Það er mörg mengunin í heiminum.
Hérlendis hefur verið tekið hart á þeim voða eins og okkur er kunnugt.
a) Með skattaívilnunum til þeirra sem kaupa rafdrifna lúxusbíla. (Sá eini sem vitað er til að hafi að því fundið - innan ríkisstjórnarinnar - er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra!)
b) Með íblöndun jurtaolíu í eldsneyti hinna bílanna, þ.e. þeirra sem brenna bensíni og gasolíu og þess verið gætt að sú lífræna, mengaði sem mest á leiðinni til landsins til að tryggja að úr henni væri öll mengunarárátta, þegar hingað væri komin.
c) Rekinn hefur verið tappi í gin Kötlu og annarra eldstöðva til að loka fyrir útstreymi óæskilegra lofttegunda. (Merardalir undanþegnir vegna ferðamannastraums og gjaldeyristekna).
d) Unnið hefur verið markvisst að því að hindra byggingu fallvatnsvirkjana, jarðgufuvirkjana og annarra slíkra umhverfisvænna fyrirbrigða
e) Gamli Herjólfur hefur verið sendur til Færeyja til að hann mengi þar en ekki hér.
f) Greiddur hefur verið niður kostnaður vegna farþegaflugs innanlands í trausti þess að mengunin frá því, verði eftir í háloftunum.
g) Þess hefur verið gætt að íslenskir bændur rækti sem minnst af kornfóðri í skepnur sínar til að tryggja að mengun af slíkri starfsemi verði eftir erlendis.
Margt fleira mætti til telja og með sanni má segja að margt og mikið hafi verið gert og því þarf að halda til haga.
Gleymum því ekki!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli