Rétt er að taka fram að undirritaður þekkir ekki mikið til þess máls, sem verið hefur til umfjöllunar á síðum Morgunblaðsins að undanförnu og varðar, eftir því sem best verður skilið, hvort fyrrverandi borgarstjóri eigi rétt á að fá greitt fyrir þá orlofsdaga, sem hann tók ekki út á ferli sínum sem borgarstjóri.
Undirritaður telur sig hafa verið heppinn með vinnuveitendur þann tíma sem hann var á vinnumarkaði og ætíð fékk hann það sem honum bar samkvæmt kjarasamningum.
Vel kann að vera að reglur hafi verið öðruvísi á þeim tíma en ef ekki var hægt einhverra hluta vegna, að taka út það orlof sem um hafði verið samið, þá var greitt fyrir það svo sem eðlilegt þótti.
Fyrrverandi borgarstjóri hefur af einhverjum ástæðum ekki náð að taka sér eðlileg frí frá störfum sínum, líkt og hann átti rétt á.
Hver sá réttur var og hvernig hann ætti að vera tekinn út, veit ritari ekki neitt um en hitt veit hann, að talsvert hefur verið um málið fjallað á síðum Morgunblaðsins og e.t.v. víðar.
Að öðru.
Það hefur trúlega ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum, hvernig komið er fyrir ríkisstjórninni.
Vinstrigræningjar eru búnir að yfirgefa skútuna og því á að halda kosningar innan fárra vikna.
Flokkarnir sem eftir eru og halda í beislistaumana, hafa bætt á sig ráðuneytum græningjanna vinstrisinnuðu.
Hvort þeir eru eingöngu grænir og ekki vinstri– sinnaðir vitum við ekki fyllilega og margt bendir til að þeir viti það ekki sjálfir.
Eftir situr hnípin þjóð í vanda og vandinn er, hvað eigi að kjósa!
Svona mun hún vera ,,stjórnin“ sem nú situr og eins og við getum séð, eru engir vinstri(?)- græningjar við gamla og stöðuga Bessastaðaborðið en þau reyna að brosa og brosin eru fremur daufleg, sem von er við þessar aðstæður.
Þjóðin kaus fólk til alþingissetu í þeim tilgangi að það myndaði ríkisstjórn sem stjórna myndi landinu af vandvirkni, yfirvegun og samviskusemi.
Það brást, vandvirknin er vandfundin og yfirvegunin lítil sem engin og segja má að endirinn þ.e. stjórnarslitin, séu í samræmi við ferilinn.
Nú er svo komið að þjóðin mun ganga til kosninga, sem í sjálfu sér er ágætt miðað við það sem á undan er gengið og við vonum að upp úr kjörkössunum komi eitthvað betra en það sem ,,talið“ var í Borgarnesi sællar minningar.
Kosningarnar munu fara fram og við skulum vona að aðstæður verði góðar, kjósendur komist á kjörstað o.s.frv.
Ívar teiknari Morgunblaðsins sýnir okkur að Samfylkingunni hafi bæst verðugur liðsauki í baráttuna, liðsauki sem tekist hefur á við óværu og náð henni blessunarlega niður.
Formaður Vinstri grænna stendur hins vega á ótraustri undirstöðu, sperrir sig en kemst ekki lengra.
Okkur þykir það ágætt, þau voru löngu búin að ganga götuna á enda.
Blindgötuna sem þau völdu sér að ganga og þó það hafi eflaust gengið vel að þeirra mati, á meðan Kata ásamt Kolu nutu þess að flaðra upp um Zela, þá er það svo, að löngu var komið nóg og meira en það!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli