Morgunblaðið birti frétt um það á dögunum, að mest hefði verið framleitt af alifuglakjöti hér á landi á síðasta ári, eða 9500 tonn og kindakjötið kom næst með 8650 tonn.
Kindakjötið er eins og margir vita ,,útflutningsvara", en það er alifuglakjötið ekki og til að bæta fyrir það(?), er svo um búið að heimilaður er innflutningur á alifuglakjöti og ekki öllu kræsilegu eins og fram hefur komið í fréttum.
Samkeppni þessi við innlenda framleiðslu er dálítið sérstök og verður að segja það eins og er, að þar er um að ræða framsóknarpólitík, studda af Vinstri grænum og Sjálfstæðismönnum og af því tagi sem lengi hefur viðgengist varðandi landbúnaðarframleiðslu þjóðarinnar.
Útflutningurinn á kindakjötinu fer þannig fram, að úr ríkissjóði eru greidddir styrkir til framleiðslunnar og þegar kemur að útflutningnum eru síðan greiddir styrkir til hans og af þessu má sjá er þetta heilmikill ávinningur fyrir þjóðarbúið!
Því miður er ekki lengur hægt, að benda áhugasömum og skilningsþyrstum á, að sækja sér fræðslu um hagkvæmni og virkni þessara hagvísinda í skóla þeirra Framsóknarmanna, því að hann er ekki lengur til. Nema ef vera kynni að fræðin séu kennd í bændaskólunum á Hvanneyri og Hólum.
En þó þar séu þau ef til vill ekki lengur kennd, þá eru þau í fullu gildi og eflaust hægt að tileinka sér kenningarnar, á til þess gerðum fræðslufundum Framsóknarflokksins og ekki má gleyma því, að kenningarnar njóta trausts að minnsta kosti hjá Vinstri grænum og jafnvel í vissum afkimum Sjálfstæðisflokksins.
Af þessu má sjá að ekki er öll nótt úti þó Samvinnuskólans á Bifröst njóti ekki lengur við.
Búið var til ,,fyrirtækið" Icelandic lamb, sem hefur það hlutverk að skaffa mönnum vinnu við að flytja út kindakjötið, en vegna þess að markaður reyndist lítill og óhagkvæmur utan landsteinanna, var verksvið ,,fyrirtækisins" útvíkkað og nú athafnar það sig líka á innanlandsmarkaði, auk þess að senda frá sér pistla í Bændablaðið.
Annars verður að segja að reksturinn hefur á vissan hátt blómstrað og hefur t.d. tekist að senda kjötgám til Spánar og hafa hann þar í eitt ár og flytja síðan til Færeyja og selja innihaldið þar.
Af þessu má sjá að frjósemin og hugmyndaflugið er ómæld og mikil.
Gera má ráð fyrir að kælikerfi gámsins hafi verið rekið af mikilli samviskusemi þarna suðurfrá, en ef ekki, þá eru Færeyingar ýmsu vanir við verkun kindakjöts og láta sér almennt ekki allt fyrir brjósti brenna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli