Vandamálið er reyndar ekki plastið heldur hvernig við mennirnir göngum um það. Á umgengninni hefur orðið framför í seinni tíð og við erum mörg hver hætt að haga okkur sem ,,fílar í glerhúsi” hvað það varðar, en eigi að síður er gott til þess að vita að ný og umhverfisvænni tegund af plasti sé að koma á markaðinn.
Ráðherrann hugumstóri sem bannaði hvalveiðar af því honum langaði það situr sveittur við að skrifa minnisblað um eitthvað sem við nennum ekki að lesa að fenginni reynslu, en vegna þess að mynd af hvalveiðiskipi prýðir fréttina, má reikna með að blaðið sé þéttskrifað af ,,rökum” fyrir hvalveiðibanni og ekki síst því hvernig það var sett á. Hvort gagnavænting forsætisráðherrans tengist tengist minnisblaðinu, dýravelferð, ójafnvægi eða einhverju öðru er ekki gott að segja.
Ljósi punkturinn er að lundaveiðar verða leyfðar í Vestmannaeyjum, því þar um slóðir verða menn að fá sinn lunda og kannski þykir matvælaráherra lundi góður til átu og þarf því að hafa veiðarnar í góðu gengi.
Sé það rétt þá má álykta sem svo að hvalkjöt og hvalspik falli ráðherranum miður vel og það geti verið skýringin á að hvalveiðar voru stöðvaðar á dögunum.
Að því gefnu að matarsmekkur hafi ráðið einhverju um í málinu, sem þó er alls ekki víst, gerum við ráð fyrir að ef í matvælaráðuneytið velst ráðherra með annan og þjóðlegri matarsmekk muni hvalveiði hefjast að nýju.
Að þegar þar að kemur verði til áhugamaður um rekstur hvalveiðiskipa er þó ekki víst og vel gæti verið að sá sem þær hefur stundað verði orðinn leiður á ströglinu og búinn að finna sér annan atvinnurekstur til að starfa við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli