Friðarviðræður í Tyrklandi

 Fréttir hafa borist af því Putin hafi stungið upp á að samið verði um frið milli Úkraínu og Rússlands í Tyrklandi.

Rússnesk stjórnvöld leggja til að samninganefndir Rússlands og Úkraínu komi saman og ræði um frið milli landanna.

Myndir teknar ar vef Russya Today

Hvort af verður, ræðst væntanlega af viðbrögðum úkraínskra stjórnvalda og þeirra sem að baki þeim eru.

Niðurlag fréttarinnar á Russya Today er svohljóðandi í lauslegri þýðingu:

,,Pútín sagði að stjórnvöld í Moskvu væru reiðubúin til viðræðna, sem miðuðu að því að ráðist yrði að rót átakanna og sagðist hafa beðið Ankara um að hýsa viðræðurnar. Til upprifjunar: Árið 2022 náðu stjórnvöld í Moskvu og í Kænugarði saman drögum að friðarsamningi í viðræðum sem fram fóru í Istanbúl. Þar samþykkti Úkraína hlutleysi og hernaðarlegar takmarkanir, en á móti buðu Rússar brotthvarf herliðs og öryggistryggingar. Kænugarður gekk ekki að þeim samningnum vegna þrýstings frá London og Zelensky gaf síðar út tilskipun um að banna sjálfan sig frá öllum samningaviðræðum við Pútín!“

Það kann ekki góðri lukku að stýra ef menn banna sjálfa sig frá viðræðum í deilum, hvort sem er milli þjóða eða einstaklinga, en miðað við það sem heyrst hefur og sést hjá Zelensky, getur vel verið að þetta sé rétt.

Sé tekið mið af því sem ritari hefur séð frá fyrri tíð þess ágæta manns, þá er honum flest tamara en að taka lífinu og tilverunni alvarlega.

Að þessu sögðu er óskandi að hann bregði sér úr hlutverkinu og yfir í alvöruna og gefi sér tíma til að hugleiða málið.

Það er að segja, ef þeir sem að baki honum standa, gefa honum heimild til að fara úr hlutverkinu.

Við þetta er því að bæta að samkvæmt rússneskum fréttum fagnar Trump þessari hugmynd og segir á samskiptavef sínum:
 

,,…a potentially great day for Russia and Ukraine! Think of the hundreds of thousands of lives that will be saved as this never ending ‘bloodbath’ hopefully comes to an end.”“

Komi þessir menn sér saman um að forða frekara blóðbaði, þá er fyllsta ástæða til að fagna því.

Ferðagleði og sjórnun

 Niðurstaðan eftir síðustu kosningar til Alþingis varð, að mynduð var ný ríkisstjórn með nýju fólki sem hefur að mörgu leiti aðra sýn á þjóðfélagsmálin en fyrri ríkisstjórn hafði. 

Stjórnina leiða þrjár konur frá jafnmörgum flokkum og a.m.k. sumum, þykir sem nýir og ferskir vindar leiki um í stjórnmálunum. 

Fyrri ríkisstjórn var löngu sprungin á limminu – enda gekk hún aldrei á öllum ef svo má segja – og sem að stóðu þrír stjórnmálaflokkar sem segja má að hafi spannað nokkuð breitt svið, eða allt frá Sjálfstæðisflokknum og yfir í Vinstri græna og Framsóknarflokknum stungið þar inn á milli. 

Sjálfstæðisflokkinn þekkjum við flest og Framsóknarflokkinn líka, enda hafa þeir flokkar verið til lengur en elstu menn muna, en fráleitt er að nöfn flokkanna standi fyrir það sem þeir eru í raun enda ná nöfnin yfir breitt svið.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið neitt sérstaklega framsækinn svo elstu menn muni, sem er í sjálfu sér ágætt m.v. hve gamaldags hann er í viðhorfi sínu til atvinnuvega og byggðamála.

Öll viljum við sjálfstæði fyrir okkur sjálf og annað fólk og þjóðina okkar að sjálfsögðu og því segir nafn Sjálfstæðisflokksins okkur ekkert og hafi það einhverntíma verið svo, þá er það löngu liðið. 

Með þessum tveimur flokkum var síðan í ríkisstjórn flokksundur sem kallað er Vinstri- græn, sem er ekki til vinstri en vel getur verið að hann sé ,,grænn“ en eins og við vitum eru margir grænir án þess að það teljist vera eitthvað til að hælast yfir.

Stjórnin var sem sagt sett saman úr ólíkum öflum, þ.e. frá hægri (Sjálfstæðisflokknum) og til vinstri (Vinstri grænum) þ.e. hagsmunagæsluflokki hinna ríku og flokki hinna vinstrisinnuðu græningja sem voru með óljósa stöðu í tilverunni, en kenna sig við vinstri til að gefa í skin að um ,,félagshyggjuflokk” sé að ræða.

Síðan er ,,græn” hnýtt aftan við, í þeim tilgangi væntanlega, að höfða til fólks sem telur sig hafa jákvæðari afstöðu til náttúrunnar en aðrir. 

Grænna getur það varla verið!

Framsóknarflokkurinn fékk að vera með hinum tveimur en fyrir hvað hann stendur er afar óljóst, en þó má svo skilja sem hann vilji sækja fram en hvert og fyrir hverja vitum við ekki og flokksmenn líklega ekki heldur. 

Niðurstaðan af þessari samsuðu varð eins og vænta mátti, að það var fyrst og fremst gaman að vera í ríkisstjórn sem gerði sem allra minnst og ætli ferðalag með flugvélarfarm að ,,umhverfisáhuga”– fólki, til Abu Dabi til að sækja þangað hreina og tæra náttúru, lýsi ekki einna best ríkisstjórn sem bæði var búin að missa veruleikaskinið og gleyma því til hvers hún átti að vera.    

Framsóknarflokkurinn er trúlega til þess að gera góður í samstarfi, þ.e.a.s. ef þeir sem með honum eru vilja hugsa um kýr og kindur og bregða sér á hestbak á haustin og kannski á vorin líka en tæplega er það meira. 

Við er tekin stjórn hinna þriggja kvenna sem ætla að gera stóra hluti og eru a.m.k. duglegar að ferðast.  

Við vonum hið besta og að þær gleymi ekki þjóð sinni og auki veru sína með fólkinu sem valdi þær til forystu, í þeirri von að nú myndu blása nýir vindar.

Það má best greina af því hve fúl núverandi stjórnarandstaðan er, að það var kominn tími til stjórnarskipta og við vonum því að þær muni eftir þjóð sinni og skilji hvers vegna hún valdi þær til þess að veita henni forystu og leiðsögn.

Að sú leiðsögn verði sótt til annarra landa kemur í ljós en er hreint ekki víst. Hitt er ljóst að það er heilmikið sem laga þarf eftir sjö ára setu fyrrverandi stjórnarflokka og að því þarf að snúa sér.

Ekki eru allar ferðir til fjár...

 

Þótt ég langförull legði…

Allt er það vont og verra en verst – sagði karlinn

Zelensky er í fýlu og hafnar þriggja daga vopnahléi, geimfar sem átti að fara til Venusar fyrir langa löngu er á leiðinni til Jarðar, en enginn veit nákvæmlega hvar eða hvenær það mun lenda.

Þessir fuglar fljúga frjálsir um loftin blá og broddi hefur það bara gott!

Heimildin sagði frá því um daginn, að geimfar, sem átti að fara til Venusar en náði ekki þangað, sé hugsanlega á leið til Jarðarinnar aftur og líklega er því best að halda sig í loftvarnarbirgjum til að vera öruggur, því enginn veit með vissu hvar það mun lenda!

Verst af öllu er þó, að veðurfræðingar eru farnir til annarra starfa í USA, eða í langþráða hvíld og ætli það sé  ekki Trump að kenna, eins og flest annað þessa dagana.

Hvers vegna hinn úkraínski Zelensky fór í óstuð og hvort það tengist hinum fljúgandi furðuhlut er ekki gott að segja, en á honum er svo að skilja sem þriggja daga hlé á manndrápum sé ekki nógu markviss aðgerð á óvissutímum.

Fer þá að verða vandséð hvernig  koma á mönnum að samningaborði ef ekki má taka eins og svo sem eina helgarpásu í manndrápum í þeim tilgangi að reyna að þoka málum í skárri farveg.

Auk alls þessa er víst veðrið að angra þá fyrir vestan sem vonlegt er, þegar enginn er til að hafa stjórn á því!

Þarlendir veðurfræðingar munu vera komnir í einhverskonar verkfall en það gerir veðrið ekki svo vitað sé.

Varðandi geimfarið heimakæra og heimfúsa, sem átti að fara til Venusar fyrir löngu síðan er það að segja, að minningar vakna frá fyrri tíma sem geimfarið er vissulega líka frá – minningar um geimfar sem sent var til  ástarplánetunnar, sveif niður á yfirborðið og sendi síðan upplýsingar þaðan og til Jarðar.

Farið sem nú er á heimleið, en samt ekki endilega þangað sem því var skotið frá í upphafi, ætlar sér til Jarðar og gerir ekki mun á bláu og rauðu, né öðrum litum þar á milli, þegar og ef, það svífur inn til lendingar sem gæti orðið með brauki og bramli.

Eins gott að Biden verði hvergi nálægur, því honum er voða, voða, voða, illa við svífandi furðuhluti a.m.k ef þeir koma í grennd við guðs eigin land en vonandi koma þá skötuhjúin Mulder og Skully honum til hjálpar, ef svo fer að það berst inn á það helga svæði.

Ástarstjarnan reyndist ekki spennandi staður til að vera á af ýmsum ástæðum sem ekki verða taldar upp að öðru leiti nema því, að útsýnið var ekki upp á það besta og andrúmsloftið ekki sérlega gott en það náði reyndar aldrei svo langt að sannreyna það.

Til stendur að minnast sigursins á nasistum

 Rússar misstu rúman hálfan þriðja tug milljóna karla og kvenna í seinni heimstyrjöldinni. Þeir minnast þess og hafa fulla ástæðu til og þeir þakka Bandaríkjunum framlag þeirra til að sigra þýska nasista og bandamenn þeirra.

Rússar munu halda sigurhátíð þann 9. maí næstkomandi, til að minnast sigursins yfir nasismanum. 

 Leiðtogum margra þjóða hefur verið boðið til hátíðarhaldanna . 

Það er ekki undarlegt að þjóð sem fórnaði um 26 milljón manns til að knýja fram sigur á helstefnunni haldi minningunni til haga. 

Það kann að vera að til séu þeir sem láta sér fátt um finnast, er þeir heimsækja t.d. minningarsafnið í Pétursborg um seinni heimstyrjöldina en varla eru þeir margir. 

Heimsstyrjöldin seinni sem knúin var áfram að þýskum vitfirringi og dindilmannskap hans og formuð í stjórnmálastefnufyrirbrigði sem kallað var ,,nazismi”. 

Við þekkjum hvernig unnið var að útrýmingu gyðinga samkvæmt þeirri stefnu og ekki er ofmælt að mannslíf, hvort heldur þau voru þýsk eða annarra þjóða, voru lítils metin. 

Um þetta hafa verið ritaðar margar bækur sem ekki verður reynt að telja hér upp. 

Það vekur athygli að ýmsir leiðtogar hafa ekki í sér burði, til að þiggja boðið um að mæta á hátíðarhöldin. 

Gera má ráð fyrir að það sé vegna Úkraínu- málsins, sem eflaust vekur upp ýmsar minningar meðal Rússa. 

Það ætti að vera þekktara en svo, að þörf sé að rifja upp, að Úkraínumenn unnu með Þjóðverjum og þóttu síst minni böðlar en Þjóðverjarnir sjálfir. 

Um það má fræðast ef vilji er til, t.d. í bókinni ,,Ég lifi” þar sem sagt er frá lífsreynslu ungs pilts sem fékk að kynnast böðlunum og vinnubrögðum þeirra. 

Honum þóttu Úkraínarnir síst betri en þeir þýsku en tókst með ótrúlegri þrautseigju að komast lifandi úr útrýmingarbúðum nasistanna. 

Þegar þetta er haft í huga er ekki undarlegt að rússneska þjóðin sé á verði þegar hún verður vör við ný- nasista. 

Ætli það geti ekki verið að minnsta kosti hluti af ástæðunni fyrir því, að tekist er á um rússnesku héruðin á mörkum ríkjanna Rússlands og Úkraínu? 

Og vegna þess að Krímskagi er stundum nefndur í því sambandi, þá má minnast þess að hann hefur tilheyrt Rússlandi um aldir þó með hléum sé og þrátt fyrir afskipti og hernað úr vestri og suðri til að komast yfir skagann. 

Pétur mikla dreymdi um að brúa Kerssundið. Nú er búið að gera það og afar litlar líkur eru á að Rússar fáist til að afhenda Úkraínum skagann.  

Við þetta má síðan bæta, að Rússneskur miðill hefur greint frá þróun skotflaugar sem knúin er kjarnorku, sem vonandi verður ekki að veruleika, þó svo sé að sjá sem að skammt sé í að hún verði að raunveruleika.

1. maí

 Það kennir margra grasa í Morgunblaði dagsins í dag og er þar fyrst til að taka, að teiknari blaðsins tekur fyrir eitt af furðumálum samfélagsins, það er að segja, ,,hlandspennumálið" voðalega sem upp er komið hjá leigubílstjórnum við Flugstöðina í Keflavík.

Við vonum að þeim takist að halda í sér þar til bænasönglið verður yfirgengið, en hvort svo verður veit víst enginn, því þau mál m.m. hafa farið úr böndunum í slímusetu fyrrverandi ríkisstjórnar.

Hvort svo fer, að menn þurfi að mæta með bleyju í vinnu sína, vitum við ekki en vonum það besta!

Hernaðarbrölt og skak er líka tekið til umfjöllunar í blaðinu svo sem sjá má af myndunum sem þar eru og eflaust líka í texta, hafi menn hafa áhuga á, að fræðast frekar.

Tilefnið mun vera að menn hafa verið að ,,æfa" sig á hertólum við strendur landsins, því ógnir steðja að, úr austri og vestri og suðri og norðri.

En það er ýmislegt fleira og skemmtilegra sem fjallað er um og ef til vill hefði maður átt að byrja þar.

Þannig er mál með vexti að á frídegi verkalýðsins er vel við hæfi að fjallað sé um formann jafnaðarflokksins þ.e. Samfylkingarinnar.

Kristrún Frostadóttir hefur komið inn á svið stjórnmálanna sem ferskur vindur, en það hefur líka gert önnur kona sem nú er formaður Sjálfstæðisflokksins.

Við gerum ráð fyrir að hún verði tekin fyrir næst, þó ekki sé nema til að jafnvægis sé gætt í pólitísku tilliti.

Báðar eru þessar konur virðingarverðar og full ástæða er til að við þær séu bundnar vonir.

En það er fleira í blaðinu þennan dag og satt að segja er blaðið fullt að fróðleik.

Við staðnæmumst við frásögn af hagkerfaslagnum mikla sem Trump hinn trompaði hleypti af stokkunum fyrir skömmu.

Inngrip Trumps hefur áhrif á flest um veröld alla, eða allt frá því að setja hagkerfi heimsins á hliðina og yfir í að gefa vonir um að friður verði milli Úkraínu og Rússlands.

Við vonum það besta og reynum að horfa björtum augum til framtíðarinnar sem er sífellt handan við hornið!

Treystum því að menn fari að ræða málin af yfirvegun og rósemi í stað þess sem verið hefur.

Uppáhald fyrrverandi íslenskra stjórnvalda Zelensky er sjálfsagt í mikilli klípu; er búinn með kjörtímabilið en engin leið er til að halda kosningar, þar sem enginn veit hvað er hvers og hvers er hvað í landi þar sem allt er á rúi og stúi.

Hluti þjóðarinnar er flúinn úr landi, landamerki eru og hafa engin verið á stórum köflum og flest það sem þarf í einu þjóðfélagi er í uppnámi.

Við sjáum hvað setur og lesum bókina Bjarmalönd, þó það sé alls ekki víst að það sé þess virði.

En langi mann til að vita hvar hægt er að finna bari austur þar, þá er bókin sæmilegur vegvísir, sem þó mætti stytta um ótal margar blaðsíður! 

Friðarviðræður í Tyrklandi

  Fréttir hafa borist af því Putin hafi stungið upp á að samið verði um frið milli Úkraínu og Rússlands í Tyrklandi. Rússnesk stjórnvöld leg...