautryðjendurnir þurfa að fá sitt,  því þeir eru jú að fórna sér fyrir samfélagið!

Fram kom að rafbílararnir eru langflestir í Garðabæ tæplega fimmtán á hverja hundrað íbúa og frekar fáir á landsbyggðinni, t.d. 1,3 á sama mælikvarða á Þórshöfn, hvernig sem svo stendur á því!

Stríðsmála(?) ráðherrar þjóðarinnar bregða sér í austurveg

Tveir ráðherrar Íslands eru farnir í víking, það er að segja austurveg, nánar tiltekið til Úkraínu, til að stappa stálinu í ráðamenn þar í landi.

2023-03-14 (6)Enginn efi er á um, að það mun bæði efla og örva þarlenda að móttaka konur þessar sem eins og allir vita, eru af sönnu og traustu víkingakyni.

Búið er að fella niður alla tolla af úkraínskum vörum til Íslands og því gefast margvísleg tækifæri til að flytja hinar fjölbreyttu afurðir landsins til eyríkisins, því til bjargar í vöruskortinum sem sárlega plagar.

Fari svo sem lagt er upp með, geta bændur hinnar norðlægu eyju farið að taka sér langþráð frí, því nú streyma þangað landbúnaðarvörur af auknum krafti yfir hafið. Áður voru þær landbúnaðarvörur sem úr austrinu komu notaðar á eyjunni til að framleiða kjöt, mjólk, ull o.s.frv.

2023-03-14 (5)Nú er það breytt og hinir íslensku bændur geta snúið sér að öðru, eins og t.d. því, að taka á móti vörum að austan þegar þær berast til landsins og koma þeim í búðir og pökkunarstöðvar til merkingar og síðan dreifingar.

Það sama verður ekki sagt um starfsfólk heilbrigðisstofnana, því til stendur að auka umsvif þeirra úr þeirri lágdeyfu sem þau hafa verið í og er ef til vill þegar hafið.

Til stendur að frelsa það góða fólk úr verkefnaleysinu sem á hefur herjað, með innflutningi sjúkra og slasaðra Úkraína.

Hvenær sú björgun berst til sjúkrastofnana þjóðar vorrar er ekki vitað.

Ef til vill er hún þegar farin að berast og ef svo er, þá er gott til þess að vita að dregið hefur úr aðgerðarleysi heilbrigðisstéttanna svo ekki sé nú minnst á hve gott er að nýting húsakynna hefur þá væntanlega stórbatnað.

Og nú er það nýjast, að forsætisráðherra og utanríkis eru komnar í víking, farnar úr landi, til að sýna svo eftir verði tekið, að þær láta svo sannarlega ekki deigan síga, standa á sínu, en þó enn meira annarra, og blása jafnvel í lúðra.

Sjálfur stríðsherrann og úkraínuforynginn mun hrópa uppnuminn og stríðsefldur:

Sjáið og takið eftir!

Stríðsmálaráðherrar Íslands eru hér komnir okkur til blessunar, hvatningar, örfunar og eflingar!

Foringi hinnar einu sönnu Eflingar hvar er hann ... sem er hún?

Eru þessar stelpur eitthvað að plata mig?

Mér finnst þær eitthvað svo babúskulegar!

Efri myndin er fengin af vef Ríkisútvarpsins og sögð samsett, en sú neðri er af vef Morgunblaðsins.

Hættið að rífast og brettið upp ermar!

 


Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur ritar grein í Morgunblaðið þann 13/3/2023 undir yfirskriftinni ,,Um fákeppni og uppgrip", sem óhætt er að mæla með að lesin sé, því geinin er bæði vel skrifuð og fræðandi.

Ragnar bendir á nokkur atriði, sem gott er fyrir okkur sem ekki erum viðskiptafróð að hafa í huga, í  skýrum og vel orðuðum texta og hér verða klippt út nokkur atriði.

,,Eig­end­ur og stjórn­end­ur fákeppn­is­fé­laga taka sér all­an þann hagnað, arð, laun, bónusa og kauprétti sem hug­ur­inn girn­ist [...]"

Í kafla greinarinnar þar sem lýst er ,,fullkomnum markaði" er sagt frá því  hvernig allur hagnaður hverfur á slíkum markaði. Síðar segir ,,al­full­kom­inn markaður er ekki til nema fræðilega, all­ir eru þeir bara mis­jafn­lega ófull­komn­ir".

Í næsta kafla segir að ,,leiðin til að auka hagnaðinn er að draga úr sam­keppni. Lang­al­geng­asta leiðin til þess eru samrun­ar og yf­ir­tök­ur".

Þá segir ,,stóru, risa-, risa­stóru, von­brigðin með EES eru þau að ekki er virk sam­keppni um nauðsynj­ar okk­ar. Eig­end­ur og stjórn­end­ur fákeppn­is­fé­laga taka sér all­an þann hagnað, arð, laun, bónusa og kauprétti sem hug­ur­inn girn­ist, og það er ekki lítið"

Þar sem rætt er um Samkeppniseftirlitið segir að þar séu sumir löglærðir en skorti þekkingu á því sem útskýrt er í greininni!

Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að ,,fákeppniskapítalismi veraldarinnar muni keyra sig í þrot".

Og niðurlagsorðin eru svo grípandi að þau koma hér í heild:

,,Skatta­lög­in eru senn að verða hálfr­ar ald­ar göm­ul, að stofni til. Hver bót­in nær yfir aðra. Hættið nú að ríf­ast, alþing­is­menn. Brettið upp erm­ar og vinnið sam­an að vel­ferð og far­sæld kjós­enda. Rifr­ildið, hávaðinn, hneyksl­un­in og öskrin skila ykk­ur engu öðru en því, að þið þykið leiðin­leg."(!)


 


Innflutningur í boði alþingis

 Í gær var fjallað lítillega um innflutning á kjöti sem farið hefur fram án tilskilinna heimilda.

2023-03-09 (14)Nú verður farið lítið eitt lengra og farið yfir frétt sem var í Bændablaðinu. Fréttin er hér með í mynd og yfirskriftin er ,,Kjúklingur fluttur inn í leyfisleysi".

 

Í fréttinni segir:

1. Ekki var farið að reglugerð, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, við innflutning á um 185 tonnum af úkraínsku kjúklingakjöti frá septembermánuði 2022 til febrúar sl. Þrjú fyrirtæki fluttu inn vörurnar á þessu tímabili.

2. Vefur Hagstofunnar sýnir innflutning á úkraínsku kjúklinga­kjöti en tæplega 80 tonn komu fyrir áramót og ríflega 107 tonn í janúar. Þrjú fyrirtæki fluttu inn kjúklinginn á þessu tímabili samkvæmt upplýsingum sem Matvælastofnun (MAST) hefur frá Tollinum.

3. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var innflutningsleyfa ekki aflað, né voru sendingar tilkynntar til stofnunarinnar í tilfelli innflutnings á kjúklingakjöti frá Úkraínu á tímabilinu september 2022 til og með janúar 2023.

4. Áður en óhitameðhöndlaðar dýraafurðir sem eiga uppruna utan Evrópska efnahagssvæðisins eru fluttar inn í fyrsta sinn, ber innflutningsaðila að láta MAST í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1250/2019 sem fjallar m.a. um grundvöll innflutningsleyfis.

5. Dýraafurðir sem fluttar eru í gegnum EES en eiga uppruna í þriðja ríki skulu tilkynntar til MAST og á innflutningsaðili að leggja fram gögn til staðfestingar á því að þær uppfylli ákvæði reglugerðarinnar. Leyfið byggir meðal annars á áhættumati sem MAST er ætlað að framkvæma áður en heimildin er veitt.

6. „Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til Matvælastofnunar fyrir umræddar sendingar hafði áhættumat ekki verið framkvæmt þegar þær voru fluttar til landsins,“ segir deildarstjóri stofnunarinnar.

7. Eftir að stofnunin hafði kallað eftir gögnum kom fram að eftirlit hafði farið fram.

8. „Í heildina eru taldar nokkrar líkur á því að smitefni alvarlegra alifuglasjúkdóma berist til landsins með innflutningi á hráu alifuglakjöti frá Úkraínu og ESB en litlar líkur á að smitefnin berist í alifugla hérlendis. Helsta smitleiðin væri fóðrun hænsnfugla með eldhúsúrgangi en slíkt er óheimilt. Mikilvægt er því að allir sem halda alifugla, bæði á búum og heima við, fari eftir þeim reglum,“ segir [...] í svarinu.

