Frambjóðandi Viðreisnar vill ekki það sem honum þykir gott!

 Nanna Hermannsdóttir skrifar áhugaverða grein á vefmiðilinn Vísi 30. maí sl. 

Tilefni skrifanna er að Guðbrandur Einarsson oddviti Viðreisnar í Suðurlandskjördæmi skrifaði á sama miðil deginum áður grein um heilbrigðisþjónustuna í Svíþjóð.

Guðbrandi ,,þótti það sérstakt" að þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Svíþjóð, barst honum inn um bréfalúguna póstur með upplýsingum um bætur eins og ,,barna- og húsnæðisbætur" og ekki nóg með það, því sumt af því gerðist sjálfkrafa og ekki þurfti að hafa fyrir því að sækja um.  

Að þessu lesnu er niðurstaðan sú að greinarhöfundur hafi verið ánægður með þjónustuna í Svíaríki. Annað var upp á teningnum þegar Guðbrandur og fjölskylda flutti til baka, því þá kostaði ,,talsverða" fyrirhöfn að ,,komast inn í kerfið aftur". Upplýsingar voru takmarkaðar og stuðningur minni og ,,íslenska velferðarkerfið" tekjutengt ,,í bak og fyrir".

Þegar hingað er komið í lestri greinarinnar stöndum við í þeirri trú að Guðbrandur sé að hæla kerfinu í Svíþjóð og sé ánægður með það og að verið geti að hann vilji, þegar og ef, hann verður kjörinn á þing, betrumbæta það íslenska og færa í sænskt horf.

Svo er þó ekki, því er hér er komið sögu taka málin óvæntan snúning og Guðbrandur eyðir nú orku sinni í að skamma Samfylkinguna fyrir að ,,sjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu allt til foráttu" og að hinn íslenski jafnaðarmannaflokkur sé þeirrar skoðunar ,,að opinberir aðilar séu þeir einu sem veitt geta almennilega þjónustu á þessu sviði" eins og þar segir.

Við sem eldri erum en tvævetur, vitum að langt er síðan Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn og að fara þarf allt aftur til þess tíma þegar koma þurfti Íslandi á lappirnar eftir ,,hrunið", að flokkurinn sat í ríkisstjórn með Vinstri grænum og var þá smalað köttum svo sem frægt varð. 

Hvort eitthvað hefur slegið saman í greinarsmíð Guðbrands, svona líkt og þegar ,,ritillinn" tekur öll völd við símaskrifin, verður ekki kveðið upp úr hér. 

Miðað við þennan málflutning er hreint ekki víst að atkvæðaseðill þess sem þetta ritar verði með krossi fyrir framan vaffið, hafi hann þá einhverntíma verið á leiðinni þangað!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...