Hafi rétt verið tekið eftir, þegar lesin var frétt í Ríkisútvarpinu, þá ,,hefur ríkisstjórnin ákveðið" að ráðstafa 1.000.000.000,- króna úr ríkissjóði í að styrkja bílaleigur til rafbílakaupa.
Þjóðinni var sagt frá því í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, að ríkisstjórnin ætlaði að gera þetta.
Hvaðan stjórnvöld hafi fengið þessa heimild til ráðstöfunar á almannafé kom ekki fram, enda þess engin þörf. Hafi ekki ríkisstjórnin slíka heimild, fæst hún vafalítið á Alþingi án minnstu fyrirstöðu.
Fram kom, að að koma þarf upp hleðslustöðvunum þar sem ferðamenn eru í gistingu. Gera má ráð fyrir að þegar til kemur verði kafað í vasa almennings til að styrkja uppsetningu hleðslustöðva á þeim stöðum, náttúrunni til heilla.
Hleðslustöðvar koma í stað bensín og olíustöðva en á er nokkur munur. Því orkan er bundin í bensíni og gasolíu eins og við flest þekkjum það, en í formi raforku þegar um er að ræða rafbíla.
Ferðamenn eru á ferð um landið nánast allt árið og hafa m.a. verið fastir á bílum sínum í sunnlenskum snjó og ritari hefur lent í því að koma að því að leysa þá úr snjóskafli þegar þeir komust ekki lengra.
Hafði samt ekki samband við innviðaráðherra vegna málsins!
Vafalítið rýkur ríkisstjórnin í það að ákveða ráðstöfun eins og eins milljarðs til að styrkja ferðaþjónustuaðila til að þeir geti komið upp hleðslustöðvum á gististöðum sínum.
Gera má ráð fyrir, að til að þetta geti allt gengið fram, að þá þurfi að styrkja dreifikerfi raforku að gististöðum ferðamannanna og til að það geti orðið, þurfi síðan að veita svo sem einum milljarði í það verkefni.
Upphaf raforkunnar er í raforkuverum, þar sem hennar er aflað og þaðan er henni síðan dreift út um landið.
Áhugi hefur verið á því af hálfu raforkuframleiðenda að styrkja dreifikerfið og byggja nýjar virkjanir, en ljón leynast í vegi:
Sveitarfélög sjá sér ekki hag í að heimila virkjanir vegna fáránlegra reglna sem gilda um fasteignagjöld af slíkum mannvirkjum og er satt að segja undarlegt að þau viðhorf hafi ekki komið fram fyrr.
Frá virkjunum - fáist þær byggðar - þarf síðan að leggja lagnir til að koma raforku þeirra inn á dreifikerfi raforku, og eins og flestir vita gengur það ekki andskotalaust að fá heimildir fyrir slíkum lögnum.
Vel getur síðan verið að styrkja þurfi dreifikerfi í sveitarfélögum og á áningarstöðum, til að orkan fyrir rafbílahleðslu geti komist á gististaði ferðamannanna.
Og er þá ótalið hvernig leysa skuli úr málinu varðandi hleðslu bíla í óbyggðum!
Að þessu öllu töldu, er eitt eftir sem þarf að leysa og það er andstaða vinstrigræningja og landverndinga, sem virðast vera á móti öllum virkjunum, línulögnum, jarðraski og útsýnisbreytingum af hvaða tagi sem er.
Hætt er við að milljarðarnir verði orðnir nokkuð margir þegar upp verður staðið og öll áform í þessari rafvæðingu verða komin í höfn.
Segja má með nokkrum sanni, að byrjað sé á öfugum enda, að ætla að styrkja bílaleigur til rafbílakaupa og ganga út frá því að ekkert annað þurfi síðan að gera, en að ,,stinga í samband".
Engin ummæli:
Skrifa ummæli