Að vera í viðskiptasambandi við almættið



 „Við getum ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við guð og það á ekki að vera í samhengi heilags skírnarsakramentis,“ var sagt á kirkjuþingi sem haldið var fyrir nokkrum dögum.

Í Fréttablaðinu var frásögn af samkomunni og augljóst má vera að ,,andinn" var til staðar en trúlega hefði hann mátt vera betur stilltur og stemmdur.

Við sem ekki vorum á kirkjuþingi erum vitanlega ekki dómbær á almættið, né á tenglana sem notast er við til að stinga okkur hinum venjulegu og óprestlærðu í samband við það.

Það er ef til vill ekki viðeigandi að nefna kol í sambandi við þessa samkomu en varla verður hjá því komist og það hitnaði sem sagt í kolunum hjá guðsmönnunum.

Og Fréttablaðið segir frá því að prófessor á kirkjuþingi hefi verið að stunda sérhagsmunagæslu.

Átti einhver von á öðru? 

Líklega, því við gerum ráð fyrir að prestskapurinn sé það sem kallað er ,,köllun".

Ekki er það samt alveg víst að svo sé og vel getur verið að um sé að ræða eftirsókn eftir þægilegri og líkamlega léttri vinnu.

,,Við getum ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við guð og það á ekki að vera í samhengi heilags skírnarsakramentis,“ sagði séra Gunnlaugur Garðarsson á kirkjuþingi í gær þar sem rædd var tillaga um að afnema í áföngum gjöld vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar."

Það er hugsað djúpt á kirkjuþingi og niðurstaðan varð: að það sé ekki hægt að stunda bisness við guð!

Og andinn hefur veri góður á fundinum:

,,„Þessi frávísunartillaga er ein ljótasta tillaga sem ég hef séð á kirkjuþingi síðan ég kom hérna inn 2010. Það er svo grímulaust farið að því að verja eigin fjárhagshagsmuni,“ sagði Steindór. „Að níu af tólf prestum á kirkjuþingi hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en þetta, það kemur mér á óvart.“"

Og þar með er komið nóg fyrir okkur sem ekki erum innvígð og þroskuð í guðlegum fræðum og boðskap!

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að farið hafi verið út af sporinu og guð hafi ekki verið á kirkjuþinginu; hafi setið heima og fylgst með úr fjarlægð.

Hvað honum fannst um framgöngu umboðsmanna sinna hér á Jörðinni fáum við víst seint að vita, fyrst sambandið er slitnað.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...