Að tjá sig svo skiljist

 

Að tjá sig svo skiljist

2022-03-28 (2)Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er farið nokkrum orðum um vandræðaganginn sem er í kringum forseta Bandaríkjanna undir fyrirsögninni ,,Forsetin meinti".

Tilefnið er að forsetinn hélt ræðu í ferð sinni til Evrópu; ræðu sem unnin og yfirfarin hafði verið af til þess bærum, en svo illa vildi til að Biden fór út fyrir efnið, út af sporinu og út í buskann.

Það geisar nefnilega stríð í Evrópu, ekki það fyrsta því miður, en gott væri ef það væri það síðasta.

Sá sem þetta skrifar heldur að forsetinn hafi ef til vill sagt það sem hann meinti og jafnvel meint það sem hann sagði, en hann var ekki staddur við eldhúsborðið heima hjá sér og því þurfti hann að gæta orða sinna.

Hvað hann sagði og hversvegna hann sagði það skiptir ekki máli, því hann var í opinberum erindagerðum að þvælast þar sem hann var og átti að haga orðum sínum samkvæmt því.

Höfundur Staksteina fer vel yfir málið, enda ekki óvanur að koma opinberlega fram ef hann er sá sem okkur grunar.

Eftir að hafa lesið pistilinn læddist að sú hugsun, hvort ekki hefði verið gott, að Biden hefði komið við á Íslandi og fengið Staksteininn með sér í ferðina; í þeirri von að það hefði getað forðað hinum bandaríska frá havaríinu?

Staksteinninn er vanur og hefur hingað til getað sagt skoðun sína svo skiljist.

Því skal stungið upp á því að framvegis verði ræður bandaríkjaforseta bæði samdar og fluttar af okkar ágæta höfundi Staksteina.

Væri það gert myndi vandræðagangi verða forðað og meiningu þess sem til stóð að segja komið til skila.

Væri það ekki góður kostur?

Vandræðagangur og út fyrir sporið krúsindúllur af því tagi sem við höfum orðið vitni að hjá Biden karlinum eru óheppilegt tillegg inn í viðkvæma pólitík á stríðstímum.

Bieden gæti í staðinn snúið sér að fjölskyldumálunum, haft það rólegt og ruggað sér í ruggustólnum og jafnvel tekið af og til upp símann og hringt í Selenski vin sinn í Úkraínunni og spurt frétta af gangi heimsmálanna.

Við hinir minni spámenn á því sviði myndum þá halla okkur aftur í okkar ruggustólum, slaka á og njóta lífsins af kappi, í þeirri von og trú, að bomburnar stóru yrðu kyrrar í hvílu sinni.

Hér verður ekki reynt að endursegja texta Staksteina. Hann er þannig að synd væri að slíta hann í sundur í mislukkaðri endursögn. 

Því er lagt til að menn lesi hann í heild sinni.

Það verður enginn svikinn af því! 

Myndband um Donbass

https://rumble.com/vwzzth-donbass-english-subtitles-2016.-documentary-by-anne-laure-bonnet-1080p.html

Enn um úkraínumálið

 

Málefni Úkraínu eru mikið í umræðunni þessa dagana sem vonlegt er. 

Einn þeirra sem um þau fjallar er Geir Waage fyrrverandi prestur. Geir birti grein sína í Morgunblaðinu í dag, þ.e. 21. mars.

Mikill hvellur er orðinn á samfélagsmiðlum, a.m.k. Facebook, vegna viðtals Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi forseta. Undirritaður horfði á viðtalið við Ólaf og fannst sem hann væri raunsær og lausnamiðaður í því spjalli og vitnaði hann nokkrum sinnum í Kissinger fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna í viðtalinu.

Geir er á svipuðum slóðum í grein sinni og segir meðal annars:

,,Vorið 2014 ritaði Henry Kissin­ger grein í Washingt­on Post sem hann nefndi: „Til að leysa vanda Úkraínu þarf að byrja á end­in­um.“ Átök voru þá haf­in í Aust­ur-Úkraínu. Kænug­arðsstjórn af­nam sjálf­stjórn­arrjett­indi Luhansk- og Do­netsk-hjeraða og Rúss­ar í hjeruðunum gripu til vopna. Rúss­ar á Krím höfðu í at­kvæðagreiðslu sagt sig til Rúss­lands. Þarna var haf­inn sá ófriður er nú er orðinn að stríði Rússa og Úkraínu­manna“

Geir minnir á að Kissinger hafi sagst hafa ,,orðið vitni að fjórum styrjöldum sem allar hefðu hafist með miklum stuðningi heima fyrir.“ Vandinn sé ekki að hefja stríð, heldur að ljúka stríðum.

Fyrrnefndur Bandaríkjamaður mun hafa haldið því fram að Úkraína ætti hvorki að halla sér til austurs né vesturs heldur mynda brú þar á milli; Rússar verði að virða landamæri Úkraínu og ,,Vesturveldin“ að gæta þess að landið verði ekki í þeirra augum ,,útland“.

Síðar í grein sinni segir Geir að allt sé nú þetta undir Úkraínumönnum komið og minnir á að vesturhluti Úkraínu hafi til orðið í samkomulagi þeirra Hitlers og Stalíns og að Krím hafi orðið hluti af Úkraínu þegar ,,Úkraínumaður­inn Krút­sjoff gaf landið í til­efni þess, að 300 ár voru liðin síðan kósakk­ar gerðu banda­lag við Rússa­keis­ara.“ 

Sagan segir að það hafi verið gert, þegar sá vel skóaði maður hafi verið verið góðglaður eða jafnvel rúmlega það.

Geir rifjar upp að Úkraína hafi verið undir ,,erlendri yfirdrottnun síðan á 14. öld“ nú orðin sjálfstæð og svo hafi verið í 23 ár.

Grein sinni lýkur Geir með birtingu eftirfarandi tillagna Kissingers:

,,Kissin­ger legg­ur til, að all­ir aðilar gæti eft­ir­far­andi sjón­ar­miða:

1. Úkraínu­menn velji sjálf­ir viðskipta- og stjórn­mála­tengsl sín, þar með talið gagn­vart Evr­ópu­sam­band­inu.

2. Úkraína gangi ekki í NATO.

3. Úkraínu­menn ráði sjálf­ir stjórn­ar­fari sínu í sam­ræmi við vilja þjóðar­inn­ar. Skyn­sam­ir leiðtog­ar muni leita sam­komu­lags and­stæðra fylk­inga. Á alþjóðasviði skyldu þeir fara að for­dæmi Finna sem sjeu ein­dregn­ir sjálf­stæðissinn­ar, en starfi með vest­ræn­um þjóðum og gæti þess að sýna Rúss­um enga óvild.

4. Ekki verði á það fallizt að Rúss­ar hafi inn­limað Krím. Þeir verði að virða full­veldi Úkraínu yfir Krím, en Úkraína verði að styrkja sjálf­stjórn Krím­verja sem bor­in verði und­ir at­kvæði und­ir alþjóðlegu eft­ir­liti. Staða flota­stöðvar Rússa í Sevastopol verði ekki ve­fengd.

Sýn hins reynda stjórn­mála­manns og margra annarra banda­rískra diplómata og há­skóla­manna var síðan gjör­sam­lega fyr­ir borð bor­in. Evr­ópu­sam­bandið og NATO reri þá og æ síðan að inn­limun Úkraínu í Evr­ópu­sam­bandið og NATO. Sú stefna hef­ur nú leitt til ár­ang­urs sem seint verður bætt­ur.“

Og getur nú góða, réttsýna og vitra fólkið farið að beina spjótum sínum að guðsmanninum!

Ritháttur Geirs látinn halda sér í beinum tilvitnunum.

Vanja frændi

 


Macdonald opnaði með pompi og pragt og hamborgaraáti Davíðs Oddssonar í Reykjavík á sínum tíma.

Lifði í 16 ár og svo var það gengið yfir.

Nú berast af því fréttir, að slíkir staðir séu búnir að loka í Rússlandi, líklega í mótmælaskyni við innrás Rússa í Úkraínu.
Íslendingar hafa trúlega ekki verið nægilega spenntir fyrir japlinu á þessu nýmeti og því fór sem fór.

Árið 2020 lokaði keðjan 200 stöðum í Bandaríkjunum.

Og nú opna þeir að nýju í Rússlandi undir nafninu Vanja frændi.
Rússar eru þekktir fyrir að gefast ekki upp og svo sannarlega hafa þeir lent í mörgum hremmingum á liðnum tíma, hremmingum sem stafað hafa af undarlegri hugmyndafræði, svo vægt sé tekið til orða, en einnig hafa þeir þurft að standa af sér utanaðkomandi ógn svo sem alkunnugt er.

Nú var ógnin, ef ógn skyldi kalla, að bandarísk skrumframleiðsla var ekki lengur í boði.
Hvað gera Rússar þá?
Jú, gefa fyrirbærinu nýtt nafn og allt gengur síðan sinn vanagang.

Hvort ritstjóra Morgunblaðsins verður boðið í rússneskt hamborgarapartí í tilefni af uppákomunni fylgir ekki sögunni.
Líkar þetta
Skrifa ummæli

Hvenær er komið nóg?

Undirritaður kann ekkert fyrir sér í hernaði og veit að oftast, ef ekki alltaf, eru það almennir borgarar sem líða fyrir; átti von á því að þegar Rússar réðust inn í Úkraínu: að  þá myndu herir landanna takast á.
 
Átökin hafa sjálfsagt, að einhverju leiti farið þannig fram, en erfitt er að skilja hvers vegna verið er að ráðast á íbúðarblokkir og aðra mannabústaði.

En svona ganga styrjaldir fyrir sig, það höfum við séð svo lengi sem við munum og reyndar vel aftur fyrir það.

Það er náttúrulega mun auðveldara að ráðast á þau sem eru varnarlaus og svo eitt dæmi sé tekið úr fortíðinni: þá þjónaði það víst ekki nokkrum tilgangi að ráðast á Dresden úr lofti í síðari heimstyrjöldinni, öðrum en þeim að brjóta niður, leggja í rúst og brenna til grunna. 

Og fyrst minnst er á ,,tilgang" í styrjöldum og þar á meðal þeirri árás, þá mun það hafa verið tilgangurinn, að brjóta niður baráttuþrek Þjóðverja. 

Ætli það sé ekki sú ,,göfuga" hugsun sem ræður nú för. Ekki má maður gera ráð fyrir að þjálfaðir og ,,agaðir" herir skjóti bara á hvað sem er, svona til að gera eitthvað frekar en ekki neitt!  

En við höldum í vonina og hér heldur forseti Úkraínu því fram að kröfur Rússa séu að verða raunsærri.

Ef til vill er búið að eyðileggja nóg, drepa nóg, og menn vilji fara að vinda ofan af vitfirringunni.

Eftirfarandi setningar eru úr umfjöllun DW:

,,Speaking to the Russian RBC news outlet, Lavrov said that though peace talks with Ukraine were not easy, there was hope for compromise.
"I am guided by the assessments given by our negotiators. They say that the negotiations are not easy for obvious reasons. But nevertheless, there is some hope of reaching a compromise," Lavrov said.
He said that sticking points included not only the issue of the neutrality of Ukraine but also the usage of the Russian language in the country and what he called the question of freedom of speech."

Ekki öll kurl....?



Hér eru nokkur atriði sem vekja athygli og þyrfti að skýra betur:

,,Samningaviðræður um frið milli Úkraínu og Rússlands halda áfram í dag en embættismenn beggja ríkja segjast hóflega bjartsýnir á jákvæðar niðurstöður. Fátt er til marks um að afstaða Vladimírs Pútín Rússlandsforseta hafi breyst."

Er það einungis Putin sem þarf að breyta afstöðu sinni, þegar sest er að samningaborðinu? Er það þannig sem samningar ganga fyrir sig þegar tveir deila?

Við munum að ,,sjaldan veldur einn þegar tveir deila“.

,,Ekkert virðist heldur draga úr árásum rússneskra hersveita á skotmörk víðsvegar um land. Í gær var gerð hörð atlaga að heræfingastöð í Yavoriv um fimmtíu kílómetra suðvestur Lviv um tuttugu og fimm kílómetra frá landamærunum að Póllandi.

Stöðin sem notuð hefur verið til heræfinga var sett á laggirnar árið 2007 og alþjóðlegar hersveitir hafa iðulega aðsetur þar."

Er hér komið fram það sem Rússar hafa verið að halda fram varðandi útþenslu NATO til austurs og í átt að Rússlandi? Og það sem maður hefur talið vera rússneskan áróður!

Stöðin er, eftir því sem hér segir, búin að vera til staðar frá 2007. Hverjar og hvaðan eru þessar ,,alþjóðlegu hersveitir" sem ,,hafa iðulega aðsetur þar"?

Ýmislegt hefur verið sagt af hálfu stríðsaðila og ekki alltaf gott að átta sig á því öllu, en gæti hér verið um að ræða eina þeirra nála sem vöktu upp björninn, sem nú æðir um úrillur og fúll og hættulegur, rifinn upp af vetrardvalanum.

Ekki er gott að egna illt skap, segir íslenskur málsháttur. 

Var verið að því? Var verið að ögra og voru það utanaðkomandi aðilar, þ.e.a.s. ekki Úkraínar sem voru að því, nema að því marki að þeir heimiluðu gjörninginn.


Lifað frá degi til dags

 

2022-03-12 (3)Björn Bjarnason skrifar grein í laugardagsblað Morgunblaðsins (12.3.2022)með yfirskriftinni ,,Um birgðastöðu á hættutíma" og eins og nafnið gefur til kynna er Björn að benda á þörfina á, að hugað sé að því sem til þarf til daglegs lífs og rekstrar atvinnuvega, á hættutímum. 

Við höfum ekki gætt að okkur hvað það varðar eins og Björn bendir skilmerkilega á. 

Birgðastöð fyrir flugvélaeldsneyti, er samkvæmt því sem Björn segir, eingöngu um að ræða í Helguvík og Björn spyr hvort ekki sé til  áætlun um ,,hvað gerist lokist Helguvíkurhöfn".

Og dæmin sem nefnd eru í greininni eru mörg fleiri. 

Við lifum að mestu  frá degi til dags og hugum ekki að því að eiga birgðir af eldsneyti og áburði ( Áburðarverksmiðjan sem var í Gufunesi er orðin að hljómleikahöll!) og fóðurvörum fyrir húsdýr.

Björn greinir frá því að Finnar framleiði 80% þeirra matvæla sem þeir þurfi og eigi birgðir af áburði og korni sem dugi til sex mánaða og stemmir það við það sem undirrituðum var sagt af fróðum manni er við gengum heim að loknum fundi sem verið hafði í Bændahöllinni fyrir nokkrum árum. En sagan er ekki öll, því eldsneytisbirgðir eiga Finnar til fimm mánaða, eftir því sem fram kemur í grein Björns.

Björn Bjarnason veitti forystu starfshópi um landbúnaðarmál. Hópurinn skilaði skýrslu ,,Ræktum Ísland!". Að mati þess sem þetta ritar, afar vel unnið plagg og áhugavert. Hvað gert er með það sem þar kemur fram fer ekki hátt, en ef til vill er verið að vinna að og út frá niðurstöðum skýrslunnar.

Og þó hljótt fari um það plagg og forsjá sé lítil varðandi það helsta sem við þörfnumst, þá getum við huggað okkur við að ekki er svo að sjá sem fatnaður varði af skornum skammti þó aðfangaleiðir lokist um einhvern tíma.

Úkraínumálið

 


Guðmundur G. Þórarinsson skrifar grein (í Morgunblaðið 8.3.2022) um stöðuna í Úkraínu bæði fyrir og eftir innrás Rússa í landið.

Í upphafi greinar sinnar bendir hann á að verið sé að kljást við ,,upplausn Sovétríkjanna“, sem þrátt fyrir að hafa verið jákvæð þróun, hafi af orðið ,,margháttaðar flækjur“ sem nú sé horfst í augu við. Landamæri sem urðu til við uppskiptingu Sovétríkjanna valdi erfiðleikum ,,vegna þjóðarbrota, trúarbragða og tungumála“.

Guðmundur minnir á hve alvarleg upplausn varð af upplausn Júgóslavíu er hún skiptist upp og bendir á að í Sovétríkjunum fluttust fjölmennir hópar ,,yfir hin eiginlegu landamæri, s.s. í Eystrasaltsríkjunum“ og bætir við, að nú sjáist afleiðingarnar í Úkraínu.

Hann minnir á Helsingisáttmálann sem hafi verið samkomulag 35 ríkja um að virða fullveldi og landamæri auk þess að taka tillit til og virða rétt minnihlutahópa, að Minsk samkomulagið hafi verið í anda þessa og undir það hafi ritað Úkraínumenn, Rússar, Þjóðverjar og Frakkar auk ÖSE. Þar hafi verið kveðið á um að Donesk og Luhansk skyldu fá ,,einhverskonar sjálfstæði og Úkraínumenn skyldu gæta réttinda minnihlutahópanna þar og tungumáls þeirra“.

Síðan segir: ,,Þegar rétt kjörin stjórnvöld í Kiev voru hrakin frá völdum að hluta vegna utanaðkomandi afla, sumir segja Bandaríkjanna, snerust ný stjórnvöld gegn Minsksamkomulaginu og lýstu vilja til að ganga í NATO.“

Guðmundur heldur áfram og minnir á að ,,Í 7 ár, frá uppreisn aðskilnaðarsinna 2014, hefur þarna ríkt hálfgert stríðsástand. Her Úkraínu hefur verið þarna á landamærunum. Kiev hefur ekki staðið við að veita þessum héruðum meira sjálfstæði né gætt réttinda minnihlutahóps þarna þrátt fyrir að hafa undirritað samkomulag þess efnis. Aðskilnaðarsinnar sem eru annarrar og þriðju kynslóðar Rússar hafa eftir 7 ára bið eftir framkvæmd Minsksamkomulagsins ákallað Rússa um aðstoð.“

Og að þar kom að þolinmæði Pútíns hafi brostið og að: Rússar hafi óttast að ný eldflaugastöð verði reist á landamærunum ef Úkraína gengur í NATO.

Grein sinni lýkur Guðmundur með eftirfarandi texta: ,,Nokkur munur er á afstöðu Frakka og Þjóðverja annars vegar og Bandaríkjanna og Bretlands hins vegar. Boris Johnsson á í erfiðleikum heima fyrir vegna veisluhalda sinna og Biden vegna hörmulegs viðskilnaðar síns í Afganistan. Freistandi er því fyrir báða að dreifa athyglinni og láta hana beinast að hættu heimsbyggðarinnar vegna Rússa."

Grein sinni lýkur Guðmundur með eftirfarandi orðum:

,,Einhvern veginn finnst mér afstaða Rússa skiljanleg.“

Það verður að segjast að Guðmundur sýnir ákveðið áræði að skrifa grein sem þessa.

Undirritaður reyndi að birta eitt og annað á Facebook í færslum með það að markmiði að koma að sjónamiðum beggja aðila en í morgun lokaði hann þeim færslum eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að sleppa slíkum skrifum og tilvitnunum og vera laus við vanstilltar athugasemdir af ýmsu tagi sem ekki verða frekar til taldar hér.

Það er afleitt í jafn grafalvarlegu máli eins og styrjöldin í Úkraínu er, að menn reyni ekki að tjá sig með sæmilega yfirveguðum hætti um málið.

Íslenskur málsháttur segir að sjaldan valdi einn þegar tveir deila.

Færa má rök fyrir því að í þessu máli séu þeir sem um deila fleiri en einn og jafnvel fleiri en tveir eða þrír.

Þess þá heldur er áríðandi að stíga gætilega til jarðar, því það er ekkert minna en tilvera okkar á þessari Jörð sem er undir ef allt fer á versta veg.

(Leturbreytingar eru mínar)


Nasistahreyfingar í Úkraínu?

Í grein í vefritinu Kjarnanum undir yfirskriftinni Öfgahægrivandinn ekki meiri í Úkraínu en í nágrannaríkjunum, er farið yfir ásakanir sem fram hafa komið, um að í Úkraínu vaði uppi nasistahópar, og að þeir séu meira að segja vopnaðir og hafi tekið þátt í baráttunni í austurhéruðunum þ.e. Donbass og Lughans.

Ekki er hægt að halda því fram að í greininni sé komist að ,,hreinni" niðurstöðu varðandi málið. Forseti Úkraínu segir sem svo: hvernig get ég verið nasisti maður sem kosinn er í lýðræðislegri kosningu, er gyðingur og átti afa sem barðist með rauða hernum, eða eins og segir í greininni: 

,,Volodímír Zel­en­skí for­seti Úkra­ínu hefur brugð­ist við þessum nas­ista­á­virð­ingum frá stjórn­völdum í Kreml[in] með nokkru háði og bent á að hann sjálf­ur, lýð­ræð­is­lega kjör­inn for­seti lands­ins, sé gyð­ing­ur. „Hvernig gæti ég verið nas­ist­i?“ sagði hann í ávarpi á dög­unum og vís­aði til þess að afi sinni hefði barist með Rauða hernum gegn þýskum nas­istum á tímum seinni heims­styrj­ald­ar."

Ekki veit undirritaður hvort útilokað er, að maður með þennan bakgrunn geti verið eða geti orðið nasisti, þó það verði að teljast frekar ólíklegt.

Í grein Kjarnans segir síðan: ,,Átökin sem hafa geisað í aust­ur­hluta Úkra­ínu allt frá árinu 2014 hafa til dæmis orðið vatn á myllu hóps sem kallar sig Azov-hreyf­ing­una."
Og síðan:
,,Þessi hópur [Azov] sjálf­boða­liða, sem telur nokkur þús­und manns, hefur barist gegn rúss­neskum aðskiln­að­ar­sinnum í Dónetsk og Lúgansk hér­uðum á und­an­förnum árum, í sam­vinnu við sveitir úkra­ínska stjórn­ar­hers­ins. Hern­að­ar­armur Azov-hreyf­ing­ar­innar varð við upp­haf átak­anna í reynd form­legur hluti úkra­ínska þjóð­varð­liðs­ins, sem var mjög svo veik­burða er átökin í Don­bass hófust."

Hópurinn sem barðist gegn aðskilnaðarsinnunum, hernaðararmur Azov hreyfingarinnar, barðist sem sagt með úkraínska stjórnarhernum í Donetsk og Luhansk!
Við höfum heyrt þetta áður, en þá frá rússneska forsetanum og öðrum talsmönnum rússneskra stjórnvalda!
Síðan segir í greininni:

,,Frétta­rit­ari BBC í Kænu­garði sagði í pistli árið 2014 að úkra­ínsk stjórn­völd gerðu minna úr hlut­verki Azov-hreyf­ing­ar­innar í hern­að­inum í Don­bass en efni stæðu til og að þau reyndu að kom­ast hjá því að tala opin­ber­lega um stórt hlut­verk þessa öfga­hóps, sem reynst hafði mik­il­vægur hlekkur í bar­átt­unni gegn rúss­neskum aðskiln­að­ar­sinnum í aust­ur­hér­uð­un­um. Fæstir Úkra­ínu­menn hefðu heyrt um að það væru menn sem kenndu sig við öfga­þjóð­ern­is­hyggju og jafn­vel nas­isma að berj­ast fyrir hönd lands­ins á víg­lín­unum í austri." 

Í textanum sem hér er undirstrikaður af undirrituðum, kemur sem sagt fram að fæstir landsmenn hafi gert sér grein fyrir að mannskapur af þessu tagi væri að berjast austur þar.

Seinna segir í umfjölluninni í Kjarnanum: ,,Til­vist ein­hverra yfir­lýstra nýnas­ista innan þjóð­varð­liðs Úkra­ínu hefur því ekki verið neitt leynd­ar­mál."

Í greininni segir að fjallað hafi verið um þessi mál í  ,,grein sem birt­ist í breska tíma­rit­inu New Statesman." 

Þar mun vera sagt, að herskáir hægriöfgamenn í Úkra­ínu hafa notið ,,frjáls­ræðis undir vernd­ar­væng þar­lendra stjórn­valda. Frjáls­ræð­is, sem jafn­vel hafi verið öfunds­vert í augum öfga­hreyf­inga af svip­uðum meiði ann­ars­staðar í heim­in­um."

Geininni í Kjarnanum lýkur með því að dregin er sú ályktun að ekkert af þessu réttlæti innrás Rússa í Úkraínu og vel getur verið að það sé rétt. 

Hitt er jafnvíst að rússnesk stjórnvöld hafa komist að annarri niðurstöðu, niðurstöðu sem þau hafa ekki verið sérstaklega dugleg við að rökstyðja, svo ekki sé meira sagt.

Grein Kjarnans ætti að auðvelda þeim málið!

Japl jaml og fuður

  ,,Eftir japl jaml og fuður var hann grafinn út og suður" var eitt sinn sagt og ætli það verði ekki niðurstaðan núna. Þingm...