Landbúnaðarmál og sannleiksmeðferð

Sum mál sem afgreidd hafa verið af meirihluta á Alþingi eru þess eðlis að á mörkum er, hvort hægt er að fjalla um þær á vitrænan hátt og ef til vill tekst það ekki hér!

Eitt þeirra mála sem svo er um er svokallaður Búvörusamningur sem gerður var við ríkisvaldið af Bændasamtökunum og síðan samþykktur á alþingi, en ef lesnar eru 12. og 13. grein þess samnings verður ljóst að sauðfjárræktin er stunduð sem afbrigði af verktöku og að það er íslenska ríkið sem er verktakinn!

Reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu er eitt atriði samningsins. Kunnara en frá þurfi að segja er, að reglugerðin er innantómt plagg og minnisstætt er undirrituðum, þegar hann spurði sauðfjárbónda um hvað í svokallaðri ,,gæðastýringu" fælist, þá svaraði hann því til að það væri: ,,að haka við í reit á þar til gerðu plaggi".

Tilefni umræðunnar sem komin er af stað er að á Vísindavefnum er samantekt og kostnaðarmat á afleiðingum fyrrnefnds búvörusamnings, þess sem lítil samstaða var um á Alþingi og sem margir þingmenn komu sér hjá að ræða, þegar hann var þar til umfjöllunar og síðan samþykktur af þeim sem viðstaddir voru.

Á Vísindavefnum er lagt mat á kostnað samfélagsins af samningsgjörðinni og niðurstaðan er að kostnaður ríkissjóðs sé nálægt því að vera 30 milljarðar króna á ári hverju og fram kemur að samningurinn gildi til tíu ára og sé rétt metið er kostnaður samfélagsins því á samningstímanum 300 milljarðar.

Formaður Bændasamtakanna ritar andsvar í Kjarnann við því sem fram kemur í samantekt Vísindavefsins og nIðurstaða hans er að ,,samhengi skorti í svari háskólaprófessors" þess sem tók saman afleiðingar samningsins á pyngju ríkissjóðs. Í andsvari formanns Bændasamtakanna kemur í inngangi fram að:

,,Ýmis­legt er hægt að gagn­rýna við hvernig höf­undur svars­ins, Þórólfur Matth­í­as­son, túlk­aði útreikn­inga og for­sendur Efna­hags og fram­fara­stofn­unar á stuðn­ingi við land­bún­að. Út í þá sálma verður þó ekki farið hér. Heldur verður farið yfir sam­hengi þessa stuðn­ings." 

Formaðurinn bendir á: ,,að það eru tvær stoðir opin­bers stuðn­ings við land­búnað á Íslandi. Ann­ars vegar eru það búvöru­samn­ing­arn­ir, sem segja til um hvernig beinum útgjöldum rík­is­ins er varið og svo er það toll­vernd­in."

Grein sinni lýkur formaður Bændasamtakanna svo:

,,En til þess að upp­lýst umræða geti átt sér stað þarf að setja hlut­ina í sam­hengi."
Og virðist sem honum finnst á það skorta í samantekt þess sem vann verkið fyrir Vísindavefinn.

Formaður Bændasamtakanna fjallar um málið sem íslenskur landbúnaður sé eitthvað eitt.
Hann veit þó mæta vel að svo er ekki. Íslenskur landbúnaður er fjölbreyttur og atvinnuvegurinn snýst svo sannarlega um margt fleira en sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðrækt og þó greina megi þess vott að menn hafi áttað sig á þessari staðreynd er örlitlu ákvæði var komið inn í búvörusamningana varðandi svínarækt, þá tekur samningurinn alls ekki yfir allt það sem flokka má sem landbúnað.
Auk þessara svokölluðu búvörusamninga var gerður sérstakur tollasamningur við Evrópusambandið árið 2015 sem öðlaðist gildi árið 2018 og gekk að mestu út á viðskipti með sauðfjárafurðir til ESB- landanna í skiptum fyrir heimildir til að flytja inn til Íslands alifuglakjöt, nautakjöt, svínakjöti og osta inn til Íslands frá Evrópusambandslöndunum. 

Þar sem farið er yfir forsendur og aðdraganda tollasamningsins er því haldið fram að: ,,Í júní 2011 óskaði Svínaræktarfélag Íslands eftir því við ráðuneytið að greininni  yrði tryggður útflutningskvóti til ESB eins og fram kemur í tillögu félagsins til Búnaðarþings 2011."

Hér mun vera farið frjálslega með, því hið rétta er að þáverandi formaður þess félags lét orð falla á þá vegu að ef verið væri að semja um viðskipti af þessu tagi, þá væri lágmarkið að samið væri um svínakjöt á móti svínakjöti en ekki svínakjöt frá ESB inn til Íslands fyrir lambakjöt frá Íslandi til ESB.

Hið sama gildir þar sem því er haldið fram að: ,,Í júní 2013 lýstu einstakir alifuglaframleiðendur því yfir á fundi með ráðherra að ef samið yrði um stækkun á kvótum fyrir kjúkling væri nauðsynlegt að Ísland fengi gagnkvæmni."

Það er óhætt að halda því fram að þeir sem snúa út úr orðum manna eins og þarna er gert séu illa traustsins verðir og þó hægt sé á góðum degi að sýna því skilning að íslenska Ríkið sé í vandræðum með sauðfjárframleiðslu sína, þá er ekki hægt að ætlast til að því sé sýndur skilningur þegar snúið er út úr og töluð orð sett í annan búning, líkt og hér er gert.

Sá sem þetta ritar var staddur úti á Spáni í hvíldar og skemmtiferð með fólki sínu þegar samningurinn fór að spyrjast út og mun seint gleyma þeim óróa sem greip um sig í röðum kjúklingabænda þegar það gerðist.
Menn áttuðu sig strax á því, að verið var að fórna hagsmunum þeirra fyrir hagsmuni sauðfjárræktarinnar. Sama kom síðan í ljós varðandi aðrar búgreinar svo sem nautgriparæktina, þegar mönnum varð ljóst að til stóð að skipta á heimildum fyrir kindakjöt frá Íslandi fyrir nautakjöt inn til Íslands.

Svör þáverandi landbúnaðarráðherra, núverandi formanns Framsóknarflokksins og samgönguráðherra voru á fundi um málið á Hótel Selfossi, að þeir (þ.e. nautgripabændur) yrðu bara að standa sig! (Eða orðrétt: ,,Þið verðið bara að standa ykkur!")

Hafi þeir og aðrir bændur sem fórnað var á altari sauðfjárræktarinnar við gildistöku þessa samnings staðið sig, þá var það þrátt fyrir samninginn, en ekki vegna hans og sú framistaða verður seint þökkuð landbúnaðarráðherra þeim sem sem var árið 2015 né meðreiðarsveinum hans við þessa samningsgerð.

 Um samninginn var engin samstaða meðal bænda heldur þvert á móti. Samningurinn var sem stunga í bak þeirra sem fórnað var og í ljós kom að hann þjónaði ekki heldur þeim tilgangi að leysa vanda sauðfjárbænda, enda enginn raunverulegur skortur á lambakjöti á mörkuðum Evrópusambandsins.

Augljóst var samt að tilgangur samningsins var að hygla ríkisreknu búgreininni, sauðfjárræktinni, á kostnað annarra búgreina og trúlega hafa þeir sem stóðu að baki samningamönnum íslenska Ríkisins, ekki haft skilning né yfirsýn til að átta sig á að ,,vandi" offramleiðslu á kindakjöti yrði ekki leystur með því að ,,selja" kindakjöt inn á markað sem ekki var til.

Orðin sem lesa má í fyrstu línum samningsins: 
,,Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar." eru hreint rugl, en lýsa því vel að skilningur og yfirsýn yfir landbúnaðarmál var (og er?) lítill sem enginn.

Hvort þar hefur orðið breyting á verður tíminn að leiða í ljós, en ekki er mikil ástæða til bjartsýni og réttast fyrir alla sem í landbúnaði starfa að vera á verði og standa fast í ístaðinu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...