Sameining afurðastöðva bænda og tollamál

Myndin er úr safni höfundar og er af kisu sem lenti í sjálfheldu, sem hún þurfti aðstoð við að komast úr.


Við sem reynt höfum samkeppnisást ýmissa aðila í samfélagi okkar undanfarna áratugi fylgjumst af áhuga með þeirri umræðu sem fram fer nú um stundir varðandi þau mál.

Við vitum að samvinnuhugsjónin getur brenglast og við vitum líka að samkeppnisást sumra aðila á fyrirbærinu ,,markaði" fer æði oft eftir því hvað viðkomandi hentar í það og það sinnið.

Hagsmunatengsl og gamalt dæmi

Íslenskt samfélag er lítið og tengsl geta verið æði fljót að myndast milli aðila sem hagsmuna hafa að gæta og stundum er það þannig að tveir eða fleiri taka sig saman, með það sem markmið að losna við þann þriðja. Þegar það er gert, er oftast valinn sá sem líklegt er talið að takast muni að fella, og það hefur tekist og það örugglega oftar en einu sinni. Meðulin eru sem sagt ekki alltaf vönduð og til eru líka dæmi um, að tveir hafi notað sér tök sín innan sameiginlegra hagsmunagæslusamtaka til að þjarma að þeim þriðja og bola honum af markaði með baktjaldamakki af ýmsu tagi.

Nýlegt dæmi

Fyrir til þess að gera stuttu síðan yfirtók fyrirtæki sem hafði verið í samkeppnisrekstri við annað fyrirtæki rekstur þess síðarnefnda og náð þannig einokun á þeim markaði sem um er að ræða, án þess að Samkeppnisstofnun sæi ástæðu til að grípa inní það ferli. Staðan á þeim markaði sem þar um ræðir, er þar með orðin þannig: að fjölmörg fyrirtæki sem nauðsynlega þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda hafa ekki lengur val neitt val og einokunarsinnarnir hafa þar með náð sínu fram.

Löngunin til að sameinast

Nú er komin upp sú staða í landbúnaðinum að afurðastöðvar hafa áhuga á að sameinast og eftir því sem undirrituðum hefur skilist, er um að ræða stöðvar á norðanverðu landinu. Hafa þarf í huga að sú sameining ætti ekki að hafa mikil áhrif á markaðnum, því ekki er annað vitað en að að stærsta afurðastöð sunnlenskra bænda sé utan við þessar sameiningarviðræður og því myndi væntanlega verða áfram samkeppni á því sviði sem um er að ræða, sem er aðallega slátrun og sala sauðfjárafurða. 

 Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, beindi spurningum til Samkeppniseftirlitsins í innsendri grein á visir.is þann þann 15. febrúar síðastliðinn og spurði sem svo, hvað það væri sem gerði það að verkum að ekki gætu gilt sömu undanþágur frá samkeppnislögum á Íslandi, Noregi og í Evrópusambandslöndunum?

Hún bendir á að samkvæmt norsku samkeppnislögunum getur norski kóngurinn innleitt undanþágu frá ,,gildissviði norskra samkeppnislaga." 

Í niðurlagi greinar sinnar beinir Erna eftirfarandi spurningu til forstjóra Samkeppniseftirlitsins:

,,Hvaða skuldbindingar Íslands að EES-rétti gera það að verkum að undanþágur geta ekki gilt frá samkeppnislögum á Íslandi fyrir landbúnað ef slíkar undanþágur gilda í Noregi og ESB?"

Svar forstjórans

Páll Gunnar Pálsson svarar grein Ernu Bjarnadóttur með grein sem hann skrifar á sama miðil 16. febrúar 2021 á þann hátt, að ekki er svo að sjá að það sé Samkeppniseftirlitið sem sé hindrunin. Páll telur ,,vel koma til greina að innleiða í íslenskan rétt undanþágur frá samkeppnislögum, áþekkar þeim sem gilda í Noregi og ESB." og vitnar í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp um breytingu á úthlutun tollkvóta. Þá telur hann margar leiðir vera til að ,,efla stöðu bænda gagnvart viðsemjendum sínum", auk þess sem til álita komi ,,að auðvelda bændum og hvetja þá til aukins samstarfs sín á milli" og bætir við, ,,Bændur eru staddir á ákveðnum upphafspunkti, þar sem þeir hafa að verulegu leyti misst forræði á því afurðavinnslukerfi sem þeir byggðu upp á síðustu öld.". Síðan segir hann  að ,,Í þessu skyni kemur til greina að heimila bændum, á þeim sviðum landbúnaðar þar sem rekstrareiningar eru mjög litlar, samstarf sín á milli umfram það sem núgildandi samkeppnislög heimila, með líkum hætti og gert hefur verið í Noregi og á vettvangi Evrópusambandsins.“ 

...forsagan

Í svari sínu minnir Páll Gunnar Pálsson á að samkeppnisreglur nútímans eigi rætur að rekja til hagsmunabaráttu bænda í Bandaríkjunum, sem í lok 19. aldar hafi þurft að berjast við einokunartilburði flutningafyrirtækja og afurðastöðva, sem kemur ekki þeim sem þetta ritar á óvart, sé hugsað til baka inn í íslenskan veruleika.

Viðhorfin 

Svari forstjórans lýkur á þann hátt að bændur ættu að geta vel við unað. Hann lýsir ánægju með jákvæð viðhorf bænda, viðhorf sem beri merki sóknar og nýsköpunar, áhuga á að efla forræði yfir eigin framleiðslu og vilja til að styrkja tengslin við neytendur. Tekjur bænda koma frá neytendum, ýmist í formi styrkja af ýmsu tagi s.s. í sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju og síðan sem tekjur af sölu afurðanna bæði hjá þeim fyrrnefndu sem hinum búgreinunum, þar sem samskiptin eru gegnsærri og nánari.

Skrifum þeirra Ernu Bjarnadóttur og Páls Gunnars Pálssonar um þetta efni er ekki víst að sé lokið, þ.e. samkeppnismálin, sameiningu afurðastöðva og tollafyrirkomulag á landbúnaðarvörum. Svo mikið er víst að þegar þetta er ritað birtist grein eftir Ernu, þar sem hún fagnar svari forstjórans og hnykkir á hvernig að skuli staðið; bendir á 2. grein norskrar reglugerðar og tilteknar greinar í norskum og ESB- samkeppnislögum.

Besta vörnin

Erna segir augljóst að þau séu sammála um innleiða undanþágur og að sókn sé besta vörnin, hún segist spila sókn í fyrri grein sinni og fagnar þeim sigri sem virðist hafa náðst fyrir íslenska bændur. Óhætt er að fagna því, ef niðurstaðan verður sú sem sóst er eftir, að minni fyrirtæki geti sameinast, með það sem markmið að reksturinn styrkist. Óhætt er samt að fullyrða, að það er sama hve mikil sameining afurðastöðva á sér stað: að sameiningin ein mun ekki tryggja reksturinn.

Mun eitthvað lagast

Meðan haldið er áfram að framleiða allt að tvöfalt umfram markaðsþörf, svo sem gert er í sauðfjárræktinni, í sérkennilegu viðskiptasambandi við ríkisvaldið, sambandi sem kalla má verktöku og samþykkt er á Alþingi í búningi búvörusamninga og síðan framfylgt af stjórnvöldum sem kosta að auki markaðssetningu á afurðinni að hluta í beinni samkeppni við búgreinarnar sem eru utan búvörusamninganna, mun fátt lagast. 

Öðrum komið til bjargar

Vel getur verið að hægt sé að finna það út með pólitískum loftfimleikum og atkvæðaveiðum að fjármunum þjóðarinnar og takmörkuðu beitilandi sé best varið með slíku ráðslagi. Nýlega mátti lesa í Bændablaðinu hugleiðingu í þá veru af ritstjóra blaðsins, að halda þyrfti úti magnframleiðslu (á kindakjöti væntanlega) til að íslenska þjóðin gæti í óljósri framtíð komið til bjargar öðrum þjóðum, ef þær tækju nú upp því á að stríða hver við aðra eins og fyrrum hefði gerst. Séu slík holtaþokusjónarmið ráðandi í stjórnsýslunni er vandséð hvernig komast á út úr fjáraustri, skipulagsleysi og almennu rugli í þessum málum.

Sinnaskipti

Eftir að þessum skrifum var lokið kom fram enn ein greinin um samkeppnismál og tollamál undir yfirskriftinni ,,Samvinna bænda í sölu búvara" og nú frá einum af vonbiðlum Framsóknarflokksins til kjósenda vegna komandi alþingiskosninga. Sá sér nú sólina í afstöðu Noregs og ESB til samkeppni og tollamála og sannast þar sem endranær, að seint verður reiknað út með vissu hver afstaða þess stjórnmálaflokks er til Evrópumálanna!



1 ummæli:

  1. Slóðin inn á hina nýju grein forstjóra Samkeppniseftirlitsins er: https://www.visir.is/g/20212074993d?fbclid=IwAR306sG6-TLfaEUsNAES522IW9nVsvjbfNVo6SOEXNwpWRKjUYZ-ROQ0QH8

    SvaraEyða

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...