Að tjá sig svo skiljist

 

Að tjá sig svo skiljist

2022-03-28 (2)Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er farið nokkrum orðum um vandræðaganginn sem er í kringum forseta Bandaríkjanna undir fyrirsögninni ,,Forsetin meinti".

Tilefnið er að forsetinn hélt ræðu í ferð sinni til Evrópu; ræðu sem unnin og yfirfarin hafði verið af til þess bærum, en svo illa vildi til að Biden fór út fyrir efnið, út af sporinu og út í buskann.

Það geisar nefnilega stríð í Evrópu, ekki það fyrsta því miður, en gott væri ef það væri það síðasta.

Sá sem þetta skrifar heldur að forsetinn hafi ef til vill sagt það sem hann meinti og jafnvel meint það sem hann sagði, en hann var ekki staddur við eldhúsborðið heima hjá sér og því þurfti hann að gæta orða sinna.

Hvað hann sagði og hversvegna hann sagði það skiptir ekki máli, því hann var í opinberum erindagerðum að þvælast þar sem hann var og átti að haga orðum sínum samkvæmt því.

Höfundur Staksteina fer vel yfir málið, enda ekki óvanur að koma opinberlega fram ef hann er sá sem okkur grunar.

Eftir að hafa lesið pistilinn læddist að sú hugsun, hvort ekki hefði verið gott, að Biden hefði komið við á Íslandi og fengið Staksteininn með sér í ferðina; í þeirri von að það hefði getað forðað hinum bandaríska frá havaríinu?

Staksteinninn er vanur og hefur hingað til getað sagt skoðun sína svo skiljist.

Því skal stungið upp á því að framvegis verði ræður bandaríkjaforseta bæði samdar og fluttar af okkar ágæta höfundi Staksteina.

Væri það gert myndi vandræðagangi verða forðað og meiningu þess sem til stóð að segja komið til skila.

Væri það ekki góður kostur?

Vandræðagangur og út fyrir sporið krúsindúllur af því tagi sem við höfum orðið vitni að hjá Biden karlinum eru óheppilegt tillegg inn í viðkvæma pólitík á stríðstímum.

Bieden gæti í staðinn snúið sér að fjölskyldumálunum, haft það rólegt og ruggað sér í ruggustólnum og jafnvel tekið af og til upp símann og hringt í Selenski vin sinn í Úkraínunni og spurt frétta af gangi heimsmálanna.

Við hinir minni spámenn á því sviði myndum þá halla okkur aftur í okkar ruggustólum, slaka á og njóta lífsins af kappi, í þeirri von og trú, að bomburnar stóru yrðu kyrrar í hvílu sinni.

Hér verður ekki reynt að endursegja texta Staksteina. Hann er þannig að synd væri að slíta hann í sundur í mislukkaðri endursögn. 

Því er lagt til að menn lesi hann í heild sinni.

Það verður enginn svikinn af því! 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...