Í gær bárust af því fréttir að búið væri að banna hvalveiðar, u.þ.b. sólarhring áður en þær áttu að hefjast.
Nokkru áður spurðist til ferða manns á siglingu ekki fjarri, en sá hafði unnið sér það til frægðar að standa að baki þess að sökkva hvalveiðiskipunum þar sem þau lágu bundin við bryggju.
Hvort eitthvert samband er þarna á milli eða ekkert vitum við ekki um sem stendur, en alla vega fréttist ekki af því að sent hefði verið varðskip til þess að sækja lýðinn.
Svo neyðarlegt sem það er, þá fréttist á sama tíma af hvalreka á Vatnsleysuströnd, en enn sem komið er hefur ekkert spurst um, að Vinstri græn séu mætt á staðinn til að kanna málið.
Eflaust munu þau bregðast við og reyna sem þeim er unnt að drösla hræinu út í sjó og náttúrulega að reyna að blása lífi í það, en vitanlega eftir að hafa kannað hvort Jónas leynist í því!
Það alvarlega í stöðunni er að stjórnsýsla umhverfisvæningjanna hefur trúlega skapað þjóðinni bótaskyldu, vegna vinnubragðanna.
Formaður Framsóknarflokksins vill fá opinn fund með ráðherranum sem að banninu stendur og kallar eftir ,,meðalhófi", sem torvelt verður að fá fram þegar vinstrigræningjar eiga í hlut; þeirra aðall er að taka ákvarðanir þegar þeim finnst þess þurfa og af því, að þeim finnst sem þeir eigi að gera það.
Gera fyrst og hugsa svo og ef tjón hlýst af, að láta þjóðina bera tjónið.
Þau varðar ekkert um fyrirtækið sem að hvalveiðunum hefur staðið um áratuga skeið og ekkert um fólkið sem fyrirvaralaust missir vinnu sína.
Hvað hinir flokkarnir í ríkisstjórninni hafa um málið að segja getum við séð á klippunum hér að ofan og við höfum líka séð það í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi.
Sama dag bárust af því fréttir að allir ættu að éta gras og alls ekki kjöt, en leyfilegt yrði að borða fisk, svo furðulegt sem það er.
Hvalveiðibannið mun vera tilkomið vegna máls sem kom upp á síðustu vertíð, þegar veiði dýrs lukkaðist illa svo ekki sér meira sagt og í stað þess að krefjast úrbóta, skal nú hvalveiði vera bönnuð.
Það þykir fínt að leika sér að því að kvelja laxfiska á þann hátt að eftir að öngullinn hefur verið í þá settur, hefst veiðimaðurinn handa við að ,,þreyta" fiskinn og að lokum er hann dreginn á land, öngullinn losaður úr honum, fiskinum sleppt og leikurinn hafinn að nýju.
Nú gerum við ráð fyrir að laxveiðar af þessu tagi verði bannaðar fyrirvaralaust, svo ekki sé nú minnst á hreindýraveiðar sem vissulega geta farið allavega ef illa tekst til.
Samræmi í gjörðum er ekki aðall tilfinningabunktanna sem búið hafa um sig í VG en þau eru svo óumræðilega góð - að eigin mati - að þau kunna sér ekki læti þegar gæska og mannúð er annarsvegar.
Hætt er við að um þau fari, þegar tilfinningalíf plantna rennur upp fyrir þeim og spurningin er ekki hvort heldur hvenær.
Þá verður fyrst tekið til við að banna, stöðva og hefta!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli