Vel farið með fé?


Svo sem sjá má á myndinni hér til hliðar, er þar glaðbeittur landbúnaðarráðherra að úthluta framlögum úr ríkisjóði sem stofnað er til vegna COVIT-19.

Við sjáum líka að um er að ræða tæpan milljarð sem ætlaður er sauðfjárbændum og nautgripabændum sem fá smá afgang. Hvers vegna þeir fyrrnefndu eru í svona mikilli þörf fyrir aukið framlag úr ríkissjóði vegna COVIT-19 er óútskýrt. Sem betur fer hefur pestin ekki herjað neitt meira á þá en aðra í þessu landi, jafnvel minna vegna búsetu þeirra.

Það sem vekur sérstaka athygli er að framlag vegna ,,gæðastýringar" í sauðfjárrækt er aukið sérstaklega og af því má ráða að ,,gæðastýring" hafi aukist til mikilla muna í pestarfárinu og er gott til þess að vita að þrátt fyrir allt komi eitthvað gott út úr pestinni, nú eða þrátt fyrir hana, því eins og flestum er kunnugt hefur gæðastýring þessi ekki fram til þessa verið annað en nafnið tómt. Hvort nú er um annað og meira að ræða en tómleika vitum við ekki, en hugsanlega er búið að finna nýjan fimmhundruð og sextíu og tveggja milljóna reit til að haka í á nýju blaði og þar með sé ,,gæðastýringin" fullkomnuð. 


Við höfum haft af því fréttir að ekkert páskalamb hafi  verið á borðum Stjörnu-Sævars eftir að hann komst að því hvernig beit er hagað á hálendi landsins.

Hér til hægri er greinarstúfur sem prófessor við                Landbúnaðarháskólann skrifaði eftir að formaður Bændasamtakanna ritaði í leiðara eitthvað á þá leið að vísindamenn vildu láta skera niður allan búfénað í landinu. 

Ólafur Arnalds kannast ekki við að hafa haldið neinu fram í þá veru, en kannast vel við að hafa lagt til að beit væri stjórnað svo að hún yrði ekki til skaða.

Ólafur hefur unnið þrekvirki í að fletta ofan af því styrkjakerfi óráðsíunar sem viðgengst varðandi búgreinina sem nýtir sér örfoka hálendi landsins og ef rétt er munað var það hin furðulega ,,gæðastýring" sem einna lengst var móast við að greina frá. 

Nú liggur opið fyrir alþjóð að fletta því upp hver fær hvað og er það töluverð nýjung.

Svo dæmi sé tekið getur maður þar lesið, hvaða tómstundabændur það eru sem eru með nokkrar kindur sér til gamans og fá framlög af margvíslegasta tagi greidd með þeirri framleiðslu úr ríkissjóði.

Ekki er vitað til að skattfé sé notað til meðlagsgreiðslna með hundahaldi né katta. Ekki heldur til þeirra sem halda hross, kanínur, páfgauka, skrautfiska né önnur dýr sér til skemmtunar og eða nytja. Sé það gert hefur undirritaður ekki veitt því athygli.

En alla vega er gott til þess að vita, að til sé ráðherra sem veit hvernig best er að ráðstafa fjármunum þjóðarinnar. Og við getum glaðst yfir því, vitandi að mannskapurinn sem með honum stendur er sama sinnis og vill eingöngu verja fjármunum þjóðarinnar í vel valin verkefni svona rétt fyrir kosningar.

 




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...