Frambjóðandi Viðreisnar vill ekki það sem honum þykir gott!

 Nanna Hermannsdóttir skrifar áhugaverða grein á vefmiðilinn Vísi 30. maí sl. 

Tilefni skrifanna er að Guðbrandur Einarsson oddviti Viðreisnar í Suðurlandskjördæmi skrifaði á sama miðil deginum áður grein um heilbrigðisþjónustuna í Svíþjóð.

Guðbrandi ,,þótti það sérstakt" að þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Svíþjóð, barst honum inn um bréfalúguna póstur með upplýsingum um bætur eins og ,,barna- og húsnæðisbætur" og ekki nóg með það, því sumt af því gerðist sjálfkrafa og ekki þurfti að hafa fyrir því að sækja um.  

Að þessu lesnu er niðurstaðan sú að greinarhöfundur hafi verið ánægður með þjónustuna í Svíaríki. Annað var upp á teningnum þegar Guðbrandur og fjölskylda flutti til baka, því þá kostaði ,,talsverða" fyrirhöfn að ,,komast inn í kerfið aftur". Upplýsingar voru takmarkaðar og stuðningur minni og ,,íslenska velferðarkerfið" tekjutengt ,,í bak og fyrir".

Þegar hingað er komið í lestri greinarinnar stöndum við í þeirri trú að Guðbrandur sé að hæla kerfinu í Svíþjóð og sé ánægður með það og að verið geti að hann vilji, þegar og ef, hann verður kjörinn á þing, betrumbæta það íslenska og færa í sænskt horf.

Svo er þó ekki, því er hér er komið sögu taka málin óvæntan snúning og Guðbrandur eyðir nú orku sinni í að skamma Samfylkinguna fyrir að ,,sjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu allt til foráttu" og að hinn íslenski jafnaðarmannaflokkur sé þeirrar skoðunar ,,að opinberir aðilar séu þeir einu sem veitt geta almennilega þjónustu á þessu sviði" eins og þar segir.

Við sem eldri erum en tvævetur, vitum að langt er síðan Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn og að fara þarf allt aftur til þess tíma þegar koma þurfti Íslandi á lappirnar eftir ,,hrunið", að flokkurinn sat í ríkisstjórn með Vinstri grænum og var þá smalað köttum svo sem frægt varð. 

Hvort eitthvað hefur slegið saman í greinarsmíð Guðbrands, svona líkt og þegar ,,ritillinn" tekur öll völd við símaskrifin, verður ekki kveðið upp úr hér. 

Miðað við þennan málflutning er hreint ekki víst að atkvæðaseðill þess sem þetta ritar verði með krossi fyrir framan vaffið, hafi hann þá einhverntíma verið á leiðinni þangað!


Afsökunarbeiðnin

 

Mynd af heimasíðu Samherja hf.

Afsökunarbeiðni Samherja er hér fyrir neðan tekin af  vef RUV:

,,„Undanfarin mörg ár hefur mikið verið fjallað um ýmis málefni er tengjast starfsemi Samherja. Samherji hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki á mörgum stöðum á landinu og í heiminum. Þetta starfsfólk hefur verið í forystu við uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í fremstu röð í harðri samkeppni á alþjóðavísu. Bæði stjórnendum og starfsfólki hefur sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf sín enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.

Í slíkum aðstæðum, þegar vegið er að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi, þá getur reynst erfitt að bregðast ekki við. Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um samskipti fólks sem skiptist á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum. Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.

Þá hafa stjórnendur Samherja brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“"

Það er enginn vafi á því að fyrirtækið hefur á að skipa mörgu ,,mjög hæfu starfsfólki" hérlendis, sem erlendis og að það fólk hefur lagt sitt af mörkum til uppbyggingar þess. 

Hefði ekki verið farið ,út af sporinu' hefði engum þurft að ,svíða'.

Hafi umfjöllunin, sem vísað er til, ekki byggst á staðreyndum, hefði verið gott að koma hinu rétta á framfæri með trúverðugum hætti. 

Hér segir að vegið hafi verið ,,að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti" og sé það svo hefði verið betra að koma athugasemdum á framfæri á málefnalegan hátt en ekki á ,,óheppilegan".

Viðurkennt er: 

Að stjórnendur Samherja hafi ,,brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið" og að ljóst sé að of langt hafi verið gengið í viðbrögðum og, að af þeim sökum vilji Samherji biðjast afsökunar á  framgöngu sinni.

Allir eiga leiðréttingu orða sinna, rétt á að fá annað tækifæri, annað skip og annað föruneyti og enginn vill að þetta vel upp byggða og glæsilega fyrirtæki fari illa.

Horfum björtum augum fram á veginn, vonum það besta og kannski kemur sú tíð að fiskveiðistjórnunarkerfinu verði breytt og það lagað að framkomnum hugmyndum þar um. 

Við erum svo lítið samfélag að nauðsynlegt er að halda sem besta sátt um það sem heldur þjóðinni á floti og þó sjávarútvegurinn sé ekki það eina sem það gerir, þá á hann þó stóran þátt í þeirri velgengni sem við búum við.

Áhugaverðar greinar í Bændablaðinu

Tvær greinar eftir Ólaf Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, eru í Bændablaðinu sem út kom  27. maí 2021. Önnur er um eðli íslensks jarðvegs hvað varðar innihald kolefnis, en hin um ástand beitilanda og er andsvar við grein eftir Ágústu Ágústsdóttur sem birtist í Bændablaðinu þann 12. maí.

Fyrir okkur sem áhuga höfum á þessum málum er hér um gott innlegg í umræðuna að ræða, sem óhætt er að mæla með.

Greinarnar virðast ekki vera á vefútgáfu Bændablaðsins en birtast hér sem skjáskot:



Í texta undir mynd í greininni  ,,Losa íslensk votlendi minna af CO2 en erlendar mómýrar vegna lægra kolefnishlutfalls?" segir að:

,,Mold íslenskra votlenda inniheldur áfok og gjóskulög og eru því sannarlega með lægra hlutfall (%) kolefnis í hverju jarðvegslagi en gengur og gerist í mómýrum norðurslóða – og þeim mun lægra hlutfall sem áfokið er meira."

Í niðurlagi greinarinnar segir síðan:

,,Mikilvægt er að hafa í huga að ekki hefur verið rætt um að fylla í skurði á því landi sem er notað til heyframleiðslu eða aðra ræktun þegar rætt er um endurheimt votlendis. Hins vegar er sjálfsagt er að fylla upp í skurði sem hafa engan augljósan eða hagnýtan tilgang og þar er af nógu að taka. Losun frá framræstum mýrum hefur vissulega áhrif á kolefnisspor framleiðslu sem nýtir slíkt land – það er málefni sem skoða þarf frá sem flestum hliðum í framtíðinni. En það er mikilvægt að halda því til haga að magn kolefnis í íslenskum votlendum er oftast sambærilegt við það sem þekkist í mómýrum nágrannalandanna, en eðli jarðvegs getur mögulega verið hvetjandi fyrir losunina miðað við aðrar mómýrar"



Í hinni greininni ,,Ástand lands og ákvarðanir um beit" segir m.a.: 

,,Slæmt ástand margra afréttarsvæða hefur legið fyrir lengi. Það fer beinlínis gegn náttúruverndarlögum að bíða sífellt eftir betri gögnum – en það er sú leið sem ítrekað hefur verið valin þegar reyna á að laga sauðfjárbeit að landkostum. Það var beðið með aðgerðir þar til rofkortlagningu lauk árið 1997, sem gaf afgerandi niðurstöður. Síðan tók við löng þróun og aðlögun að landnýtingarþætti gæðastýringar (orðin virk um 2008), sem lítið hald reyndist í þegar á hólminn var komið. Síðan var beðið eftir GróLind (fyrstu niðurstöður 2020 – sambærileg útkoma og af rofkortlagningu), sem nú á að hafna og bíða enn eftir ítarlegri gögnum, ef marka má áðurgreind skrif. Er þetta ekki orðið ansi skýrt mynstur? Sauðfjárframleiðsla stæði margfalt sterkari nú hefði gæðastýringin ekki farið í þann óheillavænlega farveg að taka ekki á ástandi landsins með hliðsjón af rofkortlagningu upp úr aldamótunum. Á meðan illa gróin afréttarsvæði í eigu almennings á borð við Biskupstungnaafrétt, Landmannaafrétt, Rangárvallaafrétt eða rofsvæðin á myndunum sem hér fylgja eru nýtt til beitar og nýtingin bæði vottuð og styrkt af almannafé, er kerfið ekki trúverðugt"

Greininni lýkur Ólafur síðan með þessum orðum: 

,,Það er fyrir löngu orðið tímabært að takmarka framleiðslu sauðfjárafurða við land í góðu ástandi. Við það verður að nota bestu fáanlegu þekkingu sem til er hverju sinni, sem er m.a. í samræmi við náttúruverndarlög og lög um landgræðslu. Afneitun á slæmu ástandi lands – þar sem það land er til staðar – er ekki leiðin til að tryggja framtíð sauðfjárræktar á Íslandi.

Eins og sést er þessi færsla byggð nánast alveg á klippum úr greinum Ólafs, en óhætt er að mæla með því að menn næli sér í eintak af blaðinu og lesi greinarnar í heild sinni þar.


Meira um ,,Ræktum Ísland"

 


Ragnar Árnason ritar um landbúnaðarmál í Morgunblaðið (22. maí 2021). Á sömu blaðsíðu blaðsins er einnig grein eftir Atvinnuvega og nýsköpunarráðherra og þar með landbúnaðarmála, sem hér fylgir með.

Ragnar hefur veitt því athygli að í skýrslunni ,,Ræktum Ísland" kveður við nýjan tón í umræðum um landbúnaðarmál og fagnar hann því sem von er og bendir á, að þar kveði við skynsamlegri tón en hingað til hefur verið varðandi landbúnaðarmálin. Vissulega er það rétt og vert er að þakka höfundunum fyrir góða vinnu, því það er nokkurt nýnæmi að fjallað sé um landbúnaðarmál með þessum hætti.

Nær örugt má telja að núverandi landbúnaðarráðherra verði minnst fyrir að hafa hreift við mörgu þörfu þann tíma sem hann hefur setið í embætti sem ráðherra landbúnaðarmála. Sumt af því orkar tvímælis, svo sem fjáraustur í sauðfjárræktina í nafni COVIT-19, án þess að fram hafi komið með trúverðugum hætti hvernig pestin hafi farið ver með þá búgrein en aðrar. Undarleg eru líka áformin um heimaslátrun og vinnslu sömu búgreinar, þar sem ætlunin er að mismuna aðilum varðandi greiðslur eftirlitsgjalda á þann hátt að ríkið borgar gjöldin fyrir heimaslátrarana en ekki fyrir hina. Fleira mætti nefna, en skýrslan er þörf og góð og vísar vonandi veginn til framtíðar.

Ragnar bendir á atriði sem nefnd eru á í skýrslunni en það er að: ,,bæði í Nor­egi og Evr­ópu­sam­band­inu eru al­menn­ari og rýmri ákvæði í lög­gjöf sem víkja til hliðar ákvæðum sam­keppn­islaga ef þau standa í vegi fyr­ir fram­kvæmd land­búnaðar­stefnu stjórn­valda".

Hér er um að ræða áhugavert mál. Fámenn þjóð telur sig þurfa að ganga lengra til að verja stöðu samkeppnismála, í landbúnaði vel að merkja, en gert er á um 500 milljóna manna markaði.

Fyrirtækjum er meinað að hagræða í rekstri, sem er bagalegt og kemur niður á hagkvæmni í slátrun og vinnslu kjötafurða.

Ragnar bendir á að þessu sé öfugt farið varðandi mjólkurframleiðslu og vinnslu og að þar hafi orðið miklar framfarir í kjölfarið.
Hvers vegna framleiðslugreinum er mismunað í þessu efni er ekki gott að skilja, en tregðulögmálin eru svo sannarlega mörg og virk.

Niðurlagsorð greinarinnar ættu margir að geta tekið undir:
,,Van­hugsuð fram­kvæmd sam­keppn­islaga er hluti af þess­ari mis­mun­un. Afar mik­il­vægt er að stjórn­völd beri gæfu til að fara að ábend­ing­um þeim sem fram komu í skýrslu þeirra Björns Bjarna­son­ar og Hlé­dís­ar Sveins­dótt­ur og tryggi ís­lensk­um land­búnaði sam­keppn­is­skil­yrði a.m.k. til jafns við það sem geng­ur og ger­ist í Evr­ópu­sam­band­inu."






Sameining afurðastöðva og heimaslátrun

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu 19. mars 2021. 

Tilefnið er að Erna hefur rekist á gein eftir Val Þráinsson aðalhagfræðing Samkeppniseftirlitsins. Valur ritaði þá grein í sérblað Fréttablaðsins ,,Markaðinn", þann 17. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni „Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi“.

Eftir því sem fram kemur hjá Ernu, mun hagfræðingur Samkeppniseftirlitsins hafa skriplað á skötunni er hann vitnaði í plagg eftir prófessor nokkurn við Exeter háskóla Steve McCorriston.

Valur kallar plaggið skýrslu en eftir því sem Erna segir í grein sinni, er ekki um skýrslu að ræða heldur aðeins ,,technical note", rituð fyrir FAO Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og mun hafa birst í útgáfuröð sem kallast á enskunni ,,The State of Agricultural markets", eða það sem kalla mætti: Staða landbúnaðarmarkaðanna. 

Eftir því sem fram kemur í grein Ernu er ,,nóta" af þessu tagi ekki þess eðlis að hún sé ,,skoðun" FAO né neitt í þá veru og því ekki ástæða til að draga þá ályktun að það sem sett er fram í plaggi af þessu tagi, sé skoðun stofnunarinnar. 

Af þessu virðist vera óhætt að draga þá ályktun, að hagfræðingur Samkeppnisstofnunar hafi annað hvort óviljandi eða viljandi vitnað í plaggið til að afvegaleiða umræðuna sem um þessi mál er hér á landi.

Erna segir í grein sinni: 

,,Eftir að hafa vísað með þessum vafasama hætti til þessarar tækninótu FAO grípur aðalhagfræðingurinn til þess ráðs að fjalla um nokkur dæmi um brot mjólkurafurðastöðva í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi á samkeppnislögum. Nokkra furðu vekur að þessi dæmi eru nú öll frá Norður Evrópu, en ekki frá samkeppnisyfirvöldum í Malaví, Kenýa og Indlandi sem tækninótan fjallaði um. Þessi framsetning aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins er mjög sérstök svo ekki sé meira sagt."

Eins og flestir munu sjá er hér um vafasama tengingu að ræða hjá hagfræðingi Samkeppnisstofnunar.

Það ætti ekki að þurfa að segja það neinum að íslenskt samfélag er ósambærilegt í mörgu tilliti við milljóna og milljónatuga samfélög annarra landa. Erna leggur til að tekið sé mið af Noregi og ESB- löndum og víst er það hægt, en þó má hafa í huga að Noregur er um fimm milljón manna þjóð en Ísland hefur tosast upp í að vera 360.000 manna þjóðfélag og það er nýlega sem það gerðist.

Hvað sem um þann samanburð má segja, þá er fráleitt að amast við sameiningu smáfyrirtækja í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Óhætt mun að fullyrða að sameining sumra þeirra yrði til hagræðingar og myndi draga úr kostnaði og til þess eru nú hrútarnir skornir eftir því sem flestir myndu halda.

Hinn kosturinn er að banna fyrirtækjunum að fara á hausinn þegar tapreksturinn er endanlega búinn að leiða þau í gjaldþrot.

Hvernig menn ætla að fylgja slíku banni eftir verður fróðlegt að sjá!

Að styrkja afurðastöðvar með sameiningum rímar hins vegar illa við verkefnið sem landbúnaðarráðherra hefur verið að ýta úr vör að undanförnu. Verkefni sem kynnt hefur verið sem heimaslátrunar og heimavinnsla sauðfjárafurða

Verði þær hugmyndir að veruleika munu þær augljóslega grafa undan vinnslustöðvunum, en ekki styrkja þær. Þeim er til að mynda ætlað að greiða eftirlitsgjöld úr eigin vasa, en samkvæmt því sem ákveðið er af ráðherranum er ætlunin, að ríkissjóður greiði eftirlitsgjöldin fyrir þá bændur sem slátra ,,heima”; njóti sem sagt þeirra fríðinda, að eftirlitsgjöldin verði greidd af almannafé!

Eins og hver maður sér, þá er með þessu verið að grafa undan vinnslustöðvum bænda en ekki styrkja þær, því augljóslega hafa stöðvarnar ekki arðsemi af slátrun og vinnslu gripa sem slátrað er seldir ,,beint frá býli", eins og fínt þykir að kalla það.

Hin hliðin á þessu máli er síðan sú, að eins og margir eða að minnsta kosti sumir vita, hefur heimaslátrun til sölu verið stunduð í talsverðum mæli um áratugi og kjötið verið selt þeim sem sækjast eftir viðskiptunum. 

Því fé er slátrað án eftirlits og af tekjum sem myndast af þeirri framleiðslu má gera ráð fyrir að ekki séu greiddir skattar né önnur gjöld og þaðan af síður eftirlitsgjöld. 

Heilbrigðisskoðun þeirrar vöru fer ekki fram af augljósum ástæðum.

Því ef dýralæknir gæfi sig í að fylgjast með og heilbrigðisskoða slíka framleiðslu væri hann að brjóta lög, nema hann gæti talið sér trú um að ætlunin væri að neyta afurðanna heima á búinu svo sem heimilt er og gert hefur verið um aldir!



Verðlagning búvara


Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, skrifaði grein í Fréttablaðið  19.5.2021 þar sem hún fer yfir hvernig þróunin í mjólkurframleiðslunni hefur verið undanfarin ár. 

Í greininni koma áhugaverðar upplýsingar fram varðandi hvernig búgreinin hefur þróast til framfara, í nýtingu tækni og til betri aðbúnaðar að gripunum.

Kynbætur, tækniþróun og bætt fóðurnýting hefur orðið til þess að kúabændur hafa getað aukið framleiðslu með færri kúm, sem hefur fækkað um 20% á meðan framleiðslan hefur aukist um 43%.

Búunum hefur fækkað og þau sérhæfst og tæknivæðst s.s. með mjaltaþjónum.

Hver kýr gefur af sé rúmlega 50% meiri mjólk en var fyrir 30 árum og sú þróun heldur áfram.

Lausagöngufjós með mjaltaþjónum hafa bætt aðbúnað að gripunum og við það eykst framleiðslan og færri gripir skila sömu afurðum og jafnvel meiri en áður var.

Kolefnissporið hefur minnkað af fyrrgreindum ástæðum en líka vegna bættrar fóðrunar, betri nýtingu bifreiða og losun vegna framleiðslu á dufti hefur minnkað um 95%, þó framleiðslan hafi aukist um 43%.

Þá kemur fram að stigið hefur verið stórt skref við að framleiða próteinduft úr mysu og að ,,kúabændur hafa sett sér það markmið að greinin verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að þá verði allar afurðir vottaðar kolefnishlutlausar."

Við þetta er því að bæta að Þórólfur Matthíasson hagfræðingur og prófessor, gerði eftirfarandi athugasemdir við grein Margrétar í færslu á Facebook:

,,[...] Verðlagsnefnd búvara notast við kostnaðargrundvöll byggðan á raunverulegum kostnaði frá því fyrir 1990. Vinnuliður þess grundvallar tekur t.d. ekki tillit til þess að nú er ekki verið að handflytja mjaltartæki milli kúa hvern mjaltartíma heldur rölta kýrnar á sinn stall og róbótinn sér um afganginn. Annað í þessum grundvelli er eftir þessu. Ekki er tekið tillit til þess að nyt eftir hverja kú er núna 40% meira en á þeim tíma sem grundvöllurinn var saminn. Grundvöllurinn er hreinn skáldskapur í núverandi umhverfi. [...]

Þegar undirritaður sat í Verðlagsnefnd búvara undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur gerði formaðurinn ítrekaðar tilraunir til að fá ATvinnuvegaráðuneytið og Hagstofu Íslands til að vinna nýjan og betri kostnaðargrundvöll. Undirritaður lýsti því yfir að hann tæki ekki þátt í neinum ákvörðunum um hækkun skilaverðs til bænda meðan nefndarmönnum væri ætlað að vinna með fornaldarupplýsingar. Atvinnuvegaráðuneytið þverskallaðist við að skaffa betri tölur. Annað hvort var starfsmaður Hagstofunnar veikur, eða vinnuálag í ráðuneytinu mikið eða ráðherran með kvef. Aldrei var hægt að hósta upp nýjum tölum sem þó augljóslega, samkvæmt grein framkvæmdastjórans í Fréttablaðinu voru öllum öðrum tiltæk en "vitlausa" fólkinu í Verðlagsnefndinni.
Við stjórnarskipti var okkur Kristrúnu og Dóru Tynes skipt út úr nefndinni og ágætur prófessor við Háskólann í Reykjavík lét það yfir sig ganga að hækka skilaverð til bænda byggt á þessu skinnhandriti sem kallað er verðlagsgrundvöllur kúabúa. Svona eru nú kaupin í flórnum, en fróðlegt að sjá að framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda hefur þau gögn undir hönum sem ráðuneytið sveikst um að láta okkur Kristrúnu og Dóru fá á sinum tíma.
Maður getur bara giskað hvers vegna Atvinnuvegaráðuneytið vildi ekki afhenda okkur tölurnar. Þar til annað sannast leyfi ég mér að setja mestar líkur á þá tilgátu að ástæðan sé sú að hefðum við fengið réttar tölur hefðum við getað lækkað skilaverð á mjólk til bænda."

Hér er ekki um að ræða gæfulega lýsingu á vinnubrögðum í Verðlagsnefnd búvara. Það hlýtur að mega ætlast til þess að búvörur sem framleiddar eru undir búvörusamningum séu verðlagðar af svo mikilli nákvæmni sem unnt er.
Þar ætti, að mati þess sem þetta ritar, að taka tillit til kostnaðarþátta við framleiðsluna svo sem þeir eru á hverjum tíma og þar með talinn kostnað vegna nýrrar tækni (mjaltaþjóna) og nýrra bygginga vegna aðbúnaðarreglugerða og svo framvegis.
Það geta ekki talist vönduð vinnubrögð að byggja verðútreikninga á löngu úreltum upplýsingum og hreint ótrúlegt að svo hafi verið, samkvæmt því sem Þórólfur lýsir í færslu sinni.
Það er engum til góðs, hvorki bændum né neytendum, ef þannig hefur verið að staðið og ekki heldur ef svo er í dag, sem vonandi er ekki.
Áratuga gamlar kostnaðarupplýsingar eru augljóslega ekkert til að byggja á í verðútreikningum.
Undirritaður veit ekki hvenær Þórólfur sat í nefndinni, en hafi það verið á þeim tíma þegar ráðamenn í landbúnaði virtust trúa því að íslenskir kúabændur gætu látið kýr sínar mjólka sem af erlendum kúakynjum væru, með því einu að þrýsta saman grasi og gera úr því köggla og einfaldlega trúa því síðan að búið væri að gera úr því kjarnfóður, þá er eins víst að lýsing Þórólfs sé rétt.
Við erum nefnileg sum enn á kreiki sem munum eftir því að ráðamenn tóku upp á einni nóttu 200% kjarnfóðurgjald til að neyða íslenska bændur til að nota kögglaða grasið, en einnig í leiðinni til að bregða fæti fyrir alifugla og svínarækt sem svo mjög fór fyrir brjóst grámyglaðra stjórnmálamanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma þegar þetta var gert.

Um: ,,Ræktum Ísland"

 

Grein Björns Bjarnasonar í Morgunblaðinu.

Björn Bjarnason ritaði grein um starf samstarfshópsins sem samdi ,,Ræktum Ísland" og birtist hún í Morgunblaðinu. Í greininni fer Björn yfir störf starfshóps þess sem landbúnaðarráðherra skipaði.
Hlutverk hópsins var að horfa til framtíðar og semja plagg um landbúnaðarmál. Það er nú komið út og má nálgast það hér

Við sem höfum verið þeirrar skoðunar að landbúnaðarstefnan undanfarna áratugi hafi lítil verið og jafnvel frekar verið að afrækta Ísland, finnum nú fyrir bjartsýni.

Eftir lestur skjalsins vaknar tilfinning um að framundan geti verið nýjir tímar í landbúnaðarmálum.  
Í stuttu máli sagt, er vert að hvetja alla bændur og aðra áhugasama um landbúnaðarmál til að kynna sér samantekt þá sem fram er komin og sem er nú í almennri kynningu, hún er sett fram á auðskilinn, upplýsandi og skýran hátt.

Það er mikil vinna að gera grein fyrir öllu sem fram kemur í skýrslunni og verður það ekki reynt hér. Björn ritar grein sína í Morgunblaðið og því er hún ekki með góðu móti aðgengileg öðrum en þeim sem eru áskrifendur að því blaði.

Ræktum Ísland er á Samráðsgátt Stjórnarráðsins og þar er hægt að nálgast það og er það um 80 síður á læsilegu og aðgengilegu máli. Samstarfsfólk Björns voru Hlédís H. Sveinsdóttir, Sigurgeir Þorgeirsson og Bryndís Eiríksdóttir. 

Senn mun hefjast ,,víðtækt samráð um skjalið" sem liggur frammi á samráðsgátt Stjórnarráðsins eins og áður sagði.

Í Ræktum Ísland kennir margra grasa og á einum stað má sjá þessa setningu, sem telja verður byltingarkennt að sjá í umræðum um íslensk landbúnaðarmál. Þó verður, til að gæta sannmælis, að geta þess að við gerð síðustu búvörusamninga var opnuð lítil glufa á viðhorf sem eftirfarandi:

,,Stuðningur sem að mestu eða öllu leyti er tengdur ákveðnum búgreinum og afurðum kann að vinna gegn því að landbúnaður aðlagist breyttum aðstæðum"

Framundan er fundaherferð til að kynna niðurstöðuna og er ekki að efa að bændafólk og annað áhugafólk um landbúnaðarmál mun mæta á fundina og kynna sér málið með opnum huga svo fremi að COVIT-19 ástandið spilli því ekki. Fundirnir verða 10 talsins og verða haldnir í byrjun júní.

Það verður að segjast, að löngu var orðið tímabært að endurskoða landbúnaðarstefnu fyrir land okkar. Stefna sú sem fylgt hefur verið um langan tíma hefur mótast af viðhorfum sem eru mörgu nútímafólki framandi. Stefnu sem snúist hefur um kindur, kýr og að lokum hross (og nokkurnveginn í þessari röð) á góðum degi og fátt meira, þar til nýlega að garðyrkjan var viðurkennd og tekin í hópinn.

Landbúnaður er miklu meira en þetta og það hafa margir vitað, en íhaldsemi hefur ráðið og margir hafa móast við að horfast í augu við landbúnaðurinn sé meira en þetta fyrrnefnda og bera að fagna því, að útlit er fyrir að atvinnuvegurinn og viðhorfin til hans verði nú senn færð til nútímans.

Talsvert er vitnað til ESB og EES í skýrslunni og er það að vonum. Núverandi landbúnaðarstefna hefur mótast af því í seinni tíð, að Ísland er aðili að þessum fjölþjóðlegu samböndum. Það hefur farið talsvert í taugarnar á einangrunarsinnum, þ.e.a.s. þeim sem virðast vilja fá að velja af hlaðborðinu bestu molana og sleppa hinu; vilja axla ábyrgð af samstarfinu þegar þeim einum hentar og án tillits til heildarhagsmuna og án tillits til þess hvort óskhyggjan sem þeir eru haldnir er raunhæf eða ekki.

Það er tímabært að þeim viðhorfum verði vikið til hliðar og málin séu skoðuð í heild sinni, þjóðinni allri til hagsbóta. Þúfnagöngulag í fjölþjóðasamstarfi dugar frekar illa til að fóta sig í þeirri tilveru svo sem sannast hefur af samningakáki því sem stundað var árið 2015 og tók gildi 2018, en að því er vikið í Ræktum Ísland.

Björn Bjarnason segir á einum stað í grein sinni: ,,Í umræðuskjal­inu er farið í saum­ana á áhrif­um EES-aðild­ar­inn­ar á ís­lensk­an land­búnað, snýr það að fram­kvæmd á samn­ing­um um lækk­un tolla og regl­um um varn­ir gegn því að dýra­sjúk­dóm­ar ber­ist til lands­ins. End­an­leg niðurstaða hef­ur ekki feng­ist í tolla­mál­in. Ekki hef­ur enn tek­ist að tryggja hæfi­legt jafn­vægi milli inn­flutn­ings á land­búnaðar­af­urðum og toll­kvóta. Íslensk­ir dýra­stofn­ar njóta hins veg­ar sér­stöðu og vernd­ar."

,,Íslenskir dýrastofnar njóta [...] sérstöðu og verndar" og er það vel. Okkur ber skylda til að vernda stofnana okkar. Um tíma stóð tæpt með geitfjárstofninn en betur horfir nú eftir að menn áttuðu sig á því að skyldur og ábyrgð fylgir því að ,,eiga" sérstaka stofna sem þróast hafa og mótast af aðstæðum um aldir á eyjunni okkar fögru. 

Alræmdar pestir hafa herjað á sauðfjárstofninn vegna vanhugsaðs innflutnings á fyrri tíð. Við afleiðingar þess er glímt enn og sér ekki fyrir endann á þeirri baráttu, svo sem alþjóð varð vitni að síðastliðið haust. Aðrir stofnar hafa sloppið betur sem betur fer, en tæpt hefur það stundum staðið. Af því þurfum við að læra og baráttuna við riðupest í sauðfé þarf að endurskoða með það að markmiði, að tryggja betur að féð gangi ekki eins mikið saman í sumarhögum og verið hefur.

Í Ræktum Ísland er rætt um nákvæmnisbúskap byggðan á vísindum og fjórðu tæknibyltingunni og nýtingu þeirrar tækni við búrekstur hverskonar. Ánægjulegt er að í skýrslunni er tekin jákvæð afstaða til þessara hluta og að í stað orðsins ,,verksmiðjubúskapur" er komið orðið nákvæmnisbúskapur.

Nákvæmnisbúskapur er ekki nýtt fyrirbrigði í búrekstri. Þeim hefur nefnilega yfirleitt búnast vel sem sinnt hafa búum sínum af nákvæmni og natni. Að til þess hafi verið innleidd verkaskipting og nútímatækni hvers tíma hefur af einhverjum óskýrðum og satt að segja illskýranlegum ástæðum, farið fyrir brjóstið á ýmsum þeim sem hafa tjáð sig á opinberum vettvangi.

Bjartar í Sumarhúsum leynast víða, en vonandi er að hinar hjáróma raddir þeirra fari senn að hljóðna, eða minnsta kostið að breytast. Þá er einnig óskandi að vanhugsuð upphlaup stjórnmálamanna, svo sem dæmi eru um í nútíma s.s. varðandi minkabúskap og blóðtökuhryssur, heyri senn sögunni til.

Vonandi gefa menn sér tíma til að lesa Ræktum Ísland og nota í framhaldi af því, síðan tækifærið sem gefið er til að gera athugasemdir inn á Samráðsgátt stjórnvalda sýnist þeim svo. 

Þá er einnig er óskandi að bændur og búalið og annað áhugafólk um þessi mál mæti á fyrirhugaða kynningarfundi. 

Í plagginu kveður við að mörgu leyti nýjan og ferskan tón sem vert er að legga eyrun við.


,,Bóndi er bústólpi" (Gr. fr. 2016)

Ein þeirra leiða sem menn geta farið til að koma vöru sinni á framfæri og gera hana girnilega í augum neytenda er að láta líta svo út sem um einstaka og endurbætta útgáfu frá því sem áður var í boði, sé að ræða. Einna best er ef hægt er að auðkenna hina nýju útgáfu á einhvern hátt, annað hvort með því að hún líti eitthvað öðruvísi út frá því sem áður var, eða og ekki er það verra: að skreyta hana, t.d. á umbúðum með uppslætti sem er þannig, að allir hljóti að geta séð að um nýja framleiðsluhætti sé að ræða. Framleiðsluhætti sem að auki séu á einhvern hátt til fyrirmyndar.
Flest höfum við séð dæmi um þetta vera til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Vara var kynnt til sögunnar á íslenskum markaði á þann hátt að hún sé til orðin með nýjum framleiðsluaðferðum sem í flestu tilliti séu betri en þær sem áður hafi verið notaðar við framleiðslu sambærilegra afurða. Aðbúnaður dýranna sem notuð sé til framleiðslunnar, sem í þessu tilfelli voru hænur, sé þannig að þær gangi frjálsar um í sinni vist, gott ef ekki hamingjusamar og jafnvel hamingjusamari en venjulegar hænur í sínu varpstreði lífsins. Og allt hefði þetta nú verið gott og blessað, ef hinar umræddu hænur hefðu getað borið vitni um, að fullyrðingarnar um ágæti aðbúnaðar þeirra væri eins og haldið var fram.
,,Vistvæn“ átti varan, þ.e. eggin sem um ræðir í þessu tilfelli, að vera. Ekki er undirrituðum kunnugt um hvernig það kom til að farið var að bjóða uppá skreytingu landbúnaðarvara með orðinu ,,vistvæn“. Hitt er ljóst að varan stóð ekki undir þeirri ímynd sem reynt var að skapa, sem eflaust var gert í þeirri von að markaðurinn gleypti vel og skilvirkt við hinum ,,vistvænu“ eggjum. Nú er hins vegar svo komið, að orðið hefur misst gildi sitt fyrir alla sem það hafa notað, hvort heldur sem þeir hafa staðið samviskusamlega að notkun sinni á því eða ekki.
Hver var innistæðan? Voru eggin betri? Hænurnar lukkulegri með tilveruna? Svarið er nei og eggin eru í besta falli eins og hver önnur hænuegg. Satt að segja virðist svo sem um hafi verið að ræða brellu til þess gerða, að geta kafað með kröftugum og markvissum hætti ofan í vasa neytenda. Það er stundað á fleiri sviðum og ýmislegt er gert til glepja og afvegaleiða almenning með það fyrir augum að ná árangri á þeim vettvangi. Í þessu tilfelli skilaði það framleiðendum eggjanna, eftir því sem fram hefur komið, allt að 40% hærra verði en annars fékkst á markaðnum.
Vitanlega er það þannig að bændur, sem virða góða og viðurkennda búskaparhætti, stunda búskap sinn bæði á vistvænan og lífrænan hátt. Hefur einhver rekist á randi sínu um sveitir landsins, á ólífrænar kýr, kindur, hross, minka, hænsni eða svín? Gera má ráð fyrir að flestir myndu svara því neytandi, þó ekki væri nema vegna þess, að erfitt er að ímynda sér búfénað öðruvísi en sem lífrænan, sé hann á annað borð dragandi lífsandann í sveitum landsins.
Því er það að bændafólk sem stundar sinn búskap vel og hirðir vel um fénað sinn, gerir það örugglega á vistvænan hátt. Enda er það þannig, að bændur og búalið uppskera eftir því hvernig þau búa að bústofni sínum. Uppskera eins og þau sá og þannig hefur það ætíð verið, hvað sem líður alls kyns lukkuriddurum sem ríða um héruð, sláandi um sig með allskyns orðagjálfri og nýyrðum.
Það gildir hið fornkveðna að: ,,Bóndi er bústólpi – bú er landstólpi -, því skal hann virður vel“. Að minnsta kosti ef hann uppfyllir það sem hér var talið.
Vörumst orðagjálfrið og treystum eftirlitstofnunum fyrir hlutverki sínu, þó þær séu vissulega ekki yfir gagnrýni hafnar, eins og dæmi undanfarinna ára sanna. Gagnrýnum hiklaust það sem okkur líkar ekki í verklagi þeirra og gerum það á eins málefnalegan hátt og við erum fær um, því þegar á allt er litið, þá eigum ekki annarra kosta völ en að treysta þeim fyrir hlutverki sínu. Vörumst að láta dómstól götunnar taka við hlutverki þeirra, eins og nú eru uppi raddir um. Í störfum þessara stofnana verður að ríkja trúnaður milli aðila. Rökstuddar ábendingar um bætur og betrun eru af hinu góða. Það getur dómstóll götunnar seint orðið.

Þingmaðurinn og ljósið (grein frá 2009)

 Í MORGUNBLAÐINU 8. september er grein eftir þingmann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Álfheiði Ingadóttur, þar sem vikið er að úrskurði samgönguráðuneytisins varðandi það hvort Landsvirkjun hafi verið heimilt að greiða Flóahreppi kostnað vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar. Þingmaðurinn fer mikinn í skrifum sínum og dregur hvergi af sér í fullyrðingum og upphrópunum og sannast þar það sem lengi hefur verið vitað, að ekki er gott þegar trúin tekur rökhugsunina yfir.

Þingmaðurinn býsnast mjög yfir því að Landsvirkjun hafi greitt Flóahreppi kostnaðinn sem til féll vegna skipulagsins og af því má ráða að skoðun hennar sé sú, að þegar af stað fer undirbúningur að virkjunum, þá sé rétt og eðlilegt að fámenn sveitarfélög sem nær enga hagsmuni hafa af að virkjað sé, taki á sig kostnað vegna skipulags og fleira sem til fellur vegna framkvæmdanna. Framkvæmda sem ekki er víst að neitt verði síðan úr. Reyndar má gera ráð fyrir að í framhaldi af hinum furðulega úrskurði samgönguráðuneytisins hefjist einhver vitlausasta hringekja með fé sem boðið hefur verið upp á og eru menn þó orðnir ýmsu vanir eftir það sem borið hefur verið á borð þjóðarinnar af slíkum uppákomum að undanförnu. Gera má ráð fyrir að Flóahreppur skili fénu til þess eins að fá það greitt frá Landsvirkjun til baka. Ætla má að þingmanninum muni líða mun betur að þessum gjörningi loknum og til að gera umgjörð hans sem glæsilegasta, þá er rétt að leggja það til að hann fari fram á leiksviði.

Það hlýtur að vera hægt að ætlast til þess þingmaðurinn leiði hugann að því, að er sveitarstjórnir fjalla um mál af þessu tagi, þá eru þær ekki einungis að fjalla um hagsmuni viðkomandi sveitarfélags, því það eru á engan hátt eingöngu hagsmunir Flóahrepps, svo dæmi sé tekið, hvort virkjað verður í Þjórsá eða ekki. Færa má rök að því að framtíðarhagsmunir hreppsins felist ekkert sérstaklega í því að virkjað verði. Þannig er nefnilega um hnútana búið af hálfu löggjafans að gjöld af virkjunum renna til þess sveitarfélags þar sem stöðvarhúsið er og ekki er gert ráð fyrir að það verði í hreppnum. Af texta þingmannsins verður ekki annað ráðið en að hann hafi ekki hina minnstu hugmynd um hvernig innheimtu fasteignagjalda af virkjunum er háttað og kann það að einhverju leyti að skýra málflutning hans.

Hagsmunir allrar þjóðarinnar – líka VG – felast í því að auðlindir hennar séu nýttar henni til hagsbóta og því hagkvæmari sem virkjanir eru, því betra, en eins og margoft hefur komið fram þá eru virkjanir í Þjórsá einhverjar þær hagstæðustu sem völ er á, bæði frá hagkvæmnisjónarmiði og ekki síður vegna þess hve lítil umhverfisáhrif þeirra eru.

Það er líklega borin von að þingmaður VG geri sér grein fyrir þessum staðreyndum. Þetta stjórnmálaafl virðist vera með öllu rökhelt, þegar málefni af þessu tagi koma til umræðu. Svo er helst að sjá sem þeirra hugsun sé, að peningarnir verði til í ríkissjóði, framleiðsla og ekki síst iðnaður, sé á einhvern hátt óhrein starfsemi sem með öllu sé óalandi og óferjandi.

Því er það að óskandi er, að stjórnarsetu þeirra ljúki sem fyrst og að þau geti þá tekið til við sína fyrri iðju, að ergja sig í stjórnarandstöðu, þar virðast þau eiga heima og líklega líður þeim best þar sem þau geta verið áhyggjulaus, í því að fordæma helst allt og alla. Þau virðast vera þeirrar gerðar að sjá ekki skóginn fyrir trjám og því er augljóst að best hlýtur að vera fyrir þau að vera í stjórnarandstöðu en ekki í ríkisstjórn.

Af þessu er ljóst að þingmaðurinn er með öllu vanhæfur til að fjalla um málefni Flóahrepps og Landsvirkjunar, ekki síst ef haft er í huga að hann situr í iðnaðarnefnd Alþingis, hvernig sem það hefur nú getað gerst. Þau sem fylgst hafa með stjórnmálabaráttu VG-inga gera tæplega ráð fyrir að þau sjái ljósið, en rétt og sjálfsagt er að halda í vonina, því svartnætti er ekki það sem íslenska þjóðin þarfnast nú um stundir.

Höfundur er vélfræðingur og bóndi sem býr í Flóahreppi

Þrjár greinar og ein uppbyggileg

Á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 8. maí eru þrjár greinar en það er ein þeirra sem hér verður tekin til umfjöllunar, enda er sú grein bæði uppbyggileg og áhugaverð.

Greinin ber yfirskriftina Ótal tækifæri í grænum orkusæknum iðnaði" og hana rita þeir Ríkarður Ríkarðsson sem starfar hjá Landsvirkjun og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Þetta er önnur grein þeirra félaga en í þeirri fyrri var fjallað um tækifærin sem felast í ,,gagnaversiðnaði". 

Greinarnar eru á uppbyggilegum nótum en ekki niðurrifs og út frá því séð hefði uppröðun blaðsins átt að vera önnur, þ.e.a.s. að grein þeirra hefði átt að vera efst á síðunni!

Þeir benda á að græna orkan sem hérlendis er framleidd gefi tækifæri til að hætta innkaupum á aðfluttu orkuefni og spara þannig tugmilljarða sem annars fara í þau innkaup, hægt sé að framleiða vetni og annað eldsneyti auk þess sem rafbílavæðingin kalli á mikla aukningu á framleiðslu á rafhlöðum.

Þetta þurfum við og kannski fyrst og fremst ráðamenn þjóðarinnar, að hafa í huga; vera opin fyrir tækifærunum og skoða möguleikana án fordóma. 

Þá benda þeir einnig á að góð tækifæri geti falist í að nýta jarðhita til hátæknimatvælaframleiðslu.

Jarðhiti er nýttur eins og flesir vita til framleiðslu nú þegar í gróðurhúsum og til upphitunar eldishúsa t.d. í kjúklingaeldi, auk þess sem raforka kemur þar talsvert við sögu.

Möguleikarnir eru miklir og margvíslegir og við ættum að vera opin fyrir tækifærum sem felast í innlendri orkuöflun og nýtingu orkunnar.

Margt jákvætt virðist vera að gerast í áliðnaðinum og svo gæti farið að kolskautin tilheyri brátt liðinni tíð og að í stað þess að frá álverum stafi koltvísýringsmengun muni fara að streyma frá álverunum súrefni, en það er ekki til umfjöllunar í grein þeirra félaga.

Í greininni segir á einum stað:

,,Til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda þarf að leita fleiri grænna orku­gjafa til að knýja stærri far­ar­tæki svo sem flutn­inga­bíla, vinnu­vél­ar, skip og flug­vél­ar á um­hverf­i­s­væn­an hátt, enda er raf­væðing slíkra tækja ekki fýsi­leg í öll­um til­vik­um. Fram­leiðsla græns eldsneyt­is, svo sem vetn­is eða ann­ars ra­feldsneyt­is í formi amm­óní­aks, met­anóls eða met­ans er dæmi um fleiri græn tæki­færi sem bíða þess að vera sótt."

Framleiðsla á vetni og rafeldsneyti krefjist mikillar orku, eins og bent er á og flestir ættu að sjá að gott er að geta aflað hennar á umhverfisvænan hátt. 

Hvarflar þá hugurinn til þess hve mikil andstaða er orðin gagnvart nýtingu á rennandi vatni til orkuöflunar. 

Vatni sem vissulega heldur áfram að renna sína leið til sjávar, þó því sé beint á leið sinni í gegnum raforkuver til að nýta fallorkuna og breyta henni í raforku.

Það er gaman að lesa uppbyggilegar og fræðandi greinar eins og eftir þá Ríkarð og Sigurð og full ástæða er til að hvetja áhugasama til að kynna sér skrif þeirra sem og önnur uppbyggileg skrif um þessi mál. 

Gallinn er sá að greinar sem birtast í Morgunblaðinu eru ekki aðgengilegar á auðveldan hátt öðrum en áskrifendum blaðsins og því er hér að neðan mynd af grein þeirra félaga.






Heimaslátrun greiðir ekki eftirlitsgjald


Myndin er fengin af vef Bændablaðsins svo sem sjá má.


 Í færslu sem ég birti á Facebook ritaði ég eftirfarandi varðandi svokallaða ,,heimaslátrun" á sauðfé sem landbúnaðarráðherra er samkvæmt fréttum búinn að heimila:

,,Reikningurinn verður sendur á ríkissjóð samkvæmt því sem hér segir og fer ríkisrekstur Sjálfstæðisflokksins í þessu efni að minna á gömlu Sovétríkin. Sannast þar nú sem áður, það sem kaupmaður í Reykjavík sagði við mig fyrir klofning Sjálfstæðisflokksins og áður en hann missti völdin í Reykjavík, að ,,Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er helsti kommúnistaflokkurinn".[...]

,,Þar kemur fram að í reglu­gerðinni sé kveðið á um að dýra­læknar sinni heil­brigðis­skoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður þess greiðast úr ríkis­sjóði."

Alfreð Schiöth benti á í athugasemd að samkvæmt reglugerð gildir um þessi mál tiltekin gjaldskrá sem finna má á vef Matvælastofnunar og sé hún lesin er ekki annað að sjá en að sauðfjárbændur sem slátra sínu fé í sauðfjársláturhúsum greiði ákveðið eftirlitsgjald sem árið 2018 er krónur 5,20 fyrir hvert kíló kjöts.

Sé frétt blaðsins rétt er hugmyndin sú að mismuna sauðfjárbændum á þann hátt að þeir sem kjósa að slátra í sláturhúsum greiða umrætt eftirlitsgjald, en hinir sem slátra heima hjá sér þurfa þess ekki, það er að segja: reikningnurinn fellur á ríkissjóð.

Hér er um augljósa mismunun að ræða ef rétt er og það svo, að hreint með ólíkindum er.

Samkvæmt þessum fréttaflutningi er ætlunin að hygla vissum aðilum varðandi þessa gjaldtöku, en halda áfram að innheimta gjald af öllum hinum.

Nú getur vel verið að frétt blaðsins sé röng, en full ástæða er til að efast um það, því eftirfrandi má lesa í frétt stjórnarráðsins um málið: ,, Í reglugerðinni er því kveðið á um að opinberir dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður vegna þess greiðast úr ríkissjóði."  
Myndin er af vef Fréttablaðsins.


Morgunblaðið á landbúnaðarnótum



Morgunblaðið er í landbúnaðarham í dag (5.5.2021) og umfjallanirnar eru af ýmsasta tagi, eða allt frá því að kynntar eru til sögurnnar hugmyndir um ,,breytt fyrirkomulag opinbers stuðnings" og niður að greina frá því að stuðningur við refadráp sé rétt tæpur milljarður. Þeir peningar eru teknir úr vösum skattgreiðenda, svona líkt og opinberi stuðningurinn fyrrnefndi.

Þá er greint frá því að rétt tæpar 360 milljónir fari í girðingar hins opinbera. Tekin hefur verið saman skýrsla af starfshópi (hvað annað, eitthvað verða allir að hafa að gera), um girðingardundur hins opninbera og a.m.k. ein niðurstaðan er: ,,að starfs­hóp­ur­inn telji mik­il­vægt að tengja sam­an ólíka hags­muni, t.d. sauðfjár­bú­skap, land­vernd, ferðaþjón­ustu, um­ferðarör­yggi og skóg­rækt".



Og síðan segir: ,,Enn frem­ur geti fal­ist tæki­færi í því að sam­ein­ast um að girða ákveðin landsvæði af til beit­ar en ann­ars staðar geti tæki­færi fal­ist í því að banna lausa­göngu búfjár, en styrkja eig­end­ur búfjár jafn­framt til þess að girða sitt búfé af."

Af þessu sést að hinir ólíkustu aðilar eiga sameiginlega hagsmuni í girðingarmálunum og ,,tækifærin" liggja víða og eru ónotuð að vanda, t.d. geta falist tækifæri í því að girða af til beitar og líka ekki beitar og var tímabært að þessi sannindi yrðu færð í letur.

Starfshópurinn leggur til að ,,að unn­inn verði sam­eig­in­leg­ur gagna­grunn­ur op­in­berra aðila um girðing­ar og hon­um deilt í vef­sjá" og eins og allir sjá þá má nú ekki minna vera, því þetta verður allt vatni að halda.

Næst rekumst við á frétt um að heimiluð verði heimaslátrun á sauðkindum. Væntanlega er það fyrsta skrefið í að leggja af hefðbundin sláturhúsarekstur, því ætlunin er að slátrunin verði lítil og nett, hver bóndi slátri sínu svo sem gert var í árdaga. Byrjað verður á sauðkindunum en í krafti jafnræðisreglunnar fylgja vafalaust hinar búgreinarnar á eftir.


Á forsíðu blaðsins sjáum við síðan greint frá því að valinn hópur hafi komið saman til umræðu um framtíðina og hafið mótun ,,nýrrar landbúnaðarstefnu", sem felur það í sér að fleira verði gert gott í landbúnaði en hingað til hefur tíðkast. Hugtök verða víkkuð o.s.frv., eða eins og þar segir:

,,hugtakið landbúnaður [verður] víkkað að ýmsu leyti og tekur þar t.d. til bindingar kolefnis í jörðu og fleira, sem ekki hefur til þessa talist til hefðbundinna bústarfa. Þar er í auknum mæli horft til umhverfisverndar og sjálfbærrar landnotkunar, matvæla- og fæðuöryggis og fjölmargra annarra þátta, þar sem fjórða iðnbyltingin er ekki undanskilin."


Og eins og sjá má erum við komin að upphafinu aftur, því sem byrjaði á forsíðu blaðsins og endar hér,  og þó er það alls ekki víst, því sumar sögur eru án upphafs og endis og líklegast er að svo sé um þessa sögu: að hún sé dæmi um söguna endalausu.



Eitt af því sem gleymdist í þessari samantekt í gær var það sem hér má sjá að ofan. Það er um að ræða rausnarlegt framlag til sauðfjárbænda og nautgripa. Svo sem vænta mátti voru það þeir fyrrnefndu sem fengu bróðurpartinn af þessari þjóðargjöf. 
Um þetta hef ég áður fjallað, en eigi að síður átti það heima hér með í þessari umfjöllun.




Minning

 


Perla

Þú varst óskup lítil þegar þú barst okkur í hendur og snemma tókum við upp þann sið að ganga hring um túnið að morgni. 
Þú gerðið það sem þú þurftir að gera. Ég beið á meðan og síðan héldum við göngunni áfram og það mynduðust bönd á milli tveggja ólíkra einstaklinga. 
Tíminn leið og undra fljótt varstu orðin stór og sjálfbjarga í að sinna þínu einfalda lífi sem að mestu virtist snúast um okkur.
Þú tókst að þér að ,,passa bæinn" ef við fórum að heiman, beiðst þolinmóð þar til við komum til baka, en réðir þér vart fyrir fögnuði þegar við komum.
Baðst ekki um neitt, annað en fá að borða náttúrulega. 
Baðst ekki um neitt annað en að fá að fylgjast með þegar við fórum út; langaði til að fá að fara með þegar ég brá mér eitthvað á hjólinu, en lærðir fljótt að það var ,,bannað". 
Vissir ekki að það væri hættulegt, en ,,bannað" og að þú ættir að ,,passa ömmu" og þá var það bara þannig og þú ,,passaðir ömmu".
Og amma passaði þig á áramótum eins og sjá má. Það voru einu skiptin sem þú komst inn og fórst fram á að við pössuðum þig. 
Og það var notalegt.
Við héldum göngtúrunum áfram og þú virtist vera farin að læra að gæta þín á bílunum, að minnsta kosti komstu umsvifalaust og varst hjá mér á meðan þeir fóru framhjá.
Þér þótti gott að borða og fórst ekki fram á neitt meira að morgni. Borða, fara út og koma inn aftur. Því þau voru ,,inni" þessi sem þú vildir helst vera hjá.
Svo þegar þau fóru út, þá snerist tilveran um að vera sem næst þeim hvert sem þau fóru.
Þess vegna eltirðu bílinn sem ég var í í gær.
Þess vegna ertu ekki lengur til, nema sem minningin um allt sem þú gafst.
Hvernig það gerðist veit ég ekki. 
Ekki var það vegna þess að bíllinn færi svo hratt. 
Hann var að stöðvast við að leggja í stæðið.
Og þú varst farin þegar ég náði því að vera kominn út. 
Hafirðu fundið til Perlan mín, þá var það mjög stutt.
Ég hugga mig við það.
Samt er þetta svo sárt!
Og þú sást ekki kvöldsólina setjast yfir Ingólfsfjalli.
Eða sástu það kannski?



Mýrbleytingar með skurðaofanímokstri

 Stundum er það þannig að það eru innsendar greinar sem bera að hluta til uppi rituðu miðlana okkar og Bændablaðið er einn þeirra miðla sem tekur til birtingar aðsendar greinar úr ýmsum áttum.

Í blaði því sem út kom 29. apríl 2021 eru nokkrar slíkar greinar og þær sem ritari fyrst veitti athygli voru á blaðsíðu 46 og 47. Sú fyrri eftir Þórarinn Lárusson og ber yfirskriftina ,,Þröstur kvakar enn ...". Hin er eftir Guðna Þorgrím Þorvaldsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Yfirskrift hennar er ,,Endurheimt votlendis verður að byggja á traustum grunni".

Hugmyndir um að fylla upp í skurði með það að markmiði að bleyta upp að nýju landið sem þornaði við gröft þeirra á sínum tíma eru ekki alveg nýjar af nálinni svo sem sjá má af meðfylgjandi mynd sem mun hafa verið tekin árið 2016.


 Á myndinni sjáum við spariklætt fólk gera sig líklegt til að moka lítilli moldarhrúgu ofan í skurð og við nánari skoðun kemur í ljós að um er að ræða þáverandi forseta lýðveldisins auk umhverfis og auðlindaráðherra að ógleymdum landgræðslustjóra. Sé horft til hægri á myndinni má sjá ónafngreint fólk fylgjast brosandi með aðförum hinna spariklæddu moldarmokara.

Eitt af því sem við kunnum svo vel er að stofna sjóði og þegar svo var komið að hugur ráðamanna þjóðarinnar beindist að mýrbleytingum með skurðafyllingum, þá var vitanlega eitt það fyrsta sem gert var að stofna sjóð. Sjóðurinn var stofnaður og honum gefið nafn og nafnið varð ,,Votlendissjóður", þ.e.a.s. ef hann þá heitir það enn. Við treystum því að svo sé, en eins og við vitum, þá er endurnýjun nafna eitt af því sem við getum stært okkur af sem þjóð meðal þjóða.

En að innsendum greinum í Bændablaðið.

  
Hér að neðan er grein Þórarins Lárussonar sem hann ritar til andsvars við grein sem formaður Votlendissjóðs ritaði og er sú felldi inn með mynd svo sem sjá má.     

Til hægri er síðan önnur grein sem rituð er af Guðna Þorgrími Þorvaldssyni prófessor. 

Þórarinn er að svara Þresti Ólafssyni formanni Votlendissjóðs og verður ekki farið út í það hér að rekja greinina frá orði til orðs, en óhætt mun að segja, að niðurstaða Þórarins sé sú sem fram kemur í lokaorðum hans sem eru eftirfarandi og sem hér eru dálítið stytt:
Vonandi tekst hugmyndaríku fólki að þróa aðferðir sem byggist á þekkingu reynslu og fagmennsku til að forða tilgangslitlum ,,ofanískurðamokstri" að mestu.

Grein Guðna er að mati þess sem þetta ritar mikill áfellisdómur um framgönguna við ,,endurheimt votlendis", eins og það er látið heita af talsmönnum þeirrar iðju að moka ofaní skurði í þeim tilgangi að bleyta upp mýrlendi að nýju. 

Einn nágranni minn bjó til orðið ,,mýrbleytingar" um verknaðinn og að þeir sem að því stæðu væru þar af leiðandi ,,mýrbleytar" og verður notast við þau orð hér eftir í þessari umfjöllun.

_ _ _

Við erum nokkur sem höfum efast um tilgang mýrbleytinga af því tagi sem unnið hefur verið að, að undirlagi stjórnvalda um nokkurra ára skeið; teljum að farið sé fram af meira kappi en forsjá og að byggja þurfi á raunhæfum og staðfestum gögnum áður en farið er í aðgerðir af þessu tagi. 

Það hefur ekki verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að mokstur jarðefna í gamla framræsluskurði muni skila þeim árangri sem að er stefnt. Vel getur verið að aðrar og farsælli leiðir sé hægt sé að fara til að minnka kolefnisstreymi frá landi.  Fram kemur í grein Guðna að plöntun aspa er ein þeirra leiða sem hægt er að fara og hann vitnar í rannsókn sem gerð var á asparskógi á Sandlæk í Skeiða  og Gnúpverjahreppi. Niðurstöðurnar voru ,,að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 tonn C/ha á ári".

Guðni bendir á:

,,Í vetur bættist við ný ritrýnd grein þar sem fylgst var með losun og bindingu á Sandlæk í Skeiðaog Gnúpverjahreppi (1). Þar er um 20 ára gamall asparskógur á framræstu landi. Í þetta sinn var mælt með útbúnaði sem mælir inn- og útstreymi kolefnis allan sólarhringinn allt árið um kring. Niðurstöðurnar voru þær að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 tonn C/ha á ári þannig að þarna var engin losun á C úr jarðvegi í þessi tvö ár sem mælingar stóðu yfir. Skurðir eru ekki þéttir í landinu en skógurinn þurrkar mikið að sumrinu. Vatnsstaða yfir veturinn er yfirleitt há í mýrartúnum á Íslandi og því lítil losun. Kostur þessarar aðferðar er m.a. að hún mælir allt sem fer út og inn, allt árið á meðan punktmæling tekur bara yfir lítið brot af árinu."

Og einnig:

,,Það ber að hafa í huga að þegar votlendi er þurrkað verður með tímanum til nýtt jafnvægi. Steinefnaríkar mýrar geta breyst í frjósaman grasmóa sem getur bundið mikið kolefni en graslendi er mjög öflugt við að binda kolefni í jarðvegi. Það felst líka mikil röskun því að breyta slíku landi aftur í votlendi"

Því hefur verið slegið fram að líklegt sé að vinnuvélarnar sem notaðar eru til fyllinga skurða mengi  jafn mikið, eða jafnvel meira en það sem vinnst við mýrbleytingarnar. Hvort það er rétt eða rangt verður ekki fullyrt um hér, en vissulega má komast af án þeirra vinnuvéla svo sem sýnt var í upphafi þessa pistils. 

Þá má ekki gleyma því, að það gæti verið góð líkamsrækt fyrir kyrrsetufólk að flandra um landið og moka ofan í gamla skurði með vöðvaaflinu einu saman, þ.e.a.s. ef viðkomandi geta ekki fundið sér annað þarfara að gera til að eyða tíma sínum.  





Japl jaml og fuður

  ,,Eftir japl jaml og fuður var hann grafinn út og suður" var eitt sinn sagt og ætli það verði ekki niðurstaðan núna. Þingm...