Björn Bjarnason skrifar grein í laugardagsblað Morgunblaðsins (12.3.2022)með yfirskriftinni ,,Um birgðastöðu á hættutíma" og eins og nafnið gefur til kynna er Björn að benda á þörfina á, að hugað sé að því sem til þarf til daglegs lífs og rekstrar atvinnuvega, á hættutímum.
Við höfum ekki gætt að okkur hvað það varðar eins og Björn bendir skilmerkilega á.
Birgðastöð fyrir flugvélaeldsneyti, er samkvæmt því sem Björn segir, eingöngu um að ræða í Helguvík og Björn spyr hvort ekki sé til áætlun um ,,hvað gerist lokist Helguvíkurhöfn".
Og dæmin sem nefnd eru í greininni eru mörg fleiri.
Við lifum að mestu frá degi til dags og hugum ekki að því að eiga birgðir af eldsneyti og áburði ( Áburðarverksmiðjan sem var í Gufunesi er orðin að hljómleikahöll!) og fóðurvörum fyrir húsdýr.
Björn greinir frá því að Finnar framleiði 80% þeirra matvæla sem þeir þurfi og eigi birgðir af áburði og korni sem dugi til sex mánaða og stemmir það við það sem undirrituðum var sagt af fróðum manni er við gengum heim að loknum fundi sem verið hafði í Bændahöllinni fyrir nokkrum árum. En sagan er ekki öll, því eldsneytisbirgðir eiga Finnar til fimm mánaða, eftir því sem fram kemur í grein Björns.
Björn Bjarnason veitti forystu starfshópi um landbúnaðarmál. Hópurinn skilaði skýrslu ,,Ræktum Ísland!". Að mati þess sem þetta ritar, afar vel unnið plagg og áhugavert. Hvað gert er með það sem þar kemur fram fer ekki hátt, en ef til vill er verið að vinna að og út frá niðurstöðum skýrslunnar.
Og þó hljótt fari um það plagg og forsjá sé lítil varðandi það helsta sem við þörfnumst, þá getum við huggað okkur við að ekki er svo að sjá sem fatnaður varði af skornum skammti þó aðfangaleiðir lokist um einhvern tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli