Guðmundur G. Þórarinsson skrifar grein (í Morgunblaðið 8.3.2022) um stöðuna í Úkraínu bæði fyrir og eftir innrás Rússa í landið.
Í upphafi greinar sinnar bendir hann á að verið sé að kljást við ,,upplausn Sovétríkjanna“, sem þrátt fyrir að hafa verið jákvæð þróun, hafi af orðið ,,margháttaðar flækjur“ sem nú sé horfst í augu við. Landamæri sem urðu til við uppskiptingu Sovétríkjanna valdi erfiðleikum ,,vegna þjóðarbrota, trúarbragða og tungumála“.
Guðmundur minnir á hve alvarleg upplausn varð af upplausn Júgóslavíu er hún skiptist upp og bendir á að í Sovétríkjunum fluttust fjölmennir hópar ,,yfir hin eiginlegu landamæri, s.s. í Eystrasaltsríkjunum“ og bætir við, að nú sjáist afleiðingarnar í Úkraínu.
Hann minnir á Helsingisáttmálann sem hafi verið samkomulag 35 ríkja um að virða fullveldi og landamæri auk þess að taka tillit til og virða rétt minnihlutahópa, að Minsk samkomulagið hafi verið í anda þessa og undir það hafi ritað Úkraínumenn, Rússar, Þjóðverjar og Frakkar auk ÖSE. Þar hafi verið kveðið á um að Donesk og Luhansk skyldu fá ,,einhverskonar sjálfstæði og Úkraínumenn skyldu gæta réttinda minnihlutahópanna þar og tungumáls þeirra“.
Síðan segir: ,,Þegar rétt kjörin stjórnvöld í Kiev voru hrakin frá völdum að hluta vegna utanaðkomandi afla, sumir segja Bandaríkjanna, snerust ný stjórnvöld gegn Minsksamkomulaginu og lýstu vilja til að ganga í NATO.“
Guðmundur heldur áfram og minnir á að ,,Í 7 ár, frá uppreisn aðskilnaðarsinna 2014, hefur þarna ríkt hálfgert stríðsástand. Her Úkraínu hefur verið þarna á landamærunum. Kiev hefur ekki staðið við að veita þessum héruðum meira sjálfstæði né gætt réttinda minnihlutahóps þarna þrátt fyrir að hafa undirritað samkomulag þess efnis. Aðskilnaðarsinnar sem eru annarrar og þriðju kynslóðar Rússar hafa eftir 7 ára bið eftir framkvæmd Minsksamkomulagsins ákallað Rússa um aðstoð.“
Og að þar kom að þolinmæði Pútíns hafi brostið og að: Rússar hafi óttast að ný eldflaugastöð verði reist á landamærunum ef Úkraína gengur í NATO.
Grein sinni lýkur Guðmundur með eftirfarandi texta: ,,Nokkur munur er á afstöðu Frakka og Þjóðverja annars vegar og Bandaríkjanna og Bretlands hins vegar. Boris Johnsson á í erfiðleikum heima fyrir vegna veisluhalda sinna og Biden vegna hörmulegs viðskilnaðar síns í Afganistan. Freistandi er því fyrir báða að dreifa athyglinni og láta hana beinast að hættu heimsbyggðarinnar vegna Rússa."
Grein sinni lýkur Guðmundur með eftirfarandi orðum:
,,Einhvern veginn finnst mér afstaða Rússa skiljanleg.“
Það verður að segjast að Guðmundur sýnir ákveðið áræði að skrifa grein sem þessa.
Undirritaður reyndi að birta eitt og annað á Facebook í færslum með það að markmiði að koma að sjónamiðum beggja aðila en í morgun lokaði hann þeim færslum eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að sleppa slíkum skrifum og tilvitnunum og vera laus við vanstilltar athugasemdir af ýmsu tagi sem ekki verða frekar til taldar hér.
Það er afleitt í jafn grafalvarlegu máli eins og styrjöldin í Úkraínu er, að menn reyni ekki að tjá sig með sæmilega yfirveguðum hætti um málið.
Íslenskur málsháttur segir að sjaldan valdi einn þegar tveir deila.
Færa má rök fyrir því að í þessu máli séu þeir sem um deila fleiri en einn og jafnvel fleiri en tveir eða þrír.
Þess þá heldur er áríðandi að stíga gætilega til jarðar, því það er ekkert minna en tilvera okkar á þessari Jörð sem er undir ef allt fer á versta veg.
(Leturbreytingar eru mínar)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli