Að hætta og hætta ekki samt

 Rætt er við þingmanninn Guðjón Brjánsson í Kjarnanum í viðtali sem birtist 2.8.2021.

Þar fer hann yfir það, sem að hans mati mætti betur hafa farið í starfi Samfylkingarinnar.

Það er fremur sjaldgæft að þingmenn sýni þá hreinskilni að fjalla um það sem betur hefði mátt fara í starfi flokka þeirra og trúlega enn sjaldgæfara að það sé gert í aðdraganda kosninga.

Guðjón telur að Samfylkingin þurfi að hugsa sinn gang og tínir til nokkur atriði til að styðja við þau orð. 

Atriðin sem Guðjón nefnir til sögunnar eru:

Aldraðir, öryrkjar, barnafólk og stórir þættir í heilbrigðisþjónustunni sem taka hefði þurft fastari tökum.

Orðrétt segist Guðjón þegar hann er spurður hvort Samfylkingin muni taka þessi mál föstum tökum:

„Ég vona það, ég er ekki sannfærður, en ég vona það.“

Fráfarandi þingmaður flokksins virðist ekki geta gert meira en að ,,vona" að jafnaðarmannaflokkurinn Samfylkingin taki þessi mál föstum tökum.

Sé mat Guðjóns rétt er Samfylkingin ekki í góðum málum, því hér er um grundvallarsjónarmið að ræða í flokki sem kennir sig við jafnaðarstefnu.

Guðjón nefnir atriði í viðtalinu sem varða störf Alþingis sem ekki séu í góðum farvegi að hans mati og þar ber einna hæst alræmda framkomu Miðflokksins, þegar hann hélt þinginu frá hefðbundnum störfum með málæði sem seint mun gleymast.

Eða er það ef til vill gleymt sem og aðrar ótrúlegar uppákomur þess makalausa flokks? 

Ýmislegt bendir til þess, svo sem þegar fólk sem gert hefur sig gildandi í almennri umræðu um mál sem snúa að málefnum atvinnuvega og lýðheilsu gengur til liðs við flokkinn og gerir sig þar með óvirk í umræðunni. 

Upphlaupsmál Samfylkingarinnar á Alþingi í seinni tíð hafa ekki eflt traust á flokknum. 

Þegar rokið er fram með órökstuddar kröfur um að lögð verði niður atvinnustarfsemi s.s. eldi hryssna til blóðtöku, útrýming minkabúa og þingsályktunartillaga sem undirrituð var af öllum þingmönnum flokksins um að menn einbeita sér að jurtaáti, sýnir það ekki flokk sem er í yfirvegaðri stjórnmálabaráttu. 

Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að íslensk stjórnmál án virks, víðsýns og öflugs jafnaðarflokk eru ekki á góðum stað. 

Það eru miklar kröfur gerðar til þeirra sem veljast í forystusveitir stjórnmálaflokka, þó vissulega sé það líka misjafnt svo sem hér hefur komið fram. Undir þeim kröfum þurfa flokkarnir og fólkið sem flokkana leiðir að standa.

Að svo sé ekki alltaf er ekkert einsdæmi og engir,  hvorki núverandi né fyrrverandi stjórnmálaflokkar, hafa alltaf og ævinlega staðið undir öllum væntingum. Að fráfarandi þingmenn hefji sig upp og lýsi því sem betur hefði mátt fara í störfum flokkanna segir okkur að ekki var allt svo sem þeir vildu meðan þeir sátu sem fulltrúar flokka sinna.

Eða, sem vel getur líka verið möguleiki, að þeir stóðu ekki í stykki sínu meðan þeir voru í hópi þingmanna. 

Hvort svo var varðandi Guðjón Brjánsson verður ekki fullyrt hér, en gera má ráð fyrir að tíminn muni leiða það í ljós. 

Guðjón sagði m.a. í viðtali við Kjarnann þann 17.3.2021 um ástæðu þess að hann hætti á þingi:

,,„Mig langar að eyða meiri tíma með minni fjölskyldu og fylgjast með barnabörnunum dafna og þroskast sem ég hef ekki haft nægilegan tíma til að gera,“"

Nú er svo að sjá sem ástæðurnar fyrir brotthvarfi þingmannsins séu mögulega fleiri.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...