Gjörólíkar en samt líkar.
Myndin til vinstri er teikning eftir ,,Gunnar” og fengin frá Heimildinni í heimildarleysi en hin er ljósmynd sem gera má ráð fyrir að sé uppstillt og t.d. er sandhrúgan tæplega eftir barnið, sem á myndinni er.
Það ríkir ró yfir barninu og ,,besta vini” þess en það sama verður ekki sagt um það sem sést á hinni myndinni.
Seðlabankastjórinn, sem við teljum okkur þekkja á myndinni, ríður gandreið mikla á skrímsli því sem hann situr á, rígheldur í taumana og sætið er ótraust. Skrímslið er til alls víst, sýnist manni og svo er að sjá, sem svipur knapans lýsi ráðaleysi.
Það gengur illa að ráða við ,,verðbólgudrauginn”, ,,þenslan” er mikil, þeir sem sitja við ,,stjórnvölinn” valda ekki hlutverki sínu og stjórn peningamála er að fara úr böndunum.
Fréttir berast af því að embættismaður hafi ,,gefið” vildarvinum um það bil hálfan milljarð, sem ku kallað ,,örlætisgjörningur” nema, að maðurinn var að gefa almannafé en ekki sitt eigin.
Forsætisráðherrann – sem er frú – fylltist þrá eftir nýju embætti og fyrir bragðið þurfti að breyta montriti sem búið var að semja.
Höfð voru snör handtök og ritinu var eytt, því úti var ævintýri og semja þurfti nýtt.
Það var komið að því að hressa þurfti upp á ríkisstjórnina og til að það gengi fram var Kötu boðið í pólitískan dans og flokkskríli hennar með.
Niðurstaða varð, að Katrín fór í framboð enda vön slíku, vinir hennar í ríkisstjórninni stokkuðu upp spilin og úthlutuðu sætum að nýju og flokkurinn sem líklega fær ekki þingmann í næstu kosningum, vonast eftir að fá embætti á Bessastöðum í staðinn.
Hvort kapallinn gengur upp leiðir tíminn í ljós.
,,Tíminn og vatnið” skrifaði skáldið en það sem hér var lýst, er ekki hægt að skálda og eftir situr hnípin þjóð í vanda sem stendur frammi fyrir því, að offramboð er á fólki til forsetaembættis.
Einn fær en hinir ekki og því er það líklegt, að sár enni verði mörg að leik loknum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli