Búnaðarþingsfarsinn, eftirpartíið og stríðið.

Í dag er dagurinn í dag, en ekki dagurinn í gær, en samt er eins og lítið hafi breyst. Formaður Framsóknarflokksins er vinsælt viðfangsefni sem og reyndar flokkurinn sjálfur og er vandséð hvernig aðrir stjórnmálaflokkar eigi að geta náð því að toppa umræðuna um hin sérkennilegu lok Búnaðarþings eða þó heldur eftirpartí þeirrar samkomu.

Eðli stjórnmálaflokka er að þeir vilja vera sem mest í umræðunni, vilja að eftir þeim sé tekið og um þá fjallað og hafi einhverjum flokki tekist vel upp þá mun það vera Framsóknarflokkurinn og þó einkum formaður hans. Þetta er það sem er í fréttum helst þessa dagana og getur fengið hláturstaugarnar til að kitla dálítið, sem þó er alls ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem fyrir urðu.

Forsaga málsins er að saman kom svokallað Búnaðarþing sem er samkoma þar sem málefni landbúnaðarins eru tekin fyrir, skoðuð og rædd. Við höldum að mikill þungi hafi verið í umræðunni og að mikið hafi hvílt á mannskapnum, því samkomunni lauk með því að stjórnmálaflokkarnir sáu aumur á fundarfólkinu og buðu í eftirpartí vítt og breitt um Reykjavík.

Hér áður fyrr var haldið hátimbrað fyrirpartí með fyrirmönnum samfélagsins allt frá forseta þjóðarinnar og niður úr, nú eða öfugt ef menn vilja heldur hafa það þannig. Það var á tímum þegar Stéttarsamband bænda, forveri Bændasamtakanna, var ríkt af almannafé og réðist m.a. í byggingu hótels og líklegt er, þó við vitum það ekki með vissu, að veitingar til veisluhaldsins hafi fengist á góðum kjörum.

Þetta var áður fyrr en við erum stödd í núinu og í núinu er málum öðruvísi komið fyrir og það varð til þess að búnaðarþingsfulltrúar gengu hreint og snöfurmannlega til verks, en hvað þeir gerðu fyrir utan það að kjósa fulltrúa sumra búgreina í stjórn Bændasamtakanna liggur ekki fyrir þegar þetta er párað á blað.

En í dag er meiri mjólk í kúnni ef svo má segja, því í morgun rákum við augun í það að Ísland er orðið þátttakandi í styrjöldinni sem geisar milli Rússa og Úkraína. Hvernig má það vera mun einhver spyrja og svarið er ekki að íslenskur her hafi verið sendur til að berjast í Úkraínu, heldur er það þannig að Ísland, eða öllu heldur íslenska ríkisstjórnin, hefur komið sér upp flugvélakosti sem tekinn er á leigu til að flytja hergögn til hins stríðshrjáða lands og um það mátti m.a. lesa bæði í Kjarnanum og Morgunblaðinu og kannski víðar.

Í gærkvöldi sáum við í sjónvarpinu sýningu sem var haldin í Úkraínu á líkum fólks sem sagt var að hefði verið drepið af rússneskum hermönnum. Beinar sannanir liggja ekki fyrir og Rússar neita staðfastlega að sjálfsögðu, að þeirra menn hafi framið þessi glæpaverk. Hver gerði hvað og hvenær er ekki gott að segja en undirrituðum sýndist sem hann sæi ummerki þess að eitt líkið hefði veri flutt þangað sem það lá til sýningarinnar, sýningar sem var í boði Úkraínumanna.

Aðra sýningu var undirritaður svo óheppinn að sjá í morgun. Sú var í boði Rússa og sýndi úkraínska hermenn(?) skjóta í höfuðið á rússneskum hermönnum sem lágu í götunni bundnir á höndum og fótum og með hauspoka á höfðinu. Sá sem næstur var á myndinni hætti að hreyfast eftir þrjú skot og þar með var þeim viðbjóði lokið, þ.e.a.s. áhorfandinn slökkti á sýningunni minnugur þess að um raunveruleika var að ræða en ekki leikna kvikmynd.

Við eigum vonandi öll þá ósk heitasta að styrjaldarátökunum linni; að friðarins menn stígi inn á sviðið og beri klæði á vopnin og fái stríðendur til að tala saman eins og siðað fólk.

Það sem gerðist á dögum heimstyrjaldanna I og II má aldrei gerast aftur og það sem gerst hefur aftur og aftur síðan þá, má heldur ekki endurtaka sig.

Það er að gerast núna í Úkraínu og það er löngu komið nóg og það sakar ekki að biðja fyrir friði.    

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...