Bjarni, Jón og ,,séra Jón"

Á blaðsíðunni ,,Skoðun" í Fréttablaðinu 8.11.2022 kennir fjögurra grasa, ef svo má segja. 

Fyrst er þar að telja grein eftir ritstjórann Sigmund Erni Rúnarsson þar sem hann fjallar um Landsfund Sjálfstæðisflokksins og niðurstöðu þeirrar samkomu.

Sigmundur minnir á að sitjandi formaður flokksins nýtur ekki nema 40% fylgis landsfundarfulltrúanna og segir:
 ,,Varla telst það vera meira en varnarsigur þegar í ljós kemur að sitjandi formaður Sjálfstæðisflokksins til rösklega þrettán ára reynist ekki njóta stuðnings 40 prósenta af forystumönnum flokksins á æðstu samkomu hans".

Fer hann síðan yfir hvernig þessi hreyfing hægrimanna hafi verið að missa fylgi í Borgarstjórn byggi tilveru sína í ríkisstjórn á að Vinstri grænir fari þar með forystu og haldi um taumana í stjórninni. Eftirfarandi texti ritstjórans er nokkuð góð lýsing á stöðunni sem Sjálfstæðisflokkurinn er í:

,,Það er svo út af fyrir sig ein­stakt í sögu Sjálf­stæðis­flokksins að nú­verandi for­maður hans hafi ekki setið nema ellefu mánuði á stóli for­sætis­ráð­herra í allan þennan tíma – bráðum í hálfan annan ára­tug – og er lík­lega eini for­sætis­ráð­herrann í sögu þjóðarinnar sem ekki hefur náð að flytja þjóðinni ára­móta­á­varp sitt á valda­stóli. Þetta er al­ger­lega úr takti við alla fyrir­rennara hans sem gengu svo að segja að því vísu að taka við valda­taumunum og leiða ríkis­stjórnir eftir hverjar kosningarnar af öðrum."

Framsóknarflokkurinn kemur ekki við sögu í greininni, enda enginn landsfundur á þeim bæ til umræðu og verður trúlega ekki talinn umræðuverður þegar hann verður haldinn. Líklegt er samt að hann verði haldinn einhvern tíma. Því til þess eru hrútarnir skornir á þeim bæ, að menn hittist og jarmi sig saman.

Mynd Sigmundar teiknara, sem er til hægri við við grein Sigmundar ritstjóra, þar sem greina má Bjarna formann við alkunnar matreiðslukúnstir (sem undirritaður hélt reyndar að væru bundnar við kökugerð!) undirstrikar stöðu Flokksins sem einu sinni var með stóru effi.

Neðarlega og til hægri (hvað annað!) er svo grein eftir þær fóstsystur Katrínu Jakobsdóttur og  Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þar sem þær segja frá því að:

 ,,Í gær tilkynntu ríkisstjórnir Írlands og Íslands á fundi í Strassborg að það kæmi í hlut Íslands að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023, í lok formennskunnar. Í tæplega 75 ára sögu ráðsins hefur aðeins þrívegis verið haldinn leiðtogafundur. Innrásin í Úkraínu verður þar í brennidepli og í samhengi hennar mikilvægi þess að aðildarríkin verji sameiginleg gildi stofnunarinnar. Fundurinn verður umfangsmesti alþjóðlegi fundur sem fram hefur farið á Íslandi." 

Síðar segja þær frá því að veturinn komi til með að verða erfiður vegna ,,innrásar Rússlands í Úkraínu" og verður ritara þá hugsað til þess hvernig ríkisstjórnin sem þær stöllur sitja í, hefur tekið á málum fólks sem er á flótta, undan styrjöldum í Úkraínu, en einnig öðrum löndum.

Við höfum getað fylgst með því að undanförnu þegar flóttafólk hefur verið flutt með brauki, bramli og ofbeldi úr landi og þegar rússnesku pari, sem ekki á von á góðu ef það fer til heimalandsins Rússlands, er neitað um vist þó kunnugt sé það á Íslandi og nær engar sérstakar líkur séu á að búseta þess í landinu myndi ríða íslensku þjóðinni á slig.

Bandarískur maður sem unnið hafði sér heimsmeistaratitil í skák og sem var orðinn einskonar flóttamaður frá landi sínu var sóttur til Japan fyrir nokkrum árum og veittur íslenskur ríkisborgararéttur hratt og fljótt. 
Um það var almenn sátt.
Úkraínar sem eru að flýja land sitt,  fá blessunarlega heimild til að vera í landinu okkar þar til um hægist og er það góð breyting frá því sem áður var.
En að rússneskt par sem er í svipaðri stöðu, fái vist í landinu okkar kemur ekki til greina að mati þeirra sem með þau mál fara!




 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...