Verðlagning búvara


Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, skrifaði grein í Fréttablaðið  19.5.2021 þar sem hún fer yfir hvernig þróunin í mjólkurframleiðslunni hefur verið undanfarin ár. 

Í greininni koma áhugaverðar upplýsingar fram varðandi hvernig búgreinin hefur þróast til framfara, í nýtingu tækni og til betri aðbúnaðar að gripunum.

Kynbætur, tækniþróun og bætt fóðurnýting hefur orðið til þess að kúabændur hafa getað aukið framleiðslu með færri kúm, sem hefur fækkað um 20% á meðan framleiðslan hefur aukist um 43%.

Búunum hefur fækkað og þau sérhæfst og tæknivæðst s.s. með mjaltaþjónum.

Hver kýr gefur af sé rúmlega 50% meiri mjólk en var fyrir 30 árum og sú þróun heldur áfram.

Lausagöngufjós með mjaltaþjónum hafa bætt aðbúnað að gripunum og við það eykst framleiðslan og færri gripir skila sömu afurðum og jafnvel meiri en áður var.

Kolefnissporið hefur minnkað af fyrrgreindum ástæðum en líka vegna bættrar fóðrunar, betri nýtingu bifreiða og losun vegna framleiðslu á dufti hefur minnkað um 95%, þó framleiðslan hafi aukist um 43%.

Þá kemur fram að stigið hefur verið stórt skref við að framleiða próteinduft úr mysu og að ,,kúabændur hafa sett sér það markmið að greinin verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að þá verði allar afurðir vottaðar kolefnishlutlausar."

Við þetta er því að bæta að Þórólfur Matthíasson hagfræðingur og prófessor, gerði eftirfarandi athugasemdir við grein Margrétar í færslu á Facebook:

,,[...] Verðlagsnefnd búvara notast við kostnaðargrundvöll byggðan á raunverulegum kostnaði frá því fyrir 1990. Vinnuliður þess grundvallar tekur t.d. ekki tillit til þess að nú er ekki verið að handflytja mjaltartæki milli kúa hvern mjaltartíma heldur rölta kýrnar á sinn stall og róbótinn sér um afganginn. Annað í þessum grundvelli er eftir þessu. Ekki er tekið tillit til þess að nyt eftir hverja kú er núna 40% meira en á þeim tíma sem grundvöllurinn var saminn. Grundvöllurinn er hreinn skáldskapur í núverandi umhverfi. [...]

Þegar undirritaður sat í Verðlagsnefnd búvara undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur gerði formaðurinn ítrekaðar tilraunir til að fá ATvinnuvegaráðuneytið og Hagstofu Íslands til að vinna nýjan og betri kostnaðargrundvöll. Undirritaður lýsti því yfir að hann tæki ekki þátt í neinum ákvörðunum um hækkun skilaverðs til bænda meðan nefndarmönnum væri ætlað að vinna með fornaldarupplýsingar. Atvinnuvegaráðuneytið þverskallaðist við að skaffa betri tölur. Annað hvort var starfsmaður Hagstofunnar veikur, eða vinnuálag í ráðuneytinu mikið eða ráðherran með kvef. Aldrei var hægt að hósta upp nýjum tölum sem þó augljóslega, samkvæmt grein framkvæmdastjórans í Fréttablaðinu voru öllum öðrum tiltæk en "vitlausa" fólkinu í Verðlagsnefndinni.
Við stjórnarskipti var okkur Kristrúnu og Dóru Tynes skipt út úr nefndinni og ágætur prófessor við Háskólann í Reykjavík lét það yfir sig ganga að hækka skilaverð til bænda byggt á þessu skinnhandriti sem kallað er verðlagsgrundvöllur kúabúa. Svona eru nú kaupin í flórnum, en fróðlegt að sjá að framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda hefur þau gögn undir hönum sem ráðuneytið sveikst um að láta okkur Kristrúnu og Dóru fá á sinum tíma.
Maður getur bara giskað hvers vegna Atvinnuvegaráðuneytið vildi ekki afhenda okkur tölurnar. Þar til annað sannast leyfi ég mér að setja mestar líkur á þá tilgátu að ástæðan sé sú að hefðum við fengið réttar tölur hefðum við getað lækkað skilaverð á mjólk til bænda."

Hér er ekki um að ræða gæfulega lýsingu á vinnubrögðum í Verðlagsnefnd búvara. Það hlýtur að mega ætlast til þess að búvörur sem framleiddar eru undir búvörusamningum séu verðlagðar af svo mikilli nákvæmni sem unnt er.
Þar ætti, að mati þess sem þetta ritar, að taka tillit til kostnaðarþátta við framleiðsluna svo sem þeir eru á hverjum tíma og þar með talinn kostnað vegna nýrrar tækni (mjaltaþjóna) og nýrra bygginga vegna aðbúnaðarreglugerða og svo framvegis.
Það geta ekki talist vönduð vinnubrögð að byggja verðútreikninga á löngu úreltum upplýsingum og hreint ótrúlegt að svo hafi verið, samkvæmt því sem Þórólfur lýsir í færslu sinni.
Það er engum til góðs, hvorki bændum né neytendum, ef þannig hefur verið að staðið og ekki heldur ef svo er í dag, sem vonandi er ekki.
Áratuga gamlar kostnaðarupplýsingar eru augljóslega ekkert til að byggja á í verðútreikningum.
Undirritaður veit ekki hvenær Þórólfur sat í nefndinni, en hafi það verið á þeim tíma þegar ráðamenn í landbúnaði virtust trúa því að íslenskir kúabændur gætu látið kýr sínar mjólka sem af erlendum kúakynjum væru, með því einu að þrýsta saman grasi og gera úr því köggla og einfaldlega trúa því síðan að búið væri að gera úr því kjarnfóður, þá er eins víst að lýsing Þórólfs sé rétt.
Við erum nefnileg sum enn á kreiki sem munum eftir því að ráðamenn tóku upp á einni nóttu 200% kjarnfóðurgjald til að neyða íslenska bændur til að nota kögglaða grasið, en einnig í leiðinni til að bregða fæti fyrir alifugla og svínarækt sem svo mjög fór fyrir brjóst grámyglaðra stjórnmálamanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma þegar þetta var gert.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...