Flokkar riða og rísa

 Í Heimildinni er fjallað um stöðuna í íslenskri pólitík eins og hún blasir við þessa dagana.

Skjámynd 2023-07-29 060620Fyrst er að nefna grein þar sem rætt er við Ólaf Þ. Harðarson undir yfirskriftinni ,,Líklegast að Samfylkingin sé að sópa til sín lausafylginu", þar sem Ólafur kemst að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé að fá einna mest af fylgisaukningu sinni frá Framsókn og Vinstri grænum.

Önnur grein um sama mál segir frá því að Samfylkingin sé langstærst og að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn hafi aldrei verið lægra.

Sú þriðja af þeim greinum sem hér eru til umræðu, ber yfirskriftina ,,Brúnin þyngist á sjálfstæðismönnum sem uppnefndir eru ,,Karlakórinn grátbræður" og er þar verið að vísa til þess, að nokkrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins hafa viðrað skoðanir sínar um stöðu mála.

Svo vikið sé fyrst að þeirri síðastnefndu, þá mun uppnefnið vera rakið til greinar sem formaður Miðflokksins skrifaði og verður það seint talið góð viðmiðun og ættu sjálfstæðismenn ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af þeim orðum.

_ _ _

Samfylkingin hefur um nokkuð langan tíma verið að sækja stöðugt á í könnunum og ekki er ótrúlegt að það megi að hluta rekja til formannsskiptana sem áttu sér stað á landsfundi flokksins. Kristrún kemur fersk inn í stjórnmálin og ætti að hafa vit á fjármálapólitík, en á það hefur skort í stjórnmálunum. 

Haldi flokkurinn því flugi sem hann er á nú um stundir, má gera ráð fyrir að næstu kosningar verði sögulegar; gamlir flokkar fái langþráð frí og nýir og ferskari vindar muni blása um hinn pólitíska völl.

Að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson uppnefni þá sem stigið hafa fram úr röðum sjálfstæðismanna að undanförnu, er óhætt að telja hinum framstignu til hróss.

Sigmundur klauf Framsóknarflokkinn sem frægt varð eftir fund sem haldinn var í Háskólabíói, rigsaði með slætti miklum yfir á Hótel Sögu - sem nú er liðin saga og til vitnis um glæfralegar ráðstafanir fjármuna þeirra sem vanastir eru að fá aura sína frá ríkinu,

Svo gæti farið að Framsóknarflokkurinn gufaði upp í sveitamennsku sinni og ýmsu poti liðinna ára og spurning hvort það væri mikill söknuður að því þó svo færi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ramman reip að draga, sitjandi í ríkisstjórn sem er undir forystu flokks sem fyrst og fremst þrífst á draumórum, sem eru víðsfjarri raunsæi.

Þyturinn sem verið hefur að undanförnu er vegna furðulegrar framgöngu ráðherra VG í hvalveiðimálinu, þar sem hópur fólks var sviptur vinnu sinni án raka, en vegna tilfinninga.

Að sitja í ríkisstjórn með flokki af því tagi sem Vinstrigræningjar eru, er ekki vænlegt til vinsælda þegar til lengdar lætur. Þar á bæ ríða húsum hégiljur úr ýmsum áttum og aldrei að vita hver þeirra kemur næst upp úr sekknum.

Þetta hlutskipti hefur Sjálfstæðisflokkurinn kosið sér eftir Borgarnes- kosningaúrslitin alræmdu, þar sem niðurstaðan varð þannig að menn sem sitja áttu á þingi vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara.

Einn var svo skekinn eftir slaginn, að hann ákvað að gerast sjálfstæðismaður og þótti sumum mannsbragur að, en öðrum ekki!

Ætli sé ekki bara best að kjósa Framsókn var jarmað í kosningabaráttunni, en nú er svo komið að einna líkast er sem riða, af einhverju tagi sé búin að stinga sér niður í pólitíkinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...