Deilt um keisarans skegg?
Hvenær er flokkur stjórnmálaflokkur og hvenær ekki, það er efinn þessa dagana.
Morgunblaðið hefur að undanförnu staðið fyrir umræðu um, að ,,Flokkur fólksins” sem svo er kallaður af meðlimum hans, sé ekki stjórnmálaflokkur, heldur félagsskapur fólks sem boðið hefur sig fram til starfa á Alþingi.

,,Rétt skal vera rétt”, eins og þar stendur en fram hefur komið að vegna þess að flokkurinn umræddi sé ekki skráður sem stjórnmálasamtök, eða væntanlega ,,flokkur” með ,,stjórnmála” nafnbót, þá eigi hann ekki rétt á greiðslum þeim sem flokkar fá, þ.e.a.s. ef þeir ná að fá fulltrúa á Alþingi í til þess gerðum kosningum.
Hvenær er flokkur stjórnmálaflokkur og hvenær ekki, það er efinn!
Ritari telur rétt að taka það fram að hann er ekki félagi í umræddum flokki og sér ekki fram á að vera á leiðinni með að verða það.
Augljóst má vera að hér er verið að deila um keisarans skegg, því flokkur sem nær að fá kosna fulltrúa á Alþingi, hlýtur að vera stjórnmálaflokkur í raun.
Hvort sem mönnum líkar við Flokk fólksins eða ekki kemur málinu ekki við, að mati þess sem þetta skrifar og hann hefur ekki fram til þessa haft hugmyndaflug til að geta ímyndað sér að mál málanna sé, að orðið ,,stjórnmála”, þurfi að vera kirfilega notað við ,,skráningu” félagsskapar af þessu tagi til að möppuflettarar geti skilið að um stjórnmálasamtök sé að ræða.
Á Alþingi eru flokkur sjálfstæðis- framsóknar- samfylkingar- pírata- viðreisnar o.s.frv. og enginn hefur efast um það fram til þessa að um stjórnmálflokka sé að ræða og skiptir þá engu hvaða álit menn hafa á umræddum samtökum.
Það skal tekið fram að undirritaður er ekki lærður í lögum en hvað sem því líður og hvaða álit sem hann hefur á umræddum Flokki fólksins sem svo kallar sig, þá hlýtur hann að vera stjórnmálaflokkur, fyrst hann hefur náð kosningu til Alþingis og náð að vera með ráðherra í ríkisstjórn.
Lögin segja víst annað, en er það ekki dálítið sérstakt svo ekki sé meira sagt, að flokkur sem ekki er stjórnmálaflokkur megi sitja í ríkisstjórn og á Alþingi og taka þátt í því að setja lög?
Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að ritari er ekki í Flokki fólksins, sem svo kallar sig og er hreint ekki á leiðinni þangað!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli