Nýtt félagskerfi BÍ samþykkt einróma?




Í greinargerð um nýtt skipulag félagskerfis landbúnaðarins má lesa um hvernig hugmyndin er að félagskerfið verði og ef það hefur verið samþykkt eins og því er stillt upp er niðurstaðan þessi:

Sauðfjárbændur ættu að geta verið öruggir um að formaður Bændasamtakanna verði úr þeirra röðum hér eftir sem hingað til með núverandi undantekningu - sem er að núverandi formaður BÍ er úr röðum garðyrkjubænda - þ.e.a.s. ef þeir (sauðfjárbændur) koma sér saman um formannsefni.

Samanber eftirfarandi úr greinargerð um nýtt skipulag á félagskerfi landbúnaðarins:

IV. Stjórn Bændasamtaka Íslands

,,[...] Formaður samtakanna er kosin[n] sér í rafrænni kosningu meðal félagsmanna sem gildir að hálfu á móti kosningu meðal fulltrúa í Fulltrúaráði BÍ."
Í Fulltrúaráði BÍ verða 45 fulltrúar sem skiptast þannig að ferðaþjónustan fær 2, hrossaræktin 5, nautgriparæktin 10, sauðfjárræktin 8, skógareigendur 3, eggjabændur 2, garðyrkja 4, geitfjárrækt 1, kjúklingabændur 2, loðdýrabændur 2, svínabændur 2, æðarbændur 2, beint frá býli 1, Vor 1 og ungir bændur 1.
Síðan segir að hver búgrein fái fulltrúa í stjórn BÍ samkvæmt eftirfarandi skiptingu:

Nautgriparækt 1, sauðfjár og geitfjárrækt 1, hrossarækt 1, garðyrkja 1, svínabændur, alifugla og eggjabændur 1(!), skógrækt 1, loðdýra og æðarrækt 1 og að lokum ferðaþjónustu, lífrænir og smáframleiðendur 1.

Geitfjárbændur eiga sem sagt að treysta fulltrúa sauðfjárbænda til að fara með sín mál. Eggjabændur eiga að treysta svína og/eða alifuglabændum til að gæta sinna hagsmuna eða öfugt! Loðdýra og æðarrækt fer saman með einhverjum yfirskilvitlegum hætti og að lokum kemur rúsínan í pylsuendanum: Bændur sem eru fyrir í gegnum búrekstur fá aukna aðild út á ferðaþjónustu sem þeir stunda með búrekstri.
Klikkt er síðan út með að telja til lífræna og smáframleiðendur og gefa þeim kost á einum fulltrúa ásamt ferðaþjónustubændunum sem vel má spyrja, hvort ekki eigi að vera innan Samtaka ferðaþjónustunnar, með þann hluta af sinni starfsemi.

Bændasamtökin eru búin að vera félagslegur bastarður til nokkuð langs tíma og vonir um að á því yrði breyting eru brostnar.

Hvernig menn gátu samþykkt svona fyrirkomulag þarfnast skýringa og að svínabændur, alifugla og eggjabændur skyldu taka þátt í þessari leiksýningu vekur undrun.

Svo er náttúrulega sá möguleiki í stöðunni, að plaggið sem hér er vitnað til hafi ekki orðið að neinu og að raunverulegar samþykktir séu einhverjar allt aðrar.

En sem sjá má á úrklippunni úr Bændablaðinu sem er hér fyrir ofan þessa samantekt, er það ekki mjög líklegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...