Góða fréttin hlýtur að vera messan, en hin er verri!
Minnistætt er undirrituðum þegar honum stóð til boða að fara með í kvenfélagsferð og komið var við í kirkjunni í Hruna. Fram kom að presturinn var mikill áhugamaður um fjárrækt, en auk þess situr í minni, lifandi og skemmtileg frásögn hans af hinni frægu sögn af því: að dansað var í kirkjunni í Hruna með þeim afleiðingum að hún sökk í jörðu með öllum sem í henni voru og heyrðist í djömmurunum neðan úr jörðinni að þessu afstöðnu. Djammið hélt sem sagt áfram, þrátt fyrir að kirkjan væri komin í annan og trúlega verri stað!
Öll var þessi ferð afar skemmtileg og þakkarvert að hafa átt þess kost að njóta hennar í góðum félagsskap. Kýr hafa ritara alltaf verið frekar hugleiknar og því er það ánægjuefni að haldin hafi verið messa í fjósi og ef til vill ætti kirkjan að gera meira af því að boða erindi sitt á vinnustöðum, a.m.k. ef það er gert í sátt við þá sem þar eru og fyrir starfseminni standa.
Tuttugu prósentin.
Hækkun kindakjöts um tvo tugi prósenta eru ekki góðar fréttir fyrir okkur sem kjötið kunnum að meta, en á sér skýringar sem hægt var að sjá fyrir.
Aðföng til landbúnaðarframleiðslu hafa hækkað stórlega að undanförnu sem eðlilegt er, þegar skyndilega er klippt á aðfangakeðjur landbúnaðarframleiðslunnar.
Það geisar styrjöld í Evrópu, stríð sem rekið er af Rússlandi annars vegar og NATO og ESB hinsvegar og stríðið er milli Rússlands og Úkraínu.
Erjur höfðu verið milli landanna um margra ára skeið á svokölluðu Donbas sjálfstjórnarsvæði sem til varð árið 2014. Erjurnar voru reyndar þannig að þær fólust í áreiti Úkraína á fólkið á svæðinu, landshluta þar sem flestir íbúarnir töluðu rússnesku og vildu tilheyra Rússlandi og það má vel halda því fram, að það hafi eins mikið verið Rússlandi til skammar að koma íbúunum ekki til hjálpar fyrr. Eins og það var skömm að því fyrir Úkraína að hafa ekkert gert til að hindra áreitið þeim megin frá. Áreiti sem iðulega voru morð af grófu tagi sem reynt var m.a. að fela í fjöldagröfum. En nóg af þessu!
Það er flestum kunnugt að vegna þessa hefur verð á vörum til framleiðslu landbúnaðarafurða hækkað stórlega, auk þess sem sum hráefni komu áður frá Rússlandi, en fást ekki lengur þaðan, eftir að viðskiptabann vesturveldanna var sett á landið. Þar er m.a. um að ræða áburðarefni, kornvöru, málma og fleira og sá samdráttur í framboði hefur afleiðingar.
Stríðið hefur staðið í heilt ár og fyrir löngu kominn tími til að menn setjist niður og ræði málin til lausnar, í stað þess að herja af fullkominni villimennsku hver á annan.
Vel getur verið, að rétt sé að verð á lambakjöti sé að hækka umfram það sem aðrar vörur hækka, en í svona samanburði verður að taka tillit til kostnaðarliðanna sem um er að ræða og vel getur verið eðlileg skýring sé á þessum mismun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli