Russya Today segir frá því að viðræðurnar muni fara fram næstkomandi miðvikudag og vísar í tilkynningu frá forseta Úkraínu (Zelensky).

Með fylgir mynd af Zelensky sem hér sést.
Friðarviðræðurnar sem haldnar voru síðast gengu ekki vel, þar sem deilt var aðallega um keisarans skegg og m.a. það hvort Putin myndi mæta til fundarins og að lokum hvers vegna hann hefði ekki komið!
Putin lýsti því yfir að hann kæmi ekki að sinni því ólíkt væri komið með þeim Zelensky og honum, þar sem Putin væri kjörinn forseti en Zelensky ekki.
Vonandi snúast væntanlegar friðarviðræður, sem halda á eftir nokkra daga, um eitthvað meira og uppbyggilegra en hver hittir hvern og hvenær.
Kröfur Rússa sem tíundaðar eru í frásögn RT eru fljótt á litið frekar eðlilegar en hvernig ganga mun að kveða niður nýnasismann sem þar er tilgreindur, er óljóst nema ef vera kynni að hægt yrði að finna honum nýtt nafn!

Annars er það einna nýjast í fréttum af þessu uppáhaldslandi íslenskra utanríkisráðherra að mótmælt hefur verið af krafti í Úkraínu og það svo að Zelensky hefur þurft að láta sem hann hafi endurskoðað hug sinn varðandi spillingarmál.

Klippurnar eru úr frétt Morgunblaðsins
Hvernig það mun ganga er ekki gott að segja en við vitum að leikarar geta brugðið sér í ýmis hlutverk og leikið einn í dag og annan á morgun.
Í þýska miðlinum DW er umfjöllun um málefni Úkraínu út frá öðru sjónarhorni en þar er verið að segja m.a. frá því hvernig smalað er í herinn, en svo virðist sem farið sé að sneiðast um í röðum þeirra sem eru á lausu og svo er komið að jafnvel flogaveikir svo dæmi sé tekið, eru kallaðir inn til herþjónustu.
En setið er við samningaborð í Tyrklandi og vonandi er svo komið að menn fari að sjá til sólar og nái því að semja um lok þessa hörmulega stríðs sem ekkert skilur eftir sig nema hörmungar líkt og önnur.
Hvenær mannskepnan með sinn stóra heila nær því að ræða sig til lausnar á deilumálum í stað þess að berjast um það sem um greinir, með tilheyrandi manndrápum og eyðileggingu, vitum við því miður ekki.
Íslenskt máltæki segir að ,,sjaldan valdi einn þegar tveir deila“ og er það mála sannast, en að þau gömlu sannindi verði höfð að leiðarljósi einhverntíma í framtíðinni er óvíst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli