Fuglaveiðar - rjúpnaveiðar

 

Fuglaveiðar - rjúpnaveiðar

Ole Anton Bieltved skrifar um rjúpnaveiðar í Fréttablaðið. Efni greinarinnar er áskorun til umhverfisráðherra um að ekki verði aflétt friðun rjúpnunnar, en til stendur að veita leyfi fyrir rjúpnaveiðum, þrátt fyrir að stofninn sé í sögulegri lægð!

Málið liggur á borði umhverfisráðherra og rjúpnaveiðimenn munu bíða spenntir eftir niðurstöðunni og það gerum við líka sem viljum rjúpnastofninum vel.

2021-10-20 (2)

Hver verður víst að hafa sinn smekk fyrir því hvað haft er á borðum á jólunum. En hætt er við, að þegar það sem áður hefur verið haft á borðum í tilefni hátíðarinnar, er endanlega uppurið og ófinnanlegt, að þá verði annað hvort að breyta til, eða fresta jólunum um óákveðinn tíma!

Sá sem þetta ritar býr í Flóanum í Árnessýslu og hafi hann átt eitthvert erindi að miðri nóttu úr svefnheimum, hefur hann og aðrir Flóabúar í sömu aðstöðu, getað notið tónlistar þeirrar sem berst úr byssukjöftum. Taktlausrar og án hrynjanda og byrjar alltaf aftur um það bil sem nátthrafnar láta sér detta í hug að nú sé þessu lokið.

Á hvað verið er að skjóta í svarta myrkri er ekki með fullu ljóst, en mikil er atorkan og eljan!

Og ekki er  gott að segja til um hvar höglin sem upp fara, koma að lokum niður.

Líklega er betra að vera ekki útigönguskepna í haga undir þessum kringumstæðum, né heldur mannskepna að sinna einhverjum erindum, sem vel getur komið til s.s. þegar bændur þurfa að sinna skepnum sínum.

Eitt sinn fyrir mörgum árum var undirrituðum boðið í jólamat og á borðum voru rjúpur. Sá sem bauð gerði það af góðum hug og vildi bjóða það sem honum þótti best og þó litlu kjötbitarnir (bringuvöðvar) af rjúpunum hafi ekki vegið þungt í vömb, þá bætti úr að þeir voru margir! 

Það voru sem sagt margar rjúpurnar sem fóru í að metta þá sem við jólaborðið sátu þetta kvöld og ekki þurfti þá að hafa áhyggjur af því að stofninn væri hætt kominn.

Nú er ástandið hins vegar verra og við vonum að ráðherrann taki erindi Ole Anton og félaga til alvarlegrar skoðunar, með það að markmiði að þjóðinni verði ekki gerð sú skömm að íslenska rjúpnastofninum verði endanlega eytt.

Forfeðrum okkar tókst að eyða geirfuglinum og það verður ekki tekið til baka. Eins er með rjúpuna, að ef of nærri stofninum verður gengið, er alls ekki víst að hægt verði að bæta fyrir þann verknað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...