Forðum fénaði af vegunum!

 Í Bændablaðinu sem kom út þann 7. september sl. er fjallað nokkuð um girðingar með vegum og 

Skjámynd 2023-09-16 134631hvað gert er til að halda sauðfé frá vegstæðum.

Margir hafa vitað að girt er með vegunum og að, að því loknu sé ætlast til þess að bændur haldi girðingunum við.

Þá hafa margir eflaust veitt því eftirtekt að girðingum með þjóðvegum er misjafnlega vel við haldið.

Í blaðinu, sem hér er vitnað til kemur fram, að Vegagerðin leggur í talsverðan kostnað hvað þetta varðar, þegar vegir eru lagðir, en að síðan sé ætlast til að þess ,,hver gæti síns fjár“, þ.e. bændur, og haldi girðingunum við.

Fram kemur í frásögn blaðsins að afar misjafnt er hvernig menn sinna viðhaldi girðinganna.

Sumir gera það vel, á meðan aðrir láta sig litlu varða hvort girðingarnar eru í lagi.

Þá kemur einnig fram að Vegagerðin heldur úti smölum, sem hafa það hlutverk að fara um vegi til að smala vegarollum og lömbum þeirra á brott fá vegunum og að það sé gert til að forða fénaði, bifreiðum og fólki frá skaða.

Þetta er krefjandi vinna, svo sem geta má nærri, því kindurnar sem reknar eru að morgni, eru oftar en ekki komnar á vegstæðið aftur að kvöldi.

Sagt er að í sauðkindinni búi þrái og það þekkja þeir sem reynt hafa að er rétt en vitanlega gerir skynlaus skepnan sér ekki grein fyrir hættunni sem af umferðinni stafar.

En að halda því fram, eins og stundum heyrist, að ekkert sé gert til að halda kindunum frá vegunum er samkvæmt þessu fjarri lagi.

Bændablaðið upplýsir þetta all vel og fram kemur, að það eru bændurnir sem ekki gæta síns fjár eins og þar stendur, og þó hér verði því ekki haldið fram að það sé vegna þess að treyst sé á að tryggingar bifreiða bæti tjónið, þá er sú sögn lífseig og styrkist frekar en hitt við lestur frásagnanna í blaðinu!

Undirritaður er hættur öllu búfjárhaldi, hvort sem er kinda, kúa eða hrossa, en langar samt að heita á bændur að gera sem þeir geta til að forða skepnum sínum frá skaða á vegum landsins.

Gleymum því ekki, að slys geta líka orðið á fólki þegar ekið er á skepnur, fyrir utan það dýrin slasast og jafnvel drepast og bílar skemmast.

Eitt sinn lenti undirritaður í því að taka á móti manni sem varð fyrir því í þokusudda, að aka á hrossastóð sem var á þjóðvegi sem hann átti leið um. 

Maðurinn varð að skilja bíl sinn eftir og ganga af stað með börn sín, annað leiddi hann en hélt á hinu. 

Honum var illilega brugðið sem von var og þó betur hafi farið en hefði getað orðið í þessu tilfelli, þá var það meira fyrir tilviljun og heppni en nokkuð annað. 

Getum við ekki verið samtaka um það, ábúendur jarða og eigendur grasbíta, að gera sem hægt er til að forða slysum?



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...