Landbúnaðarráðherra var á ráðstefnu í París ,,sem haldinn var í vikunni".
Þar mun margt hafa verið spjallað og loftslagsmálin voru víst ofarlega á baugi og svo var um fleira.
Því fram kemur að menn voru að velta því fyrir sér hvernig fara ætti að því að framleiða meiri mat fyrir sífellt fleira fólk og jafnframt, tryggja þeim sem framleiðsluna stunda viðunandi afkomu.
Ráðherra málaflokksins varð margs fróðari á ráðstefnunni og var upplýstur um margt mikilvægt og kom heim með skýra sýn á hvernig takast skal á við landbúnaðarmálin!
Fyrir nokkrum mánuðum bjó ráðherrann til svokallaðan ,,Spretthóp" úr nokkrum einstaklingum til að leysa vanda sem skapaðist hjá bændum vegna stríðsins í Úkraínu.
Stríðið olli sem kunnugt er, truflunum á aðfangaflutningum til bænda, auk þess sem áburður, fóðurvara, vélar og flest sem nauðsynlegt er til matvælaframleiðslu hækkaði stórlega í verði.
Hópurinn stóð undir nafni og kom saman fljótt og örugglega og komst að því að vandi bænda vegna þessara atburða væri mikill og bráður og því yrði að bregðast við og leysa hann í einum harða ,,spretti"!
Bráðastur var vandi sauðfjárbænda að mati hópsins líkt og búast mátti við - því þar er málið næst ríkissjóði.
Við því var brugðist snarlega og kindakjötið hækkað um tugi prósenta svo sem neytendur hafa komist að og lesa má um í Bændablaðinu.
Rétt er þó að taka fram að hækkun verðsins var gerð af afurðastöðvum bændanna sjálfra, því spretthópurinn var og er enn: í startholunum og kannski rúmlega það.
Aðrar búgreinar, nema ef vera kynni kúabúskapurinn bíða enn eftir úrlausn sinna mála.
Eins og flestir vita og landbúnaðarráðherra líka, þá bitna hækkanir á aðföngum á nautgripa, svínarækt, alifuglarækt og garðrækt, en sauðfjárræktin tók hækkunina einna fyrst út í hækkuðu verði á áburði.
Nautgriparækt til kjötframleiðslu dróst snögglega saman og sem dæmi um það má taka, að ekki er lengur grundvöllur fyrir eldi nautkálfa af mjólkurkúakyni til kjötframleiðslu og var því snarlega hætt á mörgum búum, ef ekki öllum.
Gera má ráð fyrir að við séum í því efni komin á þann stað sem áður var, að nautkálfar sem koma í heiminn frá mjólkurkúastofninum, fari langflestir strax í sláturhúsin, í stað þess að vera aldir upp í sláturstærð.
Verður ritara þessa pistils þá hugsað til þess þegar hann spurði matreiðslumeistara á flutningaskipi, sem var í Ameríkusiglingum fyrir nokkrum áratugum að því, hvaða nautakjöt hann teldi best?
Það stóð ekki á svarinu: Íslenskt, því það er fíngerðast og mýkst!
Nú hefur sem sé dregið stórlega úr framleiðslu á því kjöti og óvíst um hvenær og hvort hún mun komast í sama horf og áður.
Það tekur nefnilega langan tíma að ala upp naut og þó byrjað yrði á eldi að nýju á næstu vikum, mun líða a.m.k. ár og helst tvö ár, þar til kjöt af þeirri framleiðslu kemur á markaðinn.
Alifugla og svínabúskapurinn urðu eins og aðrar greinar, fyrir skaða vegna hækkana á aðföngum sem enn hefur ekki þótt ástæða til að bæta, með öðru en orðum um að það verði gert ef til vill og kannski og einhvertíma, en hvort við það verður staðið veit víst enginn.
Fari hins vegar svo að framleiðslan detti niður, er lausnin handan við hornið því alltaf má náttúrulega flytja inn!
Það er að segja, ef útlendingarnir verða aflögufærir og ef sú leið verður farin, má líka flytja inn kjöt af íslenska nautgripastofninum, er það ekki annars?
Það verður: ,,Landbúnaður til framtíðar"!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli