Mýrbleytingar með skurðaofanímokstri

 Stundum er það þannig að það eru innsendar greinar sem bera að hluta til uppi rituðu miðlana okkar og Bændablaðið er einn þeirra miðla sem tekur til birtingar aðsendar greinar úr ýmsum áttum.

Í blaði því sem út kom 29. apríl 2021 eru nokkrar slíkar greinar og þær sem ritari fyrst veitti athygli voru á blaðsíðu 46 og 47. Sú fyrri eftir Þórarinn Lárusson og ber yfirskriftina ,,Þröstur kvakar enn ...". Hin er eftir Guðna Þorgrím Þorvaldsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Yfirskrift hennar er ,,Endurheimt votlendis verður að byggja á traustum grunni".

Hugmyndir um að fylla upp í skurði með það að markmiði að bleyta upp að nýju landið sem þornaði við gröft þeirra á sínum tíma eru ekki alveg nýjar af nálinni svo sem sjá má af meðfylgjandi mynd sem mun hafa verið tekin árið 2016.


 Á myndinni sjáum við spariklætt fólk gera sig líklegt til að moka lítilli moldarhrúgu ofan í skurð og við nánari skoðun kemur í ljós að um er að ræða þáverandi forseta lýðveldisins auk umhverfis og auðlindaráðherra að ógleymdum landgræðslustjóra. Sé horft til hægri á myndinni má sjá ónafngreint fólk fylgjast brosandi með aðförum hinna spariklæddu moldarmokara.

Eitt af því sem við kunnum svo vel er að stofna sjóði og þegar svo var komið að hugur ráðamanna þjóðarinnar beindist að mýrbleytingum með skurðafyllingum, þá var vitanlega eitt það fyrsta sem gert var að stofna sjóð. Sjóðurinn var stofnaður og honum gefið nafn og nafnið varð ,,Votlendissjóður", þ.e.a.s. ef hann þá heitir það enn. Við treystum því að svo sé, en eins og við vitum, þá er endurnýjun nafna eitt af því sem við getum stært okkur af sem þjóð meðal þjóða.

En að innsendum greinum í Bændablaðið.

  
Hér að neðan er grein Þórarins Lárussonar sem hann ritar til andsvars við grein sem formaður Votlendissjóðs ritaði og er sú felldi inn með mynd svo sem sjá má.     

Til hægri er síðan önnur grein sem rituð er af Guðna Þorgrími Þorvaldssyni prófessor. 

Þórarinn er að svara Þresti Ólafssyni formanni Votlendissjóðs og verður ekki farið út í það hér að rekja greinina frá orði til orðs, en óhætt mun að segja, að niðurstaða Þórarins sé sú sem fram kemur í lokaorðum hans sem eru eftirfarandi og sem hér eru dálítið stytt:
Vonandi tekst hugmyndaríku fólki að þróa aðferðir sem byggist á þekkingu reynslu og fagmennsku til að forða tilgangslitlum ,,ofanískurðamokstri" að mestu.

Grein Guðna er að mati þess sem þetta ritar mikill áfellisdómur um framgönguna við ,,endurheimt votlendis", eins og það er látið heita af talsmönnum þeirrar iðju að moka ofaní skurði í þeim tilgangi að bleyta upp mýrlendi að nýju. 

Einn nágranni minn bjó til orðið ,,mýrbleytingar" um verknaðinn og að þeir sem að því stæðu væru þar af leiðandi ,,mýrbleytar" og verður notast við þau orð hér eftir í þessari umfjöllun.

_ _ _

Við erum nokkur sem höfum efast um tilgang mýrbleytinga af því tagi sem unnið hefur verið að, að undirlagi stjórnvalda um nokkurra ára skeið; teljum að farið sé fram af meira kappi en forsjá og að byggja þurfi á raunhæfum og staðfestum gögnum áður en farið er í aðgerðir af þessu tagi. 

Það hefur ekki verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að mokstur jarðefna í gamla framræsluskurði muni skila þeim árangri sem að er stefnt. Vel getur verið að aðrar og farsælli leiðir sé hægt sé að fara til að minnka kolefnisstreymi frá landi.  Fram kemur í grein Guðna að plöntun aspa er ein þeirra leiða sem hægt er að fara og hann vitnar í rannsókn sem gerð var á asparskógi á Sandlæk í Skeiða  og Gnúpverjahreppi. Niðurstöðurnar voru ,,að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 tonn C/ha á ári".

Guðni bendir á:

,,Í vetur bættist við ný ritrýnd grein þar sem fylgst var með losun og bindingu á Sandlæk í Skeiðaog Gnúpverjahreppi (1). Þar er um 20 ára gamall asparskógur á framræstu landi. Í þetta sinn var mælt með útbúnaði sem mælir inn- og útstreymi kolefnis allan sólarhringinn allt árið um kring. Niðurstöðurnar voru þær að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 tonn C/ha á ári þannig að þarna var engin losun á C úr jarðvegi í þessi tvö ár sem mælingar stóðu yfir. Skurðir eru ekki þéttir í landinu en skógurinn þurrkar mikið að sumrinu. Vatnsstaða yfir veturinn er yfirleitt há í mýrartúnum á Íslandi og því lítil losun. Kostur þessarar aðferðar er m.a. að hún mælir allt sem fer út og inn, allt árið á meðan punktmæling tekur bara yfir lítið brot af árinu."

Og einnig:

,,Það ber að hafa í huga að þegar votlendi er þurrkað verður með tímanum til nýtt jafnvægi. Steinefnaríkar mýrar geta breyst í frjósaman grasmóa sem getur bundið mikið kolefni en graslendi er mjög öflugt við að binda kolefni í jarðvegi. Það felst líka mikil röskun því að breyta slíku landi aftur í votlendi"

Því hefur verið slegið fram að líklegt sé að vinnuvélarnar sem notaðar eru til fyllinga skurða mengi  jafn mikið, eða jafnvel meira en það sem vinnst við mýrbleytingarnar. Hvort það er rétt eða rangt verður ekki fullyrt um hér, en vissulega má komast af án þeirra vinnuvéla svo sem sýnt var í upphafi þessa pistils. 

Þá má ekki gleyma því, að það gæti verið góð líkamsrækt fyrir kyrrsetufólk að flandra um landið og moka ofan í gamla skurði með vöðvaaflinu einu saman, þ.e.a.s. ef viðkomandi geta ekki fundið sér annað þarfara að gera til að eyða tíma sínum.  





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...