Kjötframboð og hagræðing

Hagræðingar er þörf, en illa gengur að ná henni fram og kjötframleiðslan dregst saman, en kannski þurfa neytendur ekki að óttast neitt, því alltaf er hægt að flytja inn.

2023-03-22 (7)

Og kannski er hægt að fá nautakjöt og kinda frá Úkraínu.

Væri það ekki góð lausn að flytja inn allt hvað heita hefur frá því góða landi?

Tollfrjálst að sjálfsögðu og helst óheilbrigðisskoðað, en trúlega stimplað og vottað með líkum hætti og sjá mátti í finnskri sjónvarpsþáttaröð, sem var að vísu sviðsett og leikin, en hefði vel getað verið sönn.

Fylli menn þingliðið af eldmóði sem af leiði dugnað, þá er hægt að leysa flestar flækjur og vandræðagang.

Það er þó ein spurning sem fá þarf svar við og hún er sú, hvort þeir séu aflögufærir með kindakjöt í því ágæta landi? Rétt er að taka fram þegar spurt er, að kjötið megi vera ,,fjölónæmt" og það sé jafnvel betra ef svo sé.

Íslenskt regluverk, skulum við upplýsa úkraínska sölugarpa um, að sé bæði loðið og teygjanlegt, auk þess sem spítalarými sé nægt, ef eitthvað fer úrskeiðis.

Og jafnframt það, að hægt sé að greiða fyrir kjötið með því að taka á móti sjúklingafjöld til innlagnar á íslenska spítala sem standi nú nær tómir, vegna óvæntrar heilsuhreysti íslensku þjóðarinnar.

Hagræðing er bannorð á Íslandi - getum við frætt viðskiptavini okkar um - og því séu markaðir af óvenju góðri gerð. Allt þurfi að vera sem dýrast til að það teljist gott og þó það sé kannski ekki mjög dýrt í Úkraínunni, þá sé alltaf hægt að bæta úr því þegar til Íslands sé komið.

Sé svo, að í Úkraínu sé ekki fáanlegt kindakjöt eða nauta, þá sé hægt að bæta úr því. Flytja megi inn kjöt til Úkraínu frá t.d. Nýja Sjálandi og ef ekki fæst nautakjöt þar, þá sé vafalítið hægt að finna svoleiðis vöru í Bandaríkjunum eða Brasilíu, sem flytja megi inn til Íslands í gegnum Úkraínu.

Eins og liggur í augum uppi, þá græða allir á þessu, tryggt framboð verður á kjötvörum og hver getur farið í að kaupa af öðrum öllum til hagnaðar og hagsældar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...