Alþingi íslensku þjóðarinnar stuðlaði að því með flumbrugangi, að hollenskt stórfyrirtæki staðsett í Úkraínu nýtur nú forréttinda á íslenskum kjötmarkaði; nýtir sér ódýrt vinnuafl og starfar í samfélagi, sem átt hefur í stjórnarfarslegum vandræðum um árabil.
Formaður Bændasamtaka Íslands greinir frá því að fyrir aðeins tveimur árum fengu bændur eftirfarandi skilaboð frá afurðastöðvum:
,,Vegna birgðasöfnunar og versnandi stöðu á kjötmarkaði lækkar innleggsverð nautgripa frá og með 18. janúar næstkomandi. Allir flokkar nema ungkálfar lækka um 5% og gripir sem eru undir 200 kg lækka um 3-5% umfram almennu lækkunina. Ungkálfar eru hækkaðir um 10% til að hvetja til minni ásetnings.“
Nú er staðan önnur og þar sem rúm tvö ár tekur að ala nautgrip til slátrunar er ekki auðvelt að bregðast við kjötskorti, nema auðvitað með innflutningi, sem er draumastaða innflytjenda á kjötvörum.
Það var reyndar ekki vegna kjötskortsins sem alþingismenn stóðu að niðurfellingu allra tolla af ,,úkraínskri" kjötvöru sem reyndar er tæpast úkraínsk þegar að er gáð, því samkvæmt því sem segir í grein Gunnars Þorgeirssonar, þá er það svo að:
,,þegar grannt er skoðað hverjir eru raunverulegir framleiðendur á þessu kjöti frá Úkraínu, þá kemur í ljós að viðkomandi fyrirtæki er skráð í Hollandi og framleiðir á ársgrunni um 250.000 tonn af kjúklingi. Það er því augljóst í mínum huga að samkeppni við svona framleiðslufyrirtæki mun aldrei ganga og þarna er ekki verið að styðja við úkraínska bændur, heldur alþjóða viðskiptaveldi sem velur sér staðsetningu með hagkvæmasta framleiðslugrunninn að leiðarljósi, þ.e. ódýrt fóður og ódýrt vinnuafl."
Því verður vart trúað að þetta hafi verið það sem þingmenn íslensku þjóðarinnar hafi viljað styrkja og efla, þegar þeir flumbruðust á Alþingi og felldu niður tolla á úkraínskum afurðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli