Þrjár greinar og ein uppbyggileg

Á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 8. maí eru þrjár greinar en það er ein þeirra sem hér verður tekin til umfjöllunar, enda er sú grein bæði uppbyggileg og áhugaverð.

Greinin ber yfirskriftina Ótal tækifæri í grænum orkusæknum iðnaði" og hana rita þeir Ríkarður Ríkarðsson sem starfar hjá Landsvirkjun og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Þetta er önnur grein þeirra félaga en í þeirri fyrri var fjallað um tækifærin sem felast í ,,gagnaversiðnaði". 

Greinarnar eru á uppbyggilegum nótum en ekki niðurrifs og út frá því séð hefði uppröðun blaðsins átt að vera önnur, þ.e.a.s. að grein þeirra hefði átt að vera efst á síðunni!

Þeir benda á að græna orkan sem hérlendis er framleidd gefi tækifæri til að hætta innkaupum á aðfluttu orkuefni og spara þannig tugmilljarða sem annars fara í þau innkaup, hægt sé að framleiða vetni og annað eldsneyti auk þess sem rafbílavæðingin kalli á mikla aukningu á framleiðslu á rafhlöðum.

Þetta þurfum við og kannski fyrst og fremst ráðamenn þjóðarinnar, að hafa í huga; vera opin fyrir tækifærunum og skoða möguleikana án fordóma. 

Þá benda þeir einnig á að góð tækifæri geti falist í að nýta jarðhita til hátæknimatvælaframleiðslu.

Jarðhiti er nýttur eins og flesir vita til framleiðslu nú þegar í gróðurhúsum og til upphitunar eldishúsa t.d. í kjúklingaeldi, auk þess sem raforka kemur þar talsvert við sögu.

Möguleikarnir eru miklir og margvíslegir og við ættum að vera opin fyrir tækifærum sem felast í innlendri orkuöflun og nýtingu orkunnar.

Margt jákvætt virðist vera að gerast í áliðnaðinum og svo gæti farið að kolskautin tilheyri brátt liðinni tíð og að í stað þess að frá álverum stafi koltvísýringsmengun muni fara að streyma frá álverunum súrefni, en það er ekki til umfjöllunar í grein þeirra félaga.

Í greininni segir á einum stað:

,,Til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda þarf að leita fleiri grænna orku­gjafa til að knýja stærri far­ar­tæki svo sem flutn­inga­bíla, vinnu­vél­ar, skip og flug­vél­ar á um­hverf­i­s­væn­an hátt, enda er raf­væðing slíkra tækja ekki fýsi­leg í öll­um til­vik­um. Fram­leiðsla græns eldsneyt­is, svo sem vetn­is eða ann­ars ra­feldsneyt­is í formi amm­óní­aks, met­anóls eða met­ans er dæmi um fleiri græn tæki­færi sem bíða þess að vera sótt."

Framleiðsla á vetni og rafeldsneyti krefjist mikillar orku, eins og bent er á og flestir ættu að sjá að gott er að geta aflað hennar á umhverfisvænan hátt. 

Hvarflar þá hugurinn til þess hve mikil andstaða er orðin gagnvart nýtingu á rennandi vatni til orkuöflunar. 

Vatni sem vissulega heldur áfram að renna sína leið til sjávar, þó því sé beint á leið sinni í gegnum raforkuver til að nýta fallorkuna og breyta henni í raforku.

Það er gaman að lesa uppbyggilegar og fræðandi greinar eins og eftir þá Ríkarð og Sigurð og full ástæða er til að hvetja áhugasama til að kynna sér skrif þeirra sem og önnur uppbyggileg skrif um þessi mál. 

Gallinn er sá að greinar sem birtast í Morgunblaðinu eru ekki aðgengilegar á auðveldan hátt öðrum en áskrifendum blaðsins og því er hér að neðan mynd af grein þeirra félaga.






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...