Áhugaverðar greinar í Bændablaðinu

Tvær greinar eftir Ólaf Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, eru í Bændablaðinu sem út kom  27. maí 2021. Önnur er um eðli íslensks jarðvegs hvað varðar innihald kolefnis, en hin um ástand beitilanda og er andsvar við grein eftir Ágústu Ágústsdóttur sem birtist í Bændablaðinu þann 12. maí.

Fyrir okkur sem áhuga höfum á þessum málum er hér um gott innlegg í umræðuna að ræða, sem óhætt er að mæla með.

Greinarnar virðast ekki vera á vefútgáfu Bændablaðsins en birtast hér sem skjáskot:



Í texta undir mynd í greininni  ,,Losa íslensk votlendi minna af CO2 en erlendar mómýrar vegna lægra kolefnishlutfalls?" segir að:

,,Mold íslenskra votlenda inniheldur áfok og gjóskulög og eru því sannarlega með lægra hlutfall (%) kolefnis í hverju jarðvegslagi en gengur og gerist í mómýrum norðurslóða – og þeim mun lægra hlutfall sem áfokið er meira."

Í niðurlagi greinarinnar segir síðan:

,,Mikilvægt er að hafa í huga að ekki hefur verið rætt um að fylla í skurði á því landi sem er notað til heyframleiðslu eða aðra ræktun þegar rætt er um endurheimt votlendis. Hins vegar er sjálfsagt er að fylla upp í skurði sem hafa engan augljósan eða hagnýtan tilgang og þar er af nógu að taka. Losun frá framræstum mýrum hefur vissulega áhrif á kolefnisspor framleiðslu sem nýtir slíkt land – það er málefni sem skoða þarf frá sem flestum hliðum í framtíðinni. En það er mikilvægt að halda því til haga að magn kolefnis í íslenskum votlendum er oftast sambærilegt við það sem þekkist í mómýrum nágrannalandanna, en eðli jarðvegs getur mögulega verið hvetjandi fyrir losunina miðað við aðrar mómýrar"



Í hinni greininni ,,Ástand lands og ákvarðanir um beit" segir m.a.: 

,,Slæmt ástand margra afréttarsvæða hefur legið fyrir lengi. Það fer beinlínis gegn náttúruverndarlögum að bíða sífellt eftir betri gögnum – en það er sú leið sem ítrekað hefur verið valin þegar reyna á að laga sauðfjárbeit að landkostum. Það var beðið með aðgerðir þar til rofkortlagningu lauk árið 1997, sem gaf afgerandi niðurstöður. Síðan tók við löng þróun og aðlögun að landnýtingarþætti gæðastýringar (orðin virk um 2008), sem lítið hald reyndist í þegar á hólminn var komið. Síðan var beðið eftir GróLind (fyrstu niðurstöður 2020 – sambærileg útkoma og af rofkortlagningu), sem nú á að hafna og bíða enn eftir ítarlegri gögnum, ef marka má áðurgreind skrif. Er þetta ekki orðið ansi skýrt mynstur? Sauðfjárframleiðsla stæði margfalt sterkari nú hefði gæðastýringin ekki farið í þann óheillavænlega farveg að taka ekki á ástandi landsins með hliðsjón af rofkortlagningu upp úr aldamótunum. Á meðan illa gróin afréttarsvæði í eigu almennings á borð við Biskupstungnaafrétt, Landmannaafrétt, Rangárvallaafrétt eða rofsvæðin á myndunum sem hér fylgja eru nýtt til beitar og nýtingin bæði vottuð og styrkt af almannafé, er kerfið ekki trúverðugt"

Greininni lýkur Ólafur síðan með þessum orðum: 

,,Það er fyrir löngu orðið tímabært að takmarka framleiðslu sauðfjárafurða við land í góðu ástandi. Við það verður að nota bestu fáanlegu þekkingu sem til er hverju sinni, sem er m.a. í samræmi við náttúruverndarlög og lög um landgræðslu. Afneitun á slæmu ástandi lands – þar sem það land er til staðar – er ekki leiðin til að tryggja framtíð sauðfjárræktar á Íslandi.

Eins og sést er þessi færsla byggð nánast alveg á klippum úr greinum Ólafs, en óhætt er að mæla með því að menn næli sér í eintak af blaðinu og lesi greinarnar í heild sinni þar.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...