Við yfirreið yfir DW.COM í dag 23.8 2022 kemur m.a. eftirfarandi í ljós varðandi það sem er að gerast í stríðinu í Úkraínu.
Rússar segjast hafa sprengt í loft upp vopnageymslu í Odessa og eyðilagt þar alls konar stríðsdót og þar á meðal HIMARS-ið góða sem hinn góði Biden gaf Úkraínu fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar og á hennar kostnað.
Úkraínar segja þetta hafa verið korngeymslu og eins og við vitum: af korni eiga þeir nóg.
Rússar segjast hafa skotið á geymslu sem hýsti loftvarnarkerfi og þá væntanlega skemmt það eða eyðilagt.
Úkraínar segja það sömuleiðis hafa verið landbúnaðardót, auk þess sem þeir hafi skotið sumar flaugarnar niður og enginn skaði hafi af orðið.
Svona ganga sögurnar til skiptis og eins og gengur í stríði, þá strjúka menn hvorir öðrum öfugt af fremsta megni og stundum gengur það og stundum ekki.
Og sannleikurinn er valkvæður og flögrar út og suður svo erfitt er að festa hönd á fyrirbrigðið!
Síðar í fréttinni er farið að fjalla um væntanleg réttarhöld yfir úkraínskum hermönnum sem Rússar hafa tekið höndum og þá fyrst rísa hárin á okkar manni og íslenska þingsins Zelensky, sem er kallaður til sögunnar og er nokkuð brugðið og er bæði hneykslaður og sár.
Við munum að haldin voru ,,réttarhöld" í Úkraínu yfir rússneskum hermanni. Ungmenni sem hafði drýgt þann glæp að skjóta mann á reiðhjóli, væntanlega í fumi, ótta og fáti.
Réttarhöld þessi voru haldin fyrir opnum tjöldum og hafa trúlega verið einhverjum góð skemmtun, á meðan öðrum þóttu þau vera ömurleg sviðsetning. Ungmennið var dæmt og var dapurt mjög sem vonlegt var, baðst afsökunar og spurði konu hins skotna: hvort hún myndi nokkurn tíma geta fyrirgefið sér?
Nú hefur sem sé flogið fyrir, að Rússar hyggist feta þessa sömu slóð varðandi hermenn af úkraínskum uppruna, sem þeir hafa komið höndum yfir og þá er Zelensky voða reiður og bæði hneykslaður og sár.
Hann varar Rússa við, varðandi fyrirhuguð réttarhöld og segir sem svo, að ef þessi fyrirlitlegi dómstóll verði að veruleika, þá sé um að ræða brot á öllum alþjóðlegum reglum o.s.frv.
Og nú þarf ekki frekari vitnanna við.
Svona gerast kaupin á hinni úkraínsku stríðseyri samkvæmt DW-inu í dag og við sjáum að það er ekki alltaf sama Jón og séra Jón og þannig er það og hefur alltaf verið:
Að það er betra að kenna heilræðin en halda þau.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli