,,Bóndi er bústólpi - …“
28. desember 2016
Ein þeirra leiða sem menn geta farið til að koma vöru sinni á framfæri og gera hana girnilega í augum neytenda er að láta líta svo út sem um einstaka og endurbætta útgáfu frá því sem áður var í boði, sé að ræða. Einna best er ef hægt er að auðkenna hina nýju útgáfu á einhvern hátt, annað hvort með því að hún líti eitthvað öðruvísi út frá því sem áður var, eða og ekki er það verra: að skreyta hana, t.d. á umbúðum með uppslætti sem er þannig, að allir hljóti að geta séð að um nýja framleiðsluhætti sé að ræða. Framleiðsluhætti sem að auki séu á einhvern hátt til fyrirmyndar.
Flest höfum við séð dæmi um þetta vera til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Vara var kynnt til sögunnar á íslenskum markaði á þann hátt að hún sé til orðin með nýjum framleiðsluaðferðum sem í flestu tilliti séu betri en þær sem áður hafi verið notaðar við framleiðslu sambærilegra afurða. Aðbúnaður dýranna sem notuð sé til framleiðslunnar, sem í þessu tilfelli voru hænur, sé þannig að þær gangi frjálsar um í sinni vist, gott ef ekki hamingjusamar og jafnvel hamingjusamari en venjulegar hænur í sínu varpstreði lífsins. Og allt hefði þetta nú verið gott og blessað, ef hinar umræddu hænur hefðu getað borið vitni um, að fullyrðingarnar um ágæti aðbúnaðar þeirra væri eins og haldið var fram.
,,Vistvæn“ átti varan, þ.e. eggin sem um ræðir í þessu tilfelli, að vera. Ekki er undirrituðum kunnugt um hvernig það kom til að farið var að bjóða uppá skreytingu landbúnaðarvara með orðinu ,,vistvæn“. Hitt er ljóst að varan stóð ekki undir þeirri ímynd sem reynt var að skapa, sem eflaust var gert í þeirri von að markaðurinn gleypti vel og skilvirkt við hinum ,,vistvænu“ eggjum. Nú er hins vegar svo komið, að orðið hefur misst gildi sitt fyrir alla sem það hafa notað, hvort heldur sem þeir hafa staðið samviskusamlega að notkun sinni á því eða ekki.
Hver var innistæðan? Voru eggin betri? Hænurnar lukkulegri með tilveruna? Svarið er nei og eggin eru í besta falli eins og hver önnur hænuegg. Satt að segja virðist svo sem um hafi verið að ræða brellu til þess gerða, að geta kafað með kröftugum og markvissum hætti ofan í vasa neytenda. Það er stundað á fleiri sviðum og ýmislegt er gert til glepja og afvegaleiða almenning með það fyrir augum að ná árangri á þeim vettvangi. Í þessu tilfelli skilaði það framleiðendum eggjanna, eftir því sem fram hefur komið, allt að 40% hærra verði en annars fékkst á markaðnum.
Vitanlega er það þannig að bændur, sem virða góða og viðurkennda búskaparhætti, stunda búskap sinn bæði á vistvænan og lífrænan hátt. Hefur einhver rekist á randi sínu um sveitir landsins, á ólífrænar kýr, kindur, hross, minka, hænsni eða svín? Gera má ráð fyrir að flestir myndu svara því neytandi, þó ekki væri nema vegna þess, að erfitt er að ímynda sér búfénað öðruvísi en sem lífrænan, sé hann á annað borð dragandi lífsandann í sveitum landsins.
Því er það að bændafólk sem stundar sinn búskap vel og hirðir vel um fénað sinn, gerir það örugglega á vistvænan hátt. Enda er það þannig, að bændur og búalið uppskera eftir því hvernig þau búa að bústofni sínum. Uppskera eins og þau sá og þannig hefur það ætíð verið, hvað sem líður alls kyns lukkuriddurum sem ríða um héruð, sláandi um sig með allskyns orðagjálfri og nýyrðum.
Það gildir hið fornkveðna að: ,,Bóndi er bústólpi – bú er landstólpi -, því skal hann virður vel“. Að minnsta kosti ef hann uppfyllir það sem hér var talið.
Vörumst orðagjálfrið og treystum eftirlitstofnunum fyrir hlutverki sínu, þó þær séu vissulega ekki yfir gagnrýni hafnar, eins og dæmi undanfarinna ára sanna. Gagnrýnum hiklaust það sem okkur líkar ekki í verklagi þeirra og gerum það á eins málefnalegan hátt og við erum fær um, því þegar á allt er litið, þá eigum ekki annarra kosta völ en að treysta þeim fyrir hlutverki sínu. Vörumst að láta dómstól götunnar taka við hlutverki þeirra, eins og nú eru uppi raddir um. Í störfum þessara stofnana verður að ríkja trúnaður milli aðila. Rökstuddar ábendingar um bætur og betrun eru af hinu góða. Það getur dómstóll götunnar seint orðið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli