Feysknar stoðir að bresta?

 



Það hriktir í ríkisstjórnarsamstarfinu samkvæmt því sem lesa má í Morgunblaðinu 12.4.2021.

Blaðamaður blaðsins fjallar um ,,sóttkvíarmálið“ og það er augljóst að farið er að gæta pirrings innan ríkisstjórnarinnar og pirringurinn er látinn hverfast um heilbrigðisráðherrann.

Á þessari skopmynd teiknara Morgunblaðsins má sjá hvað um er að vera; þingmaður úr mótþróadeildinni þjarmar að vísindamanni sem bendir á augljósar staðreyndir.

Hægt hefur verið að fylgjast með staðbundinni kergju sjálfstæðisþingmanna a.m.k. tveggja, þ.e. Brynjars Níelssonar og Sigríðar Á. Andersen og vel getur verið að kergjan nái lengra.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er hvergi dregið af og við skulum grípa niður í nokkrar glefsur og fyrsta dæmið sem við lítum á er eftirfarandi:

Þá ,,óskaði Morg­un­blaðið eft­ir því við heil­brigðisráðherra að fá af­hent öll gögn, sem legið hefðu til grund­vall­ar reglu­gerðinni (minn­is­blöð, grein­ar­gerðir, lög­fræðiálit), í sam­ræmi við ákvæði upp­lýs­ingalaga. Eft­ir ít­rek­un kom stutt svar frá ráðuneyt­inu um að beiðninni væri synjað, þar sem öll slík gögn hefðu verið lögð fyr­ir rík­is­stjórn­ar­fund. Morg­un­blaðið vill ekki una því að ráðherra geti eft­ir geðþótta og hent­ug­leik­um falið gögn úr stjórn­sýsl­unni með því einu að leggja þau á borð ná­lægt rík­is­stjórn­ar­fundi og hef­ur því kært ákvörðun­ina til úr­sk­urðar­nefnd­ar um upp­lýs­inga­mál.“

Hér mætast sem sagt stálin stinn. Morgunblaðið ,,óskar“ eftir gögnum, heilbrigðisráðuneytið ,,synjar“, Morgunblaðið ,,unir“ ekki ,,geðþótta og hentugleikum“ og hefur ,,kært.

Það er augljóst af þessum línum að innan Sjálfstæðisflokksins eru öfl sem eru til í að ganga langt til að klekkja á flokknum sem teymir ríkisstjórnina. Og þessu til viðbótar má minna á að í endurvöktum ,,Tíma“ þeirra í Framsókn er fullyrt að efnahagsstefnan sé framsóknar, nema hvað?

Það er unnið að því af samstarfsflokkunum tveimur að eigna sér það sem þeir telja að vel hafi tekist og það kemur ekki á óvart. Hitt kemur meira á óvart og það er hve langt ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins eru tilbúin að ganga í að grafa undan stjórnarsamstarfinu. En á það að koma á óvart þegar að er gáð?

Það er alls ekki víst. Flokkurinn er ekki vanur því að vera undirmálsflokkur í stjórnarsamstarfi, en það er hann núna. Vinstri græn fara með forsætisráðuneytið, umhverfisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið og það er það síðastnefnda sem liggur vel við höggi þessa dagana að mati a.m.k. sumra Sjálfstæðismanna, og það er þekkt kænska að ráðast á varnarvegginn þar sem hann er veikastur fyrir.

Og gert er út á frelsi, sumra vel að merkja og frelsið hjá Sjálfstæðismönnum gengur út á það að menn fái að valsa óhindrað um samfélagið þótt verið geti að þeir séu smitaðir af illviðráðanlegri veirupest.

Frelsi yfir öllu, svo vitnað sé í og snúið sé upp á gamalt og útjaskað slagorð sem fundið var upp í Evrópu fyrir margt löngu. Menn skulu hafa frelsi til að smita samborgara sína af bráðsmitandi pest!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir mörgu sem mönnum hefur ýmist fundist vera gott eða slæmt og flokknum leið vel í helmingaskiptafyrirkomulaginu gamla en nú er svo að sjá sem sumum sjálfstæðisflokksmönnum sé farið að líða illa með að vera í ríkisstjórn, sem ekki er undir óskoraðri yfirstjórn þeirra sjálfra.

Hvort ríkistjórnin lifir fram að fyrirhuguðum kosningum fer trúlega eftir því hve langt Vinstri græn eru tilbúin að ganga til að svo geti orðið; hve lengi þau eru tilbúin til að láta ausa yfir sig ónotum úr skotgröfum Sjálfstæðisflokksins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...