Í Morgunblaðinu í dag er farið yfir ákvörðun utanríkisráðherrans um lokun sendiráðsins í Moskvu í grein sem Andrés Magnússon tekur saman.
Það vakti vissulega talsverða athygli þegar ráðherrann trommaði upp með það að sendiráðinu í Moskvu yrði lokað, bara sisvona og þegar það hentar mér.
Ákvarðanir í sambærilegum málum eru langoftast teknar með yfirveguðum hætti; eru ekki skyndigjörningur sem tekinn er í tilfinningaofsa. Það var eigi að síður gert og það mun væntanlega koma í hlut seinni tíma stjórnmálamanna að vinda ofan af þeirri ákvörðun. Ákvörðunin var fyrirvararlaus eins og kemur fram í fyrirsögn greinarinnar.
Margs er að minnast, þegar hugsað er til baka, varðandi framferði stórveldanna á liðnum tímum, en lokunin er dæmalaus, nema að hægt er að finna dæmi, þar sem Ísland átti í erjum við Breta vegna útfærslu landhelginnar.
Samskipti við erlend ríki eiga tæpast að stjórnast af því hvernig ætla megi að legið hafi á einhverjum ráðherra þann og þann daginn.
Frammi fyrir því er nú staðið af núverandi stjórnvöldum og gera má ráð fyrir að forsætisráðherranum sé vandi á höndum, nema hún sé sammála ákvörðuninni.
Utanríkisráðherra Rússlands sem greinarhöfundur segir vera Íslandsvin lýsti því strax yfir að ákvörðuninni yrði ,,óhjákvæmilega svarað" og hafa sjálfsagt fáir búist við öðru. Hvort ráðherrann okkar hefur reiknað með því eða ekki vitum við ekki neitt um. Hitt er vitað að þegar slegið er frá sér í bræði, má gera ráð fyrir að slegið verði til baka.
Millifyrirsögnin í greininni ,,yfirveguð skyndiákvörðun" segir talsvert um ákvarðanatökuna sem hér er verið að fjalla um. Það þarf talsvert mikla snilli til, að geta tekið skyndiákvörðun að yfirvegun!
Í lok greinarinnar segir:
,,Ríki eiga ekki vini, aðeins hagsmuni" og síðar ,,það má sýna Úkraínumönnum vinarþel með allskonar hætti án þess að fórna íslenskum hagsmunum að óþörfu".
Grein Andrésar er vönduð og áhugaverð og óhætt að hvetja áhugasama til að lesa hana sér til fróðleiks.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli