Um flækjustig nútíðar og spillingu fortíðar

                                                               


Á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 14.8.2021 skrifar Björgvin Víglundsson verkfræðingur um kerfið sem komið hefur verið upp hér á landi til þess að tefja og gera fólki erfiðara fyrir við að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Snemma í grein sinni segir Björgvin: 

,,Stjórn­völd eru stöðugt að þyngja lög og reglu­gerðir í sam­ráði við hags­munaaðila sem veld­ur stöðugt aukn­um bygg­ing­ar­kostnaði ásamt því að vera allt of ströng, langt um­fram meðal­hóf þótt sé miðað við ís­lensk­ar aðstæður."

Stefnan virðist hafa verið mótuð þannig, að auka skuli svo sem unnt er veg ,,möppudýranna" á kostnað almennings, líklega til að búa sem flestum þokkalega innivinnu á góðum kjörum. 

Björgvin ber saman hvernig staðið er að þessum málum hér á landi annars vegar og í Noregi hins vegar, og greinir frá því að reglugerðir séu enn einfaldari í Svíþjóð og Danmörku:

,,Að byggja eigið hús í Nor­egi er tölu­vert ein­fald­ara en hér­lend­is, menn und­ir­rita ábyrgðar­yf­ir­lýs­ingu fá sér raf­virkja og pípu­lagn­inga­mann sem eru viður­kennd­ir. Teikn­ing­ar eru ein­fald­ar og skilað að öllu jöfnu á einu á litlu A4-blaði. Ekki er um flók­in skipu­lags­ferli að ræða eða sein­virk af­skipti op­in­berra aðila. Menn geta breytt, byggt við, sett lítið auka­hús á lóð og skipt eign­um sín­um með ein­föld­um til­kynn­ing­um."

Lestur greinarinnar vekur upp minningar!

Þegar undirritaður var að byggja, fyrst íbúðarhús og síðan gripahús og bílskúr, á áttunda áratugi síðustu aldar, var rætt við byggingafulltrúa á svæðinu, fenginn verkfræðingur til að hanna mannvirkið og málið síðan afgreitt. 

Byggingarfulltrúinn, verkfræðingurinn og undirritaður ræddu málin, komust að niðurstöðu og framkvæmdir hófust eftir að búið var að fjármagna verkið með því steinrunna, hagsmunagæslutengda, spillta og í raun gjaldþrota banka- og sjóðakerfi sem þá var.

Fyrir nú utan það að oft voru menn á bakvið tjöldin, sem kipptu í spotta til að hindra að þeir sem ekki mökkuðu rétt við hagsmunagæslusamtök, s.s. þáverandi bændasamtök, fengju úrlausn sinna mála. Jörmuðu og bauluðu í skúmaskotum kerfisins sem þá var, til að gera sem unnt var til að hindra breytingar á búskaparháttum í átt til frjálsræðis og nýrra tíma. 

Grófu undan og spilltu og ætluðust síðan til að upp um þá yrði flaðrað þegar þeir voru búnir að koma sínu fram, það er að segja þegar þeim tókst að fá sitt fram sem of oft gerðist.

Nú er aðrir tímar sem betur fer og ef til vill þurfti samfélagið á að halda spillingunni og sukkinu sem leiddi til hins svokallaða Hruns!

Hvað sem því líður er peningakerfið eitthvað skárra, ef ekki hreinlega mun betra en það sem þá var, en í staðin fyrir steingerðann og spilltann ömurleikann er kominn frumskógur af pappírsmusterum og flækjufótarreglugerðum á vegum hins opinbera, sem þar til menntaðir ,,sérfræðingar" stýra.

Var það til þess sem við fetuðum slóðina fram á veg og endurbættum kerfisflækjur fortíðarinnar, að í staðinn kæmi annað og lítt betra umsagnar-, mats-, auglýsinga og andmæla flækjustig sem stundum tekur mun lengri tíma að komast í gegnum, en að koma viðkomandi framkvæmd í endanlega mynd?

Núna er staðan sú, að of á tíðum tekur það jafnlangan tíma ef ekki meiri, að komast í gegnum kerfið sem komið hefur verið upp, að því er virðist til þess eins að tefja fyrir framgangi viðkomandi framkvæmdar, en þann tíma sem það síðan tekur að koma mannvirkinu upp.

Auglýsingar, umsagnir og kæruferli, þar sem oft er við að eiga einstaklinga sem haldnir eru sérstöðu í tilverunni er við að eiga.

Yfir þessu er síðan japlað og mumrað út og suður vikum og mánuðum ef ekki árum saman, þangað til framkvæmdaleyfi að lokum fæst. Ef það þá fæst!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...