Innflutningsleyfin voru veitt. Það er talið að litlar líkur séu á að smitefnin berist inn á alifuglabú og leyfin því gefin út.

,,„Dýraafurðir frá þriðju ríkjum eru skimaðar m.a. fyrir lyfjaleifum og lyfjaónæmum bakteríum við landamæraeftirlit. Slíkt fellur inn í sýnatökuáætlun sem byggist á áhættumati og eru þá tekin sýni af ákveðnu hlutfalli sendinga. Landamæraeftirlit skal fara fram á fyrstu landamæraeftirlitsstöð í EES sem varan berst til,“ er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar.

Síðan segir m.a.:

,,Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir við sýkla­ og veiru­fræðideild Landspítalans, sagði í síðasta tölublaði Bændablaðsins að mikilvægt væri að fylgjast með sýklalyfjaónæmi í innfluttum mat­vælum frá löndum með útbreitt sýklalyfjaónæmi. [...] MAST hafi ekki talið ástæðu til að draga í efa gögn sem lögð hafa verið fram vegna innflutta kjúklingsins. Landamæraeftirlitsstöðvarnar í EES­ ríkjunum þar sem vörurnar fóru í gegn frá Úkraínu eiga að sannreyna að viðeigandi opinber heilbrigðisvottun, útgefin af dýralæknayfirvöldum í Úkraínu, fylgi sendingum. Matvælastofnun er enn með innflutninginn til skoðunar en brot á ákvæðum reglugerðar nr. 1250/2019 geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Innflutningur á úkraínsku kjúk­lingakjöti hófst fyrst í september síðastliðnum. Það er flutt inn án tolla skv. breytingu á tollalögum, sem fela í sér fyrirvaralausa niðurfellingu tolla á allar vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Lögin voru samþykkt í júní og gilda til 31. maí nk.

_ _ _

Alþingi samþykkti lög í júní sem fela í sér niðurfellingu tolla á allar vörur sem upprunnar eru í Úkraínu! Það var ekki verið að veita undanþágu fyrir sérvöldum vörum, heldur öllum og án undantekninga.

Hvað alþingismönnum gekk til með samþykktinni getum við nokkuð auðveldlega giskað á og líklega er þar á ferðinni hið sérkennilega: AF ÞVÍ BARA!

Rússar misstu þolinmæðina gagnvart úkraínskum ,,stjórnvöldum" fyrir u.þ.b. ári síðan og stríðsástand hefur verið í landinu eftir það með tilheyrandi hörmungum og niðurbroti innviða og væntanlega þar á meðal hefðbundinna eftirlitsstofnana.

Það síðastnefnda kemur íslenskum alþingismönnum ekki við og hagsmunir íslensku þjóðarinnar voru settir til hliðar.

Falskt flagg, innflytjandinn og íslenskir bændur


Á forsíðu Bændablaðsins sem kom út þann 9. mars er sagt frá því að flutt hafi verið inn 185 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti og að: 
,,Ekki var farið að reglugerð, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins við innflutning á um 185 tonnum af úkraínsku kjúklingakjöti frá septembermánuði 2022 til febrúar sl." 
 
Því er bætt við að fyrirtækin hafi verið þrjú sem að innflutningnum stóðu.

,,Matvæli undir fölsku flaggi" er yfirskrift umföllunar í Bændabaðinu og Alþingi mun hafa fimbulfambað eitthvað um málið áður en til innflutningsins kom. Talað um fjarlægð og ,,pappíra", en minna um neytendur og enn minna um íslenskan landbúnað, þegar þingmennirnir afgreiddu málið, en hvað sem þeir sögðu þá, er niðurstaðan sú sem sjá má.

Haldi einhverjir að þarna sé eingöngu verið að flytja inn ógn við íslenska kjúklingabændur, þá er rétt að benda á að ógnin er við alla kjötvöruframleiðslu í landinu og síðast en ekki síst við neytendur sem oft á tíðum kaupa vöruna í þeirri trú að um íslenska framleiðslu sé að ræða, vegna óljósra og jafnvel villandi merkinga.
,,Það eru Esja gæðafæði, Kjötmarkaðurinn og Ó. Johnson og Kaaber.", sem standa að innflutningnum segir í Bændablaðinu og við vitum þá alla vega að hverju við eigum að leita á umbúðunum til að forðast vöruna, nú eða velja hana til neyslu kjósi menn það.

Í fréttinni segir ennfremur:
,,Samkvæmt upplýsingum frá MAST var innflutningsleyfis ekki aflað, né voru sendingar tilkynntar til stofnunarinnar í tilfelli innflutnings á kjúklingakjöti frá Úkraínu á tímabilinu september 2022 til og með janúar 2023."

Orðrétt segir í frásögn blaðsins:
,,Áður en óhitameðhöndlaðar dýraafurðir sem eiga uppruna utan Evrópska efnahagssvæðisins eru fluttar inn í fyrsta sinn, ber innflutningsaðila að láta MAST í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1250/2019 sem fjallar m.a. um grundvöll innflutningsleyfis. Dýraafurðir sem fluttar eru í gegnum EES en eiga uppruna í þriðja ríki skulu tilkynntar til MAST og á innflutningsaðili að leggja fram gögn til staðfestingar á því að þær uppfylli ákvæði reglugerðarinnar. Leyfið byggir meðal annars á áhættumati sem MAST er ætlað að framkvæma áður en heimildin er veitt."

Í blaðinu er rætt við eiganda Kjötmarkaðarins sem flutti inn rúm 19 tonn af kjúklingakjöti, sem hann segir aðallega notuð ,,á veitingahúsum og í matvælaiðnaði". Hann segist ekki hafa vitað af úkraínskum kjúklingum á markaði fyrr en ,,hann rakst á hann fann hann á markaði hér á Íslandi. Þá voru öll mötuneyti og veitingastaðir sem eru í viðskiptum við mig farin að kaupa þetta. Ég leitaði þá og sá að það var ekkert mál að flytja inn kjúkling frá Úkraínu.“

Auðvitað er það ,,ekkert mál" að kaupa þetta lítilræði sem maðurinn verslar með, vilji menn það, varan er til í verslunum og ,,merkt" eins og fyrr er getið.

Ítarleg umfjöllun er í blaðinu um hvernig að merkingum matvæla sé staðið:

,,Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda um merkingar matvæla, en skyldumerkingar gera vörunum oft ekki nægjanleg skil. Á það bendir formaður samráðshóps um betri merkingar matvæla. Á meðan óunnum vörum sé gert að vera merkt uppruna gegnir öðru máli um það sem skilgreint er unnið. Fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvaða umfram upplýsingar þær setja fram á vörur sem þær vinna að litlu leyti."

Við sem neytendur spyrjum okkur, hvort ekki sé rétt að forðast þær vörur sem eru ,,unnar" nema að skýrt komi fram hver uppruninn er?

Innflutningur á kjúklingakjöti hefur greinilega komið kjúklingabændum á óvart, enda vita þeir hvaða kröfur eru gerðar til afurða þeirra hér á landi og eftir þeim er haft:
 „Mikill innflutningur á kjúklingakjöti frá Úkraínu undanfarna mánuði kom okkur í opna skjöldu og við höfum talsverðar áhyggjur af því að kjötið sé ekki af sömu gæðum og innlent kjúklingakjöt. Samkvæmt því sem ég hef heyrt er sýklalyfjanotkun í landbúnaði mikil í landinu. Bændasamtökin hafa sent Matvælastofnun erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig staðið er að útgáfu á heilbrigðisvottorðum fyrir innflutninginn, hvaða vottorð hafi verið gefin út og hvort kjötið komi frá bændum, sláturhúsum og vinnslum sem uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til slíkra aðila hér á landi."

Fram hefur komið að fjölónæmar bakteríur eru vandamál í úkraínskum landbúnaði og ætli ekki megi gera ráð fyrir að svo verði einnig í þeim íslenska, fyrst metnaður alþingismanna þjóðarinnar er sá sem við horfum uppá í þessu máli? 

Í framhaldi af þessu má væntanlega búast við því, að flutt verði inn nautakjöt, svínakjöt o.s.frv. erlendis frá, eða alla vega frá Úkraínu, því hún er svo óralangt í burtu að mati alþingismanna að ekki þarf að óttast innflutning þaðan!

Flókið samfélag og skemmdarverkið mikla

 Kona sem eyðir að stórum hluta tíma sínum í föðurlandi sínu Tyrklandi, segir að það þurfi þekkingu í sögu ,,til að lesa flókið samfélag" og eflaust er það rétt.

2023-03-06 (3)Morgunblaðið hefur eftir henni:

,,„Kennslu í sögu þarf þó að taka í stóru samhengi. Tæpast verður fjallað um Úkraínustríðið án þess að nemendur þekki aðeins til kalda stríðsins og falls Sovétríkjanna. Innrásin í Úkraínu og orðræða valdhafa í Rússlandi er áminning um að kennsla í sögu og gagnrýninni hugsun skiptir máli.“"

Um þetta ættu flestir að geta verið sammála, en oftar en ekki er dæmt eftir tilfinningu og án þekkingar á aðstæðum og sögulegum staðreyndum.

Hvað er hvers og hvers er hvað, er stundum dálítið óljóst, eins og flestum mun vera orðið kunnugt eftir atburði undanfarinna mánaða og reyndar á annan tug ára, því átök og ófriður hefur verið á Donbas svæðinu um margra ára skeið.

Átökin hafa átt upptök sín í vestri, þ.e. frá Úkraínu og svo langt hefur verið gengið, að m.a. farþegaþota var eitt sinn skotin niður og allir sem í henni voru fórust.

Hvers vegna farþegaflugvél var látin fljúga yfir átakasvæði er enn óútskýrt, en Rússum hefur verið kennt um að vélinni var grandað, vegna þess að þeir útveguðu loftvarnarbúnaðinn sem notaður var til þessa óhappaverks. 

Náttúruleg landamæri eru fremur óskýr á svæðinu, hvort sem miðað er við landið eða sögulegar staðreyndir og geta sem best farið eftir því hver og ekki síður hvernig, litið er á málið.

Fyrir nokkrum áratugum voru til Sovétríkin, samsteypa undir einum hatti og einum stjórnmálaflokki en það breyttist og við tók Rússland og hvar það land byrjar og hvar það endar í landfræðilegu tilliti, hefur verið breytilegt í aldanna rás.

Á því ástandi sem nú er uppi milli Rússlands og Úkraínu þarf að finna lausn og efalítið er heppilegast að finna hana með samkomulagi sem gert yrði á milli þjóðanna og að samkomulagið yrði gert t.d. með milligöngu Sameinuðu þjóðanna.

2023-03-08 (2)Er þessi pistill var í ritun bárust um það fréttir að gasleiðslurnar miklu, Nord Stream 1&2, sem sprengdar voru skammt undan Borgundarhólmi, hefðu verið sprengdar af úkraínskum aðilum

Og finnst þá eflaust mörgum Evrópubúanum nærri sér höggið eftir að hafa mátt dúsa í kulda og trekki með létt eða tómt veski og horfandi á ráðamenn þjóða sinna, ausa úr almannasjóðum fjármunum til stríðsrekstrar Zelensky stjórnarinnar í Úkraínu.

2023-03-08 (3)Á íslenska Rúvinu er því slegið upp, að Úkraínar ,,þvertaki fyrir aðild" að skemmdarverkinu á gasleiðslunum.

Neitun þeirra kemur ekki á óvart, enda fremur óheppilegt fyrir þá að það spyrjist út, að þeir hafi þakkað evrópskum almenningi og stjórnvöldum fyrir stuðninginn, með því að valda þeim tjóni af þessu tagi.

Tjóni sem ásamt öðrum fjáraustri í stríðsreksturinn hefur valdið vesturevrópskum almenningi umtalsverðum búsifjum.

Efsta myndin er af vef Morgunblaðsins, en hinar af vef RÚV.

Brúin sem kemur (vonandi) og markaðurinn sem fraus

 Tregða er hlaupin í húsnæðismarkaðinn sem vonlegt er, því það er ekki fyrir alla að kljúfa vaxtaokrið sem nú er. 

Vextir hafa verið hækkaðir í sífellu af Seðlabankanum, sem viðbrögð við lausatökum ríkisstjórnarinnar á hagstjórninni.

,,Háir vextir og verðbólga eru farin að bíta2023-03-06 (4) svo húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn", segir fulltrúi innviðanna í ríkisstjórninni. Hann telur eðlilegt að ,,ríkið styðji við". 

Og ríkið erum við, eins og við vitum!

,,Við" eigum sem sagt að styðja við, en hvernig það á að verða, vitum við ekki sem ekki höfum gengið í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins og eflaust segja sumir sem svo, að gott sé það nú, því ef við mundum skilja framsóknarpólitíkina, þá myndum við ekki skilja svo margt annað sem gott getur verið að kunna skil á.

Vonum samt að hætt verði mokstri úr tómum ríkissjóði, fjármögnuðum með lánsfé; að farið verði að veita aðhald og velta fyrir sér krónunum áður en þeim er ausið í allar mögulegar áttir án umhugsunar.

2023-03-06 (2)Að því sögðu, þá verður að virða ríkisstjórn smáríkisins það til vorkunnar að hún reyni að líkjast svo sem hún getur hinum stóru í Evrópu og Ameríku, sem moka peningum með líkum hætti úr tómum sjóðum sínum og senda reikninginn á þegnana.

Horfum á myndina fyrir ofan textann og gleðjumst yfir því að mitt í öllum þessum fjármálahremmingum er loksins búið að efna til útboðs á nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.

Í útboðinu er boðin út hönnun, fjármögnun og framkvæmd  á framkvæmdatíma, þannig að reikningurinn fellur á ríkissjóð að framkvæmdinni lokinni, sem er eins gott m.v. stöðu ríkissjóðs.

Gera má ráð fyrir að ríkisstjórn ráðsíunnar leggist í aðhald og yfirvegun á ráðstöfun fjármuna þjóðarinnar á meðan á þessu stendur, til að eitthvað verði í kassanum þegar að skuldadögunum kemur. Samt er það alls ekki víst, því þegar þar að kemur, verður það vonandi annarra að glíma við reikningana og vonandi gengur það vel.

Brúin þarf að koma, um það eru flestir sammála og hafa verið um margra ára skeið, en lengi stóð styrinn um hvar hún ætti að vera og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórn Selfossbæjar fyrir nokkrum árum lagði hinn músíkalski bæjarstjóri til, að brúin yrði ,,sem næst" þeirri gömlu og gárungarnir sögðu að líklega yrði hún hengd utan á gömlu brúna!

Svo verður ekki og er rétt að fagna því, að raunhæfari sjónarmið urðu ofaná og að svo er að sjá sem hin nýja brú verði bæði glæsileg og falleg, auk þess að verða mikil samgöngubót sem hefði þurft að koma fyrr, en um það þýðir ekki að tala úr þessu.


Hætta á heimsstyrjöld?

 Svo virðist sem hernaðarógnin vofi yfir heiminum. Stríð er milli Rússlands og Úkraínu, stríð sem hefur verið viðvarandi árum saman en hefur færst á hærra og hættulegra stig síðasta árið.

2023-03-03 (3)Sú styrjöld hefur þróast í að vera stríð milli Rússlands og NATO og þar hefur nær engu verið hlíft, innviðir brotnir niður og mannfórnir ægilegar.

Báðir stríðsaðilar beita fyrir sig verktökum (málaliðum) í hernaðinum og er það svo sem ekkert nýtt, að svo sé gert. Velta má því fyrir sér hvort sé betra, að í bardögunum berjist þeir sem áhuga hafa á að berjast án tillits til málstaðar þess sem barist er fyrir, eða þeir sem berjast fyrir þjóð sína og föðurland, sem í tilfelli Rússlands gæti verið móðurland?

Hugmyndin er mörgum sjálfsagt framandi, en ef hugsað er til baka þá sést að hún er alls ekki ný af nálinni. Margir muna sjálfsagt eftir útlendingahersveitinni frönsku og dæmin eru fleiri.

Líka má gera ráð fyrir að hermenn þjóða sem sendir hafa verið heimsenda á milli, hafi ekki alltaf verið uppblásnir af trú á málstaðinn sem þeir voru settir í að berjast fyrir, ef sá málstaður var þá nokkur annað en misskilinn metnaður stjórnmálafígúra.

Við sjáum að ,,hugur" er í bandarískum pólitíkusum og blásið er í herlúðra og nú er það Kína sem takast skal á við. 

Sjálfsagt finnst hinum gömlu heimsvaldasinnum sem fjarað hafi undan ástríðunni undanfarin ár og nú er stefnt á að bæta þar úr. 

Skotnir hafa verið niður villuráfandi veðurhnettir af miklum móð og gera má ráð fyrir að jafnvel núverandi stjórnvöldum Bandaríkjanna finnist dálítið lítilfjörlegt að standa í slíkum hallærishernaði og nú er hugsað hærra.

Markmiðið er að þjarma að Kína með herafla Bandaríkjanna en ekki með ,,verktökufyrirkomulagi" líkt og í stríðinu um austurhéruð Úkraínu, ef þá má kalla þau það, því áhöld eru um hvort þau eigi að teljast til Úkraínu eða Rússlands og um það hefur verið deilt árum saman.

Hvernig hin endurvakta heimsvaldastefna Bandaríkjanna mun þróast á næstu vikum, mánuðum og árum sjá ekki aðrir en þeir sem hafa spádómsgáfu.

Að ellismellir af því tagi sem þar eru nú við völd og sækjast eftir völdum, ekki má gleyma því, yrðu svo blóðþyrstir og tortímingarglaðir sem raun ber vitni um, hefði sá glópur sem þetta ritar seint átt von á! 

Útflutningur og framkoma við góða granna


 Morgunblaðið birti frétt um það á dögunum, að mest hefði verið framleitt af alifuglakjöti hér á landi á síðasta ári, eða 9500 tonn og kindakjötið kom næst með 8650 tonn.

Kindakjötið er eins og margir vita ,,útflutningsvara", en það er alifuglakjötið ekki og til að bæta fyrir það(?), er svo um búið að heimilaður er innflutningur á alifuglakjöti og ekki öllu kræsilegu eins og fram hefur komið í fréttum. 

Samkeppni þessi við innlenda framleiðslu er dálítið sérstök og verður að segja það eins og er, að þar er um að ræða framsóknarpólitík, studda af Vinstri grænum og Sjálfstæðismönnum og af því tagi sem lengi hefur viðgengist varðandi landbúnaðarframleiðslu þjóðarinnar.

Útflutningurinn á kindakjötinu fer þannig fram, að úr ríkissjóði eru greidddir styrkir til framleiðslunnar og þegar kemur að útflutningnum eru síðan greiddir styrkir til hans og af þessu má sjá er þetta heilmikill ávinningur fyrir þjóðarbúið!

Því miður er ekki lengur hægt, að benda áhugasömum og skilningsþyrstum á, að sækja sér fræðslu um hagkvæmni og virkni þessara hagvísinda í skóla þeirra Framsóknarmanna, því að hann er ekki lengur til. Nema ef vera kynni að fræðin séu kennd í bændaskólunum á Hvanneyri og Hólum.

En þó þar séu þau ef til vill ekki lengur kennd, þá eru þau í fullu gildi og eflaust hægt að tileinka sér kenningarnar, á til þess gerðum fræðslufundum Framsóknarflokksins og ekki má gleyma því, að kenningarnar njóta trausts að minnsta kosti hjá Vinstri grænum og jafnvel í vissum afkimum Sjálfstæðisflokksins. 

Af þessu má sjá að ekki er öll nótt úti þó Samvinnuskólans á Bifröst njóti ekki lengur við.

Búið var til ,,fyrirtækið" Icelandic lamb, sem hefur það hlutverk að skaffa mönnum vinnu við að flytja út kindakjötið, en vegna þess að markaður reyndist lítill og óhagkvæmur utan landsteinanna, var verksvið ,,fyrirtækisins" útvíkkað og nú athafnar það sig líka á innanlandsmarkaði, auk þess að senda frá sér pistla í Bændablaðið.

Annars verður að segja að reksturinn hefur á vissan hátt blómstrað og hefur t.d. tekist að senda kjötgám til Spánar og hafa hann þar í eitt ár og flytja síðan til Færeyja og selja innihaldið þar. 

Af þessu má sjá að frjósemin og hugmyndaflugið er ómæld og mikil. 

Gera má ráð fyrir að kælikerfi gámsins hafi verið rekið af mikilli samviskusemi þarna suðurfrá, en ef ekki, þá eru Færeyingar ýmsu vanir við verkun kindakjöts og láta sér almennt ekki allt fyrir brjósti brenna.


Frysting sem ekki hefur áhrif og þeir sem fara eftir reglum

 

Skjáskot úr Morgunblaðinu

Samtök fyrirtækja í landbúnaði og Bændasamtök Íslands eru að stofna samtök og er ekki að efa að það getur orðið til hagsbóta fyrir bændur og búalið ef vel tekst til, þ.e.a.s. ef Bændasamtökin ná að gera sig gildandi í félagsskapnum. 

Að mörgu getur þurft að hyggja, svo sem sést á skjáskotinu hér að neðan, en eins og flestum mun vera orðið kunnugt, ákvað Alþingi að víkja hagsmunum bænda og reyndar líka íslensku þjóðarinnar út í hafsauga til að geta heimilað innflutning á matvælum frá Úkraínu. Það var rökstutt með þeirri firru að landið væri svo langt í burtu að engin hætta gæti stafað af innflutningnum. 

Reyndin er svo sú að minnsta kosti eitt fyrirtæki sér tækifæri í að stunda innflutning á landbúnaðarafurðum þaðan.

Einhverjir munu hafa talið sér trú um að þar sem matvaran væri frosin, þá væri ekkert að óttast þó regluverkið sé ekki eins og best getur verið í hinu stríðshrjáða landi, fyrir nú utan það, að lítið hefur verið hægt að sækja þangað til að læra af fram til þessa, varðandi regluverk og eftirlit. 

Að fyrirtæki bænda standi fyrir innflutningnum, er satt að segja ekki uppörfandi fyrir fólkið sem starfar í landbúnaði og reynir að uppfylla svo sem unnt er kröfur um hollustu og heilbrigði afurðanna.

Skjáskot úr Bændablaðinu
_ _ _

Nautgripabændur vilja að stuðningur við greinina sé framleiðslutengdur. 

Þeir hafa aukið framleiðsluna til að anna aukinni eftirspurn, en hið opinbera hefur stefnt í aðra átt og minnkað stuðninginn, líklega í þeirri von að með því tækist að koma böndum á framleiðsluna og flytja hana þess í stað inn frá útlöndum og þá væntanlega einhverjum löndum sem ráðamönnum finnst vera nógu nálægt Íslandi til að við verði unað!

Skjáskot úr Bændablaðinu

Tekist hefur að finna fjárstofn sem er ,,riðuþolinn" og hljóta allir að fagna því sem bera hag búgreinarinnar fyrir brjósti. Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með niðurskurði á sauðfé vegna riðusmits á undanförnum árum. Aftur og aftur hefur greinst riða og því hefur sífellt fylgt niðurskurður, sem því miður hefur litlu skilað öðru en sálarangist þeirra sem fyrir verða og við tökum öll undir hvatningarorðin sem finna má í fyrirsögninni hér að neðan.
Skjáskt úr Fréttablaðinu

Endum þetta svo á því að lesa um að menn telja sig vera að fara eftir leikreglum, varðandi innflutninginn fyrrnefnda. 
Því þó flutt sé inn vafasöm matvara, eins og sagt var hér í byrjun þessa pistils, er það Alþingi sem í raun stuðlaði að því, að innflutningur af þessu tagi yrði að veruleika, því ef umrætt fyrirtæki hefði ekki staðið fyrir innflutningnum, þá er eins víst að einhverjir aðrir hefðu gert það.

Skjáskot úr Bændablaðinu



Japl jaml og fuður

  ,,Eftir japl jaml og fuður var hann grafinn út og suður" var eitt sinn sagt og ætli það verði ekki niðurstaðan núna. Þingm...