Brúin sem kemur (vonandi) og markaðurinn sem fraus

 Tregða er hlaupin í húsnæðismarkaðinn sem vonlegt er, því það er ekki fyrir alla að kljúfa vaxtaokrið sem nú er. 

Vextir hafa verið hækkaðir í sífellu af Seðlabankanum, sem viðbrögð við lausatökum ríkisstjórnarinnar á hagstjórninni.

,,Háir vextir og verðbólga eru farin að bíta2023-03-06 (4) svo húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn", segir fulltrúi innviðanna í ríkisstjórninni. Hann telur eðlilegt að ,,ríkið styðji við". 

Og ríkið erum við, eins og við vitum!

,,Við" eigum sem sagt að styðja við, en hvernig það á að verða, vitum við ekki sem ekki höfum gengið í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins og eflaust segja sumir sem svo, að gott sé það nú, því ef við mundum skilja framsóknarpólitíkina, þá myndum við ekki skilja svo margt annað sem gott getur verið að kunna skil á.

Vonum samt að hætt verði mokstri úr tómum ríkissjóði, fjármögnuðum með lánsfé; að farið verði að veita aðhald og velta fyrir sér krónunum áður en þeim er ausið í allar mögulegar áttir án umhugsunar.

2023-03-06 (2)Að því sögðu, þá verður að virða ríkisstjórn smáríkisins það til vorkunnar að hún reyni að líkjast svo sem hún getur hinum stóru í Evrópu og Ameríku, sem moka peningum með líkum hætti úr tómum sjóðum sínum og senda reikninginn á þegnana.

Horfum á myndina fyrir ofan textann og gleðjumst yfir því að mitt í öllum þessum fjármálahremmingum er loksins búið að efna til útboðs á nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.

Í útboðinu er boðin út hönnun, fjármögnun og framkvæmd  á framkvæmdatíma, þannig að reikningurinn fellur á ríkissjóð að framkvæmdinni lokinni, sem er eins gott m.v. stöðu ríkissjóðs.

Gera má ráð fyrir að ríkisstjórn ráðsíunnar leggist í aðhald og yfirvegun á ráðstöfun fjármuna þjóðarinnar á meðan á þessu stendur, til að eitthvað verði í kassanum þegar að skuldadögunum kemur. Samt er það alls ekki víst, því þegar þar að kemur, verður það vonandi annarra að glíma við reikningana og vonandi gengur það vel.

Brúin þarf að koma, um það eru flestir sammála og hafa verið um margra ára skeið, en lengi stóð styrinn um hvar hún ætti að vera og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórn Selfossbæjar fyrir nokkrum árum lagði hinn músíkalski bæjarstjóri til, að brúin yrði ,,sem næst" þeirri gömlu og gárungarnir sögðu að líklega yrði hún hengd utan á gömlu brúna!

Svo verður ekki og er rétt að fagna því, að raunhæfari sjónarmið urðu ofaná og að svo er að sjá sem hin nýja brú verði bæði glæsileg og falleg, auk þess að verða mikil samgöngubót sem hefði þurft að koma fyrr, en um það þýðir ekki að tala úr þessu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...