Fasabókarvinur minn, sem eftir því sem ég best veit, er fyrrverandi bóndi, setti eftirfarandi færslu sem hér er skáletruð og óbreytt inn á Fasbók í morgun:
,,Þessi fyrirhugaði tollfrjálsi óhefti innflutningur á landbúnaðarvörum frá Úkraínu er ekki sérstaklega ætlaður til þess að hlúa að heimilum landsmanna. (Hagur heimilanna hafði verið nefndur í athugasemdunum). Þeim er ætlað að styðja landbúnað í Úkraínu. Til þess að geta stutt landbúnað í Úkraínu yrðu landsmenn að beina viðskiptum sínum að hinum innfluttu landbúnaðarvörum, aðallega kjúklingum, þaðan og þar af leiðandi frá íslenskum landbúnaðarvörum, aðallega kjúklingum. Fjárútlát almennings til stuðnings landbúnaði í Úkraínu yrði líklega engin, ef kjúklingurinn er á sambærilegu verði, bara viðskiptin færð. Ókeypis ,,stuðningur". Það yrðu bara þessi 3 kjúklingafyrirtæki sem sem styddu Úkraínu, með eftirgjöf og líklega tapi. Það yrði framlag Íslendinga. (Það var komið fram áður í athugasemdunum að það væru aðallega 3 stór fyrirtæki sem framleiddu kjúklinga. Sjálfur er ég ekki kunnugur því"
Næsta setning er rétt, að því leytinu til, að ætla má, að þeir sem fyrir innflutningi hafa barist telji sér trú um að um stuðning við úkraínskan landbúnað geti verið að ræða og að þeir viti ekki betur en að svo sé. Hvernig og hvort þeir hafa kynnt sér málin og komist að þeirri niðurstöðu er óljóst.
Hér verður hlaupið yfir næstu setningu og einnig þar næstu, sem eru í raun endurtekning á því sem fyrr var fram komið nema þar sem sagt er að um ,,ókeypis" stuðning yrði að ræða. Því það er ekki ókeypis að skaða íslenska matvælaframleiðslu og það er ekki ókeypis að stofna lýðheilsu í voða með innflutningi á kjöti, sem eins líklegt er að sé mengað af bakteríum með ónæmi fyrir sýklalyfjum.
Höfundur ræðir um kjúklingarækt á Íslandi sem rekstur þriggja fyrirtækja og virðist þar með ganga út frá því að þar sem alifuglasláturhúsin séu þrjú þá séu bændurnir (framleiðendurnir) þrír!
Eins og augljóst má vera, er hér um hugsanavillu að ræða, því íslenskir alifuglabændur er nokkuð margir og starfssvæði þeirra er allt frá og með Húnavatnssýslu, vestur um og austur að Skaftafellssýslu svo bloggara sé kunnugt.
Hvort hinn fyrrverandi bóndi telur sauðfjárbændur jafnmarga og sláturhúsin sem slátra sauðfé er ritara ekki kunnugt, en telur sig vita að sauðfjárbændur muni ekki vera til í að skrifa upp á slíka túlkun mála og þaðan af síður kúabændur eftir því sem gera má ráð fyrir.
Við þetta er því að bæta í lokin, að það er ekki ókeypis að skaða innlendan atvinnurekstur til að heildsalar geti hagnast á innflutningi og þaðan af síður þegar um varasama vöru er að ræða.
Því sé hausinn laus á skaftinu, er ekki gott að vita hvert hann flýgur og á hverju hann lendir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli