Vandaður málflutningur í stað þess gamla
Það stendur til að halda kosningar innan skamms tíma og mikið er um að vera hjá stjórnmálamönnum þjóðarinnar.
Hér sjáum við þá helstu á því sviði, íhöldin þrjú og síðan einbeittan formann Samfylkingarinnar á, milli þeirra Sigmundar og Bjarna.
Svo virðist sem fylgi Sjálfstæðisflokksins sópist til Miðflokksins svokallaða en sé hann miðflokkur, hvað er þá Framsókn og ef hún er ekki íhaldssöm, hvað er hún þá?
Jú, ef við hugsum okkur dálítið um og rifjum upp sögu Framsóknarflokksins, þá munum við, að flokkurinn er í rauninni gegnheilt íhald á mörgum sviðum.
Miðflokkurinn er til orðinn eftir frægan flótta formannsins af fundi Framsóknar, sem haldinn var í Háskólabíói, yfir á Hótel Sögu.
Saga er ekki til sem hótel lengur og nú er verið að breyta henni í háskólavettvang af einhverju tagi.
Við eigum aðra mynd af þeim Sigmundi og Bjarna og það má lesa ýmislegt út úr henni.
Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna, er fyrirsögn greinarinnar sem við sjáum glitta í fyrir neðan félagana á myndinni þar fyrir ofan.
Þar reynir Bjarni að hlægja kurteislega með Sigmundi en Ívar teiknari Morgunblaðsins sýnir okkur gamalgróinn Framsóknarmann, berja trommu, líkt og ritari gerði eitt sinn forðum með Lúðrasveit verkalýðsins og bauð sig þó ekki fram!
Það kann að vera að Framsóknarmaðurinn slái nýjan tón en hvert hann er að fara og hvaðan hann kom, vitum við ekki og í raun ekki heldur hvar hann er.
Það hefur verið vandinn við að meta Framsókn að engin leið er að vita hvar maður hefur hana.
Svipurinn á Bjarna Benediktssyni segir okkur meira en mörg orð og ætli greinin eftir Kristrúnu segi okkur ekki hvað á að kjósa?
Viljum við gamalt vín á lekum belgjum eða viljum við eitthvað nýtt og ferskara?
Jú ætli það ekki.
Það hafa blásið ferskir vindar um Samfylkinguna síðan Kristrún tók við formennskunni og stuðningur við flokkinn aukist.
Líklega kann a.m.k. hluti kjósenda, vel að meta, þegar saman fer skörp greining og vönduð orðræða, ásamt raunhæfum tillögum til lausnar á þeim málum, sem til umræðu eru.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli