Ívar teiknar fyrir Morgublaðið og það er fátt sem hann gerir ekki að yrkisefni í myndum sínum.
Við sjáum hér tvö dæmi, þar sem annarsvegar er um að ræða jarðvísindamann sem gerir sem hann getur til að kasta tölu á jarðskjálfta sem eru undanfari viðburða, sem vandséð er hvernig hægt verði að takast á við.
Við teljum okkur þekkja persónur og leikendur á myndunum og hugmynd dómsmálaráðherrans er hreint ekki fráleit en dýrir eru hjálmarnir og væntanlega vandaðir eftir því!
Ritari fékk sér hjálm fyrir nokkrum vikum, sem var með rauðu ljósi að aftan og sem var þeirrar náttúru að geta annað hvort logað stöðugt eða blikkað, auk þess sem hægt var að slökkva á því og hann kostaði aðeins nokkra þúsundkalla!
Miðað við yfirskrift myndarinnar ætti ég að vera sokkinn í djúpa skuld vegna kaupanna en svo er ekki, enda ekki ríkisstjórnarfígúra af neinu tagi!
Værum við gíraffar myndum við sjá hátt yfir og gerðum eflaust margt öðruvísi en við gerum og lífið yrði auðveldara á margan hátt!
Við myndum t.d. nær örugglega ekki fá ,,á heilann“ orlofsgreiðslur pólitísks andstæðings og myndum ekki hlaupa í endalausri í leit að skýringu á því hvernig greiðslan væri tilkomin.
Eftirsókn eftir vindi er yrkisefni Ívars á myndinni hér til vinstri, eða öllu heldur eftirsókn eftir vindorku, því nú er svo komið – þökk sé Vinstrigræningjum – að ekki má virkja orkuna sem í fallvötnum okkar er, heldur verður að virkja þess í stað vindinn sem blæs oftast en ekki alltaf.
Þóroddur Bjarnason sendir okkur skeyti á teikningunni sem er til hægri en hér verður ekki farið út í túlkun á því sem þar kemur fram, heldur verður það látið lesendum eftir!
Endum þetta síðan á mikilli alvöru, þar sem verið er að segja frá því að til standi að senda gervimenni til sýnatöku í kjarnorkuveri sem eyðilagðist í náttúruhamförum í Japan.
Við munum mörg eftir þeim atburðum, svo skelfilegir sem þeir voru og nú vilja menn komast að því hvernig staðan sé, í rústunum sem áður voru starfandi orkuver.
Önnur kjarnorkuver geta verið í mikilli hættu vegna hernaðarátakanna, sem eru í Rússlandi og Úkraínu og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því sem þar er að gerast.
Það er löngu komið nóg af leik að þeim eldi og allt of margir sem hafa átt um sárt að binda af völdum kjarnorkunnar.
Og ekki heldur gott að vita af kjarnorkuknúnum kafbátum hlöðnum kjarnorkuvopnum, svamlandi í kringum landið okkar í boði núverandi ríkisstjórnar.
Verði slys af þeim, er hætt við að tekjur af helstu útflutningsafurð íslensku þjóðarinnar yrðu litlar.
Tekjur sem þá væri búið að fórna á pólitísku altari þeirra sem ekki sjást fyrir í pólitísku ofstæki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli