Í Bændablaðinu sem kom út 20/7/2023 er ítarleg grein um lausagöngu sauðfjár.
Blaðamaður Bændablaðsins tekur saman ítarlega grein um lausagöngu sauðfjár í nýjasta eintaki blaðsins og ræðir við bændur, lögfræðiunga, sveitarstjórnarmenn og forystumenn í Bændasamtökunum.
Niðurstaðan virðist vera sú að málið sé flókið og erfitt og allt að því óleysanlegt og að sauðfjárbúskapur verði ekki stundaður á þann veg, að sauðfjárbóndinn ,,gæti síns fjár".
Vegagerðin þarf að girða með vegum og setja niður ristahlið víðar en gert hefur verið sé rétt skilið, en það sérkennilega er, að við sem búum í sveit höfum veitt því athygli, að vegagerðin gerir einmitt þetta, þ.e. girðir með vegum, þar sem þeir fara í gegnum lönd og/eða á landamerkjum, en að auki leggur hún til efni til viðhalds girðinganna.
Vandamál vegna beitar sauðfjár er að mestu úr sögunni á því landsvæði sem sá sem þetta ritar býr á, þeir sem halda sauðkindur virðast að mestu hafa tekið upp þann sið að beita því á land sem þeir annað hvor eiga, eða hafa umráðarétt yfir.
Á árum áður var hins vegar ætlast til þess að kindur fengju að bíta gras þar sem þætti best að vera og jafnframt var þess krafist að landeigendur skiluðu þeim í hendur eigenda að grasáti loknu. Sá ,,siður" er aflagður eftir því sem ritari veit best, en svo er að sjá sem það sé að einhverju leiti svæðisbundið, því enn er deilt um svokallað ágangsfé, þ.e. fé sem gengur í löndum nágranna sauðfjárbænda.
Prestur nokkur á Austfjörðum tekur upp hanskann fyrir þá sem beita vilja lönd annarra og kallar þá sem ekki vilja kindur í landi sínu, ágangsfólk í Fésbókarpistli.
Pistillinn er nokkuð langur og auðséð að málið liggur þungt á guðsmanninum.
Hvort sá í efra tekur undir málflutninginn er ekki vitað en líklegt er að borðorðaboðskapurinn þvælist fyrir presti og sé það rétt, verður hann trúlega að eiga það við yfirboðara sinn, þann sem boðað er oftast, en líklega ekki alltaf, að menn skuli leggja trúnað á og sækja styrk til.
Pistilinn geta menn nálgast sér til fróðleiks á Fésbókinni, eins og áður var getið, en rétt er að taka fram að þangað verður tæplega sótt fræðsla um hvernig hægt sé að auka þekkingu sína á umburðarlyndi og kristilegu siðgæði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli