Í Morgunblaðinu 19.10.2021 rekst lesandi á innsenda grein eftir Hauk Ágústsson fyrrverandi kennara.
Haukur er að fjalla um loftslagsbreytingar sem gengið hafa yfir Jörðina okkar í tímans rás og tímalínan er nokkuð löng á okkar mælikvarða eins og kunnugt er.
Sé farið yfir grein Hauks rifjast upp ýmislegt sem við eigum að vita fyrir en sem færst hefur aftar í skvaldri umræðunnar á liðnum tíma.
Og enn kemur orðið ,,tími" við sögu!
Okkur hefur verið kennt að um 10.000 ár séu liðin síðan síðasta ísöld telst hafa liðið hjá og að upp úr því hafi kviknað líf í landinu okkar er það kom undan jökli.
Það fylgir sögunni að vel sé líklegt að landbrú hafi verið milli Íslands og Evrópu á þessum tíma og að eftir henni hafi eina ,,íslenska" spendýrið refurinn, komið til landsins.
Haukur bendir á að Jörðin hafi hitnað og kólnað til skiptis og það mun rétt vera og hreint ekki ólíklegt að þær sveiflur megi rekja til virkni Sólarinnar.
Á þetta hefur verið bent áður og sá sem þetta ritar minnist þess að hafa lesið eftir rússneska vísindamenn ábendingar af þessum toga og það nokkru áður en farið var að hafa þær áhyggjur af hitnun Jarðar sem nú eru uppi vegna athafna manna.
Allt þetta breytir ekki því að vel getur verið að athafnir okkar og brölt hafi sitt að segja og í raun er engin ástæða til að efast um það. Meir en líklegt er að það bætist við og flýti ferlinu, en vegna þess vafa sem uppi er getur verið hollt að huga að hvert gengið er í aðgerðum til að hindra hitnunina.
Það má vel spyrja sig hvort það sé ástæða til að þjarma að því fólki sem er efnaminna og er að koma undir sig fótunum með aðgerðum sem augljóslega eru ætlaðar til að gera þeim efnameiri kleift að kaupa sér glæsibifreiðar með niðurgreiðslum frá Ríkinu svo sem nú er gert?
Hugmyndafræði sem augljóslega er ættuð frá Vinstri grænum, en sem samstarfsflokkarnir hafa mjúklega og af auðsveipni tileinkað sér?
Er jafnframt ástæða til að skattleggja diesil olíu og bensín sérstaklega til að þjarma að þeim sem aka um á bensín og diesel bílum og auk þess gera eldsneytið þeirra síðra með íblöndun svokallaðrar lífolíu, þegar augljóst er að um er að ræða fólkið sem augljóslega á erfiðara á með að nýta sér niðurgreiðslur Ríkisins á rafknúnu glæsivögnunum?
Þegar þess utan er auðvelt að benda á að svokölluð lífolía stendur ekki undir nafni þegar að er gáð?
Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður milli sömu flokka og áður sátu í ríkisstjórn.
Sé eitthvert bein er í nefinu á þeim flokkum sem með VG hafa starfað undanfarið kjörtímabil, þá ættu þeir m.a. að setja það skilyrði að þessari stefnu verði breytt.
Það ætti að reynast flokknum sem gekk fram til kosningabaráttunnar undir því slagorði að það ,,sé nú bara best að kjósa Framsókn" - líklega minnugir þess hvernig þeim gekk að gera Ísland að landi án eiturlyfja árið 2000 - ekki mikið mál að endurskoða þessa stefnu sína frekar en aðrar ,,stefnur" sem hann hefur áður sett fram.
Sjálfstæðisflokkurinn gekk ekki fram til kosninganna með jafn væmnum hætti og tapaði lítillega, en úr því rættist er honum bættist kostulegur liðsauki frá Miðflokknum!
Að þessu skoðuðu og skoðað í ljósi sögunnar, eru fremur litlar vonir til að efnaminna fólkið, barnafólkið og þau sem minna hafa yfirleitt, eigi sér forsvara í þeim flokkum sem þessa dagana eru að reyna að koma sér saman um ríkisstjórnarsamstarf.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli