Innrásin í Írak

 Í tilefni þess, að liðnir eru tveir áratugir frá innrás Bandaríkjanna og ,,hinna viljugu þjóða" inn í Írak, hafa nokkrir stigið fram og minnst þess hvernig hinar viljugu gengu fram á sínum tíma.

2023-03-21 (3)Hinar viljugu voru nokkrar og verða ekki taldar upp hér enda ekki þörf á, en rétt er að geta þess að Ísland var í hópnum fyrir tilstuðlan forystumanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Það er misjafnt hvernig menn bregðast við tímamótunum og hér verður litið yfir (og stiklað á stóru), annarsvegar skrif Fréttablaðsins og hins vegar umfjöllun Morgunblaðsins.

Í Fréttablaðinu er sagt strax í fyrirsögn ,,blóðugt stríð hófst með lygum" og síðan er sagan hlífðarlaust rakin og skýrð með myndum. Vitanlega er stiklað á stóru, sem eðlilegt er í dagblaðsumfjöllun, en fyrirsögnin vísar til þess að því var logið upp, af leyniþjónustu Bandaríkjanna, að Írakar ættu bönnuð efnavopn.

Því var síðan haldið fram að vegna þessarar vopnaeignar væri nauðsynlegt að ráðast á ríkið og það var gert.

Í stuttu máli er sagan sú, að engin slík vopn reyndust vera í landinu og líkast til var það versta sem í landinu fannst, til komið eftir að innrásarliðið var komið þangað.

Þekkt er framkoma bandarískra herliða við fanga í fangelsinu Abu Graib og hvernig þjóðarleiðtoginn Saddam Hussein var drepinn með mislukkaðri hengingu utan dóms og laga. Hengingu sem samkvæmt fregnum endaði ekki betur en svo, að um afhöfðun var að ræða og var það eftir öðru í þeim stríðsglæp sem þarna var drýgður.

2023-03-21 (6)Í Morgunblaðinu er sagan rifjuð upp á öðrum nótum og samkvæmt fyrirsögninni er um að ræða ,,umdeilda innrás í Írak".

Um hvað þarf að deila varðandi innrásina er ekki gott að segja.

Innrásin var gerð á upplognum forsendum og var einkaframtak Bandaríkjanna, Bretlands og ,,hinna viljugu þjóða" eins og áður sagði.

Rætt er við Björn Bjarnason og eftir honum haft, að Bretar og Bandaríkjamenn hafi sammælst um að ráðast inn í Írak og gefið fyrir því þá ástæðu að í landinu væru gereyðingarvopn, sem í ljós hafi komið að ekki var.

Hann segir að ágreiningur hafi verið um málið innan NATO og einnig milli Bandaríkjanna og ESB og reyndar líka milli Norðurlandanna. Björn bætir því við að málið sé enn hitamál í einstökum ríkjum og nefnir sem dæmi að Tony Blair hafi fengið á sig mikla gagnrýni vegna málsins.

Björn segir að það hefði verið ,,stór ákvörðun fyrir Ísland að ætla að skera sig úr" þeim þjóðahópi sem fylgdi fyrirhugaðri innrás.

Það gerðu samt Svíþjóð og Finnland og virðast hafa komist vel frá sinni afstöðu.

Eftir situr að engin raunveruleg ástæða var fyrir innrásinni önnur en upplognar sakir. Ríkisstjórn Íraks var hvorki betri né verri en margar aðrar í sínum heimshluta og þó víðar væri leitað.

Þeir sem komu Íslandi í hóp hinna viljugu þjóða verða að lifa með þeirri ákvörðun, en þeir eru ekki öfundsverðir af því að bera þann kross. Hvort það fólk trúir því að það hafi gert hið rétta er engin leið að segja, en ætli ekki megi alla vega halda því fram, að það hafi verið blekkt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...