Það er hluti af mannlífinu að huga að leiðum til að komast um. Það er ekkert nýtt að svo sé gert en það sem er nýtt í þessu, er að komnar eru fram hugmyndir um að breyta lélegum malarslóða í almennilegan þjóðveg. Verði það úr munu samgöngur milli norður- og suðurhluta landsins gerbreytast til batnaðar, auk þess sem álagi mun létta á því vegakerfi sem nú er notast við til að komast landleiðina milli þessara landshluta.
Í framtíðinni má sjá fyrir sér, að vegir verði líka lagðir eftir hálendinu milli austur og vesturlands sem myndi létta verulega á hringveginum. Eins og flestir vita er mikið álag á honum, allt frá Reykjavík og austur og norður um, svo það gæti orðið mikil samgöngubót að fá góða hálendisvegi milli landshlutanna og ætti þess vegna að skoða þessa möguleika með jákvæðu hugarfari.
Evrópskir bændur búa við mikið skrifræði, sem varla telst til tíðinda.
Skrifræði hefur almennt aukist mikið og svo er komið, að blekpésar stjórna nánast öllu í samfélögunum á bakvið tjöldin. Því miður er það ekki svo að pésar þessir séu almennt vitrari en gengur og gerist og sumum finnst jafnvel að það sé síður en svo. Víst er, að oft skortir þekkingu og yfirsýn hjá þessum ágætu pésum, sem lært hafa á náttúruna, að mestu við skólaborð.
Því er það svo, að það skerst stundum í odda á milli fólksins sem er úti á örkinni og er að vinna hin raunverulegu störf og pésanna fyrrnefndu.
Við höfum séð nokkur dæmi um þetta í samfélaginu okkar, t.d. varðandi virkjanaáform, sem flest stranda og jafnvel verða að engu vegna afstöðu blekpésa sem vissulega telja sig ,,græna“ og reynast vera það þegar upp er staðið, en í öðrum skilningi þess orðs. Samkvæmt skoðanakönnun er flokkurinn sem telur sig vera til vinstri og jafnframt grænan á leið út af sviðinu. Málin gætu því staðið til bóta, en hafa verður í huga í því sambandi, að smitið hefur stungið sér niður víðar!
Hér að ofan sést ágætt dæmi um hvað við er að eiga.
Menn á Vestfjörðum hafa hug á að virkja lítil vatnsföll með rennslisvirkjun, til að treysta orkuinnviði. Sé farið yfir textann, sést að umhverfisfræðingar hafa komist að því, að virkjunin sé háð umhverfismati því áhrifin á umhverfið séu umtalsverð o.s.frv.
Nánast allt, sem hægt er að láta sér detta í hug að gæti gerst vegna virkjunarinnar er síðan tínt til í þeim tilgangi greinilega, að sýna fram á, að sem flest sé neikvætt við fyrirhugaða virkjun.
Líklegast er að framkvæmdin verði ekki að veruleika, því þess er vandlega gætt, að geta þess í engu, að stundum þurfi að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Helst gæti manni dottið í hug, að best sé fyrir Vestfirðinga og náttúrulega alla aðra, að framleiða orkuna sem mest með olíuknúnum rafstöðvum, því þá verði áhrifin á náttúruna sem minnst eða jafnvel engin.
Nema náttúrulega erlenda náttúru, en frekar auðveldlega má loka augunum fyrir því. það er svo langt í burtu að við sjáum það ekki, heyrum það ekki og finnum það ekki!
Til að knýja slíkar rafstöðvar þarf olíu, en það er vafalaust líka hægt að loka augunum fyrir því á þeim forsendum, að hana þurfi hvort sem er að flytja inn vegna ýmislegs annars!
Eftir situr hnípin þjóð í vanda, sem veit ekki hvernig hún á að kenna vitringunum sínum, hvernig greina skuli kjarnann frá hisminu, að fórna minni hagsmunum fyrir meiri og almennt, að horfa fram á veginn í stað hins gagnstæða.
Vatnið rennur, hvort sem það fer í gegnum hverfla eða ekki og sama má segja um vindinn, hann blæs hvað sem við segjum eða gerum og þannig mætti áfram telja